Andrea Fáfnis Ólafs skrifar:
Ég legg hér með til við ríkisstjórn Íslands, Alþingi, forseta og alla landsmenn að kvennafrídagurinn verði hér eftir hafður rauður dagur í dagatali okkar og verði þannig frídagur fyrir alla á vinnumarkaði. Þannig verði bæði þessum degi og almennri baráttu kvenna fyrir jafnrétti gert hátt undir höfði sem sigurdegi. Munu komandi kynslóðir fagna öllum litlu og stóru sigrunum og þeim gríðarlega árangri sem náðst hefur fyrir íslenskt samfélag á ýmsum sviðum. Á það ekki einungis við upprunalegu kröfu um réttindi og laun á vinnumarkaði, heldur teygir árangurinn sig til ýmissa sviða samfélagsins, s.s. eins og stjórnmálaþátttöku, stjórnun fyrirtækja, menntunarstigs og fleira.
Í gær héldum við upp á kvennafrídaginn og að fimmtíu ár væru liðin frá því að um 90% kvenna á Íslandi lögðu niður störf til að sýna fram á mikilvægi kvenna á vinnumarkaði og til að krefjast sömu réttinda og launakjara og karlar höfðu fyrir sín störf. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá og læt ég ykkur eftir að finna allar tölulegar upplýsingar er þessu við kemur og styður vel við slíka ákvörðun. Það er að mínu mati gríðarlega mikilvægt að þessum degi verði hér eftir fagnað sem sigri og verði gæddur jákvæðri orku fyrir okkur sem nú lifum og munum þessa sögu, sem og komandi kynslóðir. Sigrarnir hafa unnist fyrir tilstuðlan mikilvægrar baráttu kvenna, en ekki hvað síður fyrir samvinnu kvenna og karla. Verði tekið af skarið og þessari hugmynd hrint í framkvæmd með samvinnu ríkisstjórnar, Alþingi og forseta verður hann frábær dagur til framtíðar og verður því síður gerður að bitbeini á vinnustöðum vegna kvennafrís og endalausra riflilda þeirra sem það vilja um hvort að það á rétt á sér miðað við stöðuna í dag.
Konur eru núna í meirihluta í ríkisstjórn, forsætisráðherra er kona og enn önnur kona situr í embætti forseta á Bessastöðum. Kynjahlutfall er nokkuð jafnt á Alþingi. Ég bið ykkur sem ábyrgð berið og með völdin farið að taka þetta litla fræ sem hugmynd mín er, gróðursetja og festa rætur í lögum frá Alþingi og saman tökum við höndum og látum það vaxa í risastórt tré út í samfélaginu. Ef ekki núna, hvenær þá?
Andrea Fáfnis Ólafs
Undirrituð er fyrrum baráttukona fyrir alls konar, núverandi listamaður og hugmyndasmiður.