Frosti Logason, ritstjóri Nútímans skrifar:
Í sífellt hraðari og háværari upplýsingasamfélagi hefur öll umræða orðið brothætt. Hún molnar í sundur í skotgröfum þar sem tilgangurinn hefur farið úr því að skilja yfir í það að sigra. Tjáningarfrelsi og lýðræðislegar rökræður mega sín lítils og fólk forðast að taka til máls af ótta við að verða ranglega dæmt eða jafnvel slaufað úr samfélaginu. Fjölmiðlarnir, sem áður héldu utan um samræðu samfélagsins, nutu mikils trausts og veittu stjórnvöldum aðhald, hafa misst hluta af því hlutverki til upplýsingaóreiðu, bergmálshella og skammsýni.
Nýverið hefur Nútíminn tekið þátt í tilraun sem reynir að snúa þessari þróun við. Við höfum prófað skor- og athugasemdakerfið Speakness, sem byggir á þeirri einföldu hugmynd að skapa rými þar sem fólk getur rætt málefni af alvöru, án þess að hræðast og án þess að ráðast að hvort öðru. Kerfið hvetur til ábyrgðar í samtali, en án ritstýringar eða útilokunar. Um leið hvetur það til ábyrgðarfyllri og vandaðri blaðamennsku, sem má færa rök fyrir að hafi mætt afgangi í upplýsingasamfélagi sem setur gullnar mínútur í forgang á tíma upplýsingahraða sem hefur aldrei áður sést.
Að endurvekja traust til fjölmiðla
Það er auðvelt að afgreiða tæknilausnir eins og þessa sem „enn eitt“ samfélagsmiðlatólið; enn einn tæknisprotann af mörgum. Á bakvið Speakness liggur þó dýpri hugsun og spurningin um hvernig hægt sé að endurvekja traust til fjölmiðla, til málefnalegra umræðna og til hvors annars. Leikbreytir sem lyftir upp vandaðri blaðamennsku og leyfir sjálfu fólkinu að kjósa hvernig efni það vill sjá og hvernig samskipti það vill eiga við hvort annað.
Skoðanaskipti eiga að snúast um málefnið en ekki manninn og að hlusta raunverulega á aðra í stað þess að samkjafta ekki við ólíkar spegilmyndir inni í bergmálshellum sem gera ekkert annað en að efla hatur og skautun. Færri nettröll. Minni óreiða. Hægt er að ímynda sér hversu mikið það myndi gefa fólki að byrja að brjótast út úr hellunum; að „neyðast“ til að hlusta á andstæð sjónarmið og koma mögulega auga á nýjar hliðar. Að fræðast af ólíkum fréttamiðlum, ólíkum fréttum og ólíku fólki. Skapa betra upplýsingasamfélag og efla heilbrigð skoðanaskipti, þótt andstæð séu.
Taktu þátt í umræðunni
Speakness er ekki töfralausn. En það er vel þróuð hugmyndafræði íslensks sprotafyrirtækis sem undanfarin sjö ár hefur unnið með sitt alþjóðlega bakland að lausn sem tekur traust, samfélagsgildi, lýðræði og mennsku alvarlega. Við teljum að það eitt og sér sé verðmætt framlag, bæði fyrir fjölmiðla og samfélagið í heild og hvetjum okkar lesendur til að skrá sig inn, kjósa um fréttir og taka virkan þátt í umræðunni.
Frosti Logason
Ritstjóri Nútímans