Á undanförnum árum hefur þjóðkirkja Íslands í síauknum mæli lagt áherslu á að höfða til samfélagsins alls, fremur en að standa fast á boðskap Biblíunnar og Guðs orði. Hún leitast við að fylgja straumum samtímans og reynir að sækja vinsældir meðal þeirra sem lítið eða ekkert hafa að gera með trúna á Jesús krist og hún gerir það með því að skafa utan af boðskapnum og hreinlega breyta honum eftir hentisemi. En þeir sem raunverulega þrá að heyra fagnaðarerindið í einfaldleika þess og sannleika, finna sig oftar en ekki útundan.
Kirkjan hefur t.d. tekið undir pólitíska tískustrauma og samtímaumræðu frekar en að boða hið óbreytta orð Guðs. Hún leggur meiri áherslu á umhverfismál, kynjapólitík og samfélagsumræðu en á Jesú Krist krossfestan og upprisinn. Hún hefur ítrekað lagt áherslu á að vera „opinn vettvangur“ fyrir sem flesta, jafnvel þótt það feli í sér að þagga niður eða slæva boðskap Biblíunnar. Hún hefur jafnvel verið gagnrýnd fyrir að taka skýra pólitíska afstöðu í þjóðmálum á sama tíma og trúarlegur kjarni boðskaparins hverfur í bakgrunninn.
Útvatnaður boðskapur
Þetta er ekki nýtt vandamál. Kirkjur hafa í aldanna rás glímt við spurninguna: eiga þær að laga sig að samfélaginu, eða standa vörð um þann boðskap sem þær eru byggðar á? Þegar boðskapurinn er vatnaður niður, breyttur eða sniðinn eftir vinsældum, þá missir hann gildi sitt. Jesús sagði skýrt:
„Gangið inn um þrönga hliðið. Því að víð er sú hlið og breiður sá vegur, sem leiðir til glötunar, og margir eru þeir, er þar inn ganga. En þröng er sú hlið og mjór sá vegur, sem til lífsins leiðir, og fáir eru þeir, sem finna hann.“ (Matt. 7:13–14)
„Ef einhver vill fylgja mér, þá afneiti hann sjálfum sér, taki kross sinn og fylgi mér.“ (Matt. 16:24)
„Himinn og jörð munu líða undir lok, en orð mín munu alls ekki líða undir lok.“ (Matt. 24:35)
Þessi orð minna okkur á að kirkjan var aldrei kölluð til að vera vinsæl eða þóknast öllum. Hún á að boða sannleikann – óháð tíðaranda og vinsældum. Kirkja sem er skekin fram og tilbaka, til hægri og vinstri af tíðaranda og félagslegum málefnum hættir smám saman að vera kirkja Krists. Hún verður þá aðeins menningarstofnun – með fallega sögu og hefðir – en án heilags anda. En kirkja sem stendur óhikað á orði Guðs og boðar Krist krossfestan og upprisinn, verður alltaf lifandi.
Hið raunverulega hlutverk kirkjunnar
Ef þjóðkirkjan vill endurheimta sitt hlutverk, þá þarf hún að svara ákveðnum grundvallar spurningum:
Hverjum þjónar hún?
Er hún fyrst og fremst stofnun sem viðheldur hefðum?
Er markmið kirkjunnar að sækjast eftir vinsældum og menningarlegri stöðu?
Eða er hún kirkja Jesú Krists, sem hefur það hlutverk að boða sannleikann – jafnvel þótt hann mæti andstöðu? Og þá sérstaklega þegar hann mætir andstöðu?