Ofsóknir á kristnum: Hvers vegna heyrist svo lítið um þær á Íslandi?

Á hverju ári eru tugir þúsunda kristinna manna ofsóttir, reknir á flótta eða drepnir vegna trúar sinnar. Samkvæmt árlegri skýrslu samtakanna Open Doors eru kristnir í dag einn mest ofsótti trúarhópur heims. Í yfir fimmtíu löndum er kristið fólk í stöðugri hættu, og í mörgum þeirra er um skipulagt og kerfisbundið ofbeldi og útrýmingu að ræða (Open Doors, World Watch List 2025).

Nígería er sárasta dæmið: þar hafa hryðjuverkahópar eins og Boko Haram og klofningshópur þeirra ISWAP gengið berserksgang síðasta áratuginn. Þúsundir kristinna hafa verið drepin, heilu þorpin jöfnuð við jörðu, og tugþúsundir barna numin á brott (Amnesty International, 2024). Hryðjuverkin beinast gjarnan að sunnudagsmessum, þar sem óvopnað fólk safnast saman til að biðja. Kirkjur eru sprengdar, prestum rænt, og fjölskyldur myrtar í heilu lagi.

Blóðugur veruleiki

Auglýsing

Demókratíska lýðveldið Kongó hefur einnig orðið vitni að blóðsúthellingum. Þar hafa öfgahópar ráðist inn í kirkjur og myrt tugi, jafnvel hundruð manns í einni árás. Í febrúar 2025 voru um 70 kristnir menn teknir til fanga og myrtir í Kasanga í miðri messu (BBC News, 2025). Í júlí sama ár var aftur ráðist á kirkju í Komanda og um 50 manns myrtir á svipstundu (Al Jazeera, 2025). Þetta eru hryllilegar fréttir sem varla fá hljómgrunn utan staðbundinna miðla og sérhæfðra kristinna stofnana.

Í Súdan og Suður-Súdan eru kristnir einnig meðal fórnarlamba í blóðugum átökum, og í löndum eins og Líbíu, Jemen og Sómalíu er trúfrelsi einfaldlega ekki til staðar – kristið fólk lifir þar við stöðugan ótta og ógn um fangelsun eða aftöku (Human Rights Watch, 2025).

Svo má nefna Norður-Kóreu, þar sem kristni er bókstaflega bannorð. Þeir sem finnast með Biblíu eða viðurkenna að trúa á Krist eru sendir í fangabúðir þar sem lífslíkur eru nánast engar (Christian Solidarity Worldwide, 2025).

Mismunandi frásagnarmyndir

Þegar við horfum á íslenska fjölmiðla – og raunar bara vestæna almennt – blasir við undarleg þögn. Á hverjum degi eru skrifaðar fjölmargar fréttir um átök í Gaza, Ísrael, Írak og Sýrlandi. Þegar árásir verða á moskur í Evrópu eða annars staðar fær það mikla umfjöllun, sem er eðlilegt. En þegar tugir eða hundruð kristinna eru sprengdir í loft upp í Nígeríu eða myrtir í Kongó – þá heyrist varla pískur. Á sama tíma eru hins vegar birtar tugir greina um önnur átök í Miðausturlöndum, jafnvel þó fórnarlambafjöldinn þar sé minni en í einni árás í Afríku. Á Íslandi, þar sem kristni hefur verið hluti af sjálfsmynd þjóðarinnar í meira en þúsund ár, er þetta sérstaklega sláandi en Þögnin segir sitt.

Skýringar á þögninni

  1. Fjölmiðlar háðir stórum meiginstraums fréttaveitum

Íslenskir fjölmiðlar byggja umfjöllun sína mest á stóru alþjóðlegu fréttastofunum (AFP, Reuters, AP). Þessar stofur hafa takmarkaða nærveru í Afríku sunnan Sahara en beina meiri athygli að Miðausturlöndum.

  1. Frásagnarmynd vestrænna miðla

Í vestrænum fréttaflutningi eru kristnir oftar sýndir sem valdhafar, jafnvel kúgarar (t.d. í tengslum við Evrópusögu eða Vesturlönd) – en sjaldan sem fórnarlömb. Það passar því illa inn í ríkjandi frásögn að sýna kristna sem þann hóp sem sætir mesta blóðuga ofbeldinu í heiminum í dag.

  1. Hugmyndafræðilegur ótti

Að segja frá því að kristnir séu fórnarlömb ofsókna kann að virðast „óþægilegt“ í fjölmenningarlegu umhverfi þar sem margir óttast að það gæti ýtt undir trúarlegt „við og þeir“. Þannig verður þögnin þægilegri en að horfast í augu við veruleikann.

Dæmi um ójafnvægi í fréttaflutningi

Þegar 43 kristnir voru drepnir í kirkjuárás í Kongó árið 2025 bárust fréttir af því varla inn á íslenska miðla.

Á sama tíma voru birtar tugir greina um sprengjur í Gaza sem höfðu mun færri fórnarlömb.

Þegar Boko Haram rændi hundruðum skólastúlkna í Nígeríu árið 2014 náði það vissulega heimsfréttum – en síðan hefur hundruðum annarra verið rænt án þess að vesturlönd veki sérstaka athygli á því.

Einn kristinn flóttamaður sem slapp úr fangabúðum í Norður-Kóreu lýsti því þannig í viðtali við Christian Solidarity Worldwide: „Við vorum svipt allri reisn, en það sem hélt mér á lífi var að hvísla bæn í hljóði, jafnvel þó ég vissi að það gæti kostað mig lífið.“ Slíkar raddir ná sjaldan til eyrna okkar á Íslandi.

 Mannréttindi án tvöfaldra mælistika

Ef Ísland vill standa fyrir mannréttindum og mannúð verður að ræða um öll fórnarlömb jafnt. Það er ekki minna harmþrungið þegar kristnir eru drepnir í hundraðatali í Afríku en þegar sprengja springur í Miðausturlöndum.

Mannréttindi eru algild og mega ekki velkjast eftir því hvaða trú, kynþætti eða menningu fórnarlömbin tilheyra. Við getum ekki þagað þegar bræður og systur okkar í trú eru pyntuð, rekin á flótta eða myrt. Ísland verður að sýna að mannréttindi eru ekki háð trú eða menningu – þau eru algild.

Það er kominn tími til að íslenskir fjölmiðlar, og almenningur, horfi til þessara þöglu hörmunga – og gefi kristnum bræðrum og systrum okkar rödd í baráttunni fyrir lífi sínu.

Höfundur:

Ragnar Rögnvaldsson. Formaður kjördæmafélags Miðflokksins i norðvesturkjördæmi og áhugamaður um samfélagsmál.

Auglýsing

læk

Auglýsing

Fréttir

Auglýsing