Guðrún Bergmann, rithöfundur og fyrirlesari, skrifar…
Í flestum löndum Austur-Evrópu er mikil ræktun á hampi, sem hægt er að nota í ótal afurðir, allt frá lyfjum og upp í byggingariðnað. Samt sem áður eru reglur um notkun hamps nokkuð á reiki og ekki er samræmi milli allra stofnana sem að málinu koma.
Slóvenía er eitt af þessum löndum, en samt lenti hjúkrunarfræðingurinn Jasna Kova, aðeins á vegg þegar hún var að skrifa meistararitgerð sína.
Ritgerðin fjallaði um reynslu foreldra barna sem nota kannabínóða eð önnur kannabisefni sem lyf við sjúkdómum sínum. Hún fékk höfnun frá Heilbrigðisráðuneytinu í Slóveníu á verkefninu sem hún hafði valið, þar sem því var haldið fram að hún væri að hvetja til ólöglegrar neyslu á kannbis. Jasna fékk því ekki að halda áfram með verkefni sitt fyrr en leiðbeinendur hennar, sem voru læknar og vísindamenn, lögðu orð í belg og skýrðu málið nánar.
CBD NOTAÐ BÆÐI FYRIR UNGA OG ELDRI
Þrátt fyrir þetta er kannabis notað við hjúkrun, en Jasna segir að enn skorti á kennslu og þjálfun hjúkrunarfræðinga, meðal annars til að þeir geti gefið efnið í réttum skömmtum og viti hvaða form af CBD eða kannabínóðum henti hverjum og einum best.
CBD eða kannabínóðar eru notaðir víða meðal eldri borgara landsins og þegar Jasna vann eitt sinn á einkareknu hjúkrunarheimili fyrir eldri borgara, þurfti hún ekki að vita mikið um skammta eða slíkt. Eldri borgararnir vissu allt um málið og það voru því þeir sem kenndu henni.
HAMPUR FYRIR FRAMTÍÐINA
Jasna Kova verður einn af fyrirlesurunum á ráðstefnunni HAMPUR FYRIR FRAMTÍÐINA sem haldin verður í Salnum í Kópavogi dagana 11. og 12. október. Hún mun þar fjalla ýtarlegar um notkun CBD við hjúkrun í Slóveníu og þann árangur sem það hefur borið. Jasna er stofnandi og núverandi formaður samtakanna MEDCA, sem eru samtök hjúkrunarfólks og annarra sem vinna með kannabínóða við meðhöndlun sjúklinga.
Jafnframt er Jasna meðlimur ACNA eða American Cannabis Nurses Association. Þangað leitaði hún eftir aðstoð þegar hún var að vinna meistararitgerð sína og stofnaði í framhaldi af því MEDCA í Slóveníu. Það er væntanlega mjög áhugavert fyrir þá sem stunda hjúkrun hér á landi að kynna sér þá þekkingu sem Jasna býr yfir.