Á síðustu árum hefur íslenskt samfélag tekið stór skref í jafnréttis og mannréttindamálum. Minnihlutahópar hafa fengið meiri áheyrn, hvort sem það er hinsegin fólk eða trans einstaklingar og það er jákvæð þróun. Samt má spyrja: höfum við farið af leið, að gera sumum röddum hærra undir höfði, þannig aðrar upplifa þöggun í umræðunni?
Ég segi þetta af eigin reynslu sem miðaldra hvítur karlmaður. Að ég upplifi æ oftar að ég megi ekki tjá skoðanir mínar án þess að vera stimplaður sem afturhaldssamur, fordómafullur eða jafnvel ógn við lýðræðið. Þessi upplifun er ekki einsdæmi, þar sem ég er farin að heyra æ oftar fólk tala um þennan ósýnilega þrýsting: það sé betra að þegja, annars á maður í hættu á að verða dæmdur og úthrópaður af dómstóli götunnar.
Réttindi og viðurkenning eru nauðsynleg
Það er eðlilegt að minnihlutahópar fái sinn rétt og viðurkenningu. Enginn á að þurfa að fela hver hann/hún er eða óttast að verða útskúfaður. En ég vil minna á að grundvallarréttur til tjáningar gildir fyrir alla. Það er ekki aðeins réttur hinsegin fólks, eða annarra minnihlutahópa að tjá sig, heldur allra hvort sem það er karl eða kona, í meirihlutahóp.
Hróp og öfgafull umræða
Við lifum á tímum þar sem samfélagsumræða fer oftar fram á samfélagsmiðlum en í yfirveguðum samtölum. Þar fá þeir sem tala hátt mesta áheyrn. Þeir sem efast, spyrja eða leyfa sér að hafa aðra skoðun eru oft úthrópaðir. Þannig verður umræðan sífellt meira einhliða, og lýðræðisleg hugsun sem og samskipti veikjast.
Það er ekkert að því að standa upp og krefjast réttinda. En þegar hrópið verður svo hátt að aðrir þora ekki að segja neitt, þá erum við komin á vondan stað, þar sem sumir hópar fá rými en aðrir ekki.
Skrímsli eða jafningi?
Í sögulegu samhengi þá var það kvennabaráttan á sínum tíma og nú í dag er það hinsegin fólk eða aðrir minnihlutahópar sem hafa þurft að sækja sinn rétt hart. Það er óumdeilanlegt. En þróunin má ekki verða þannig að karlmenn séu sjálfkrafa gerðir að „skúrkum“. Því miður má stundum heyra slíkan tón að karlmenn, einkum miðaldra, séu vandamálið.
Slíkt er ekki aðeins ósanngjarnt heldur skaðlegt. Jafnrétti snýst ekki um að finna nýja sökudólga, heldur að tryggja að allir óháð kyni eða kynvitund geti lifað og tjáð sig á jafnréttisgrundvelli.
Jafnvægi og ábyrgð
Við sem samfélag þurfum að staldra við. Við þurfum að spyrja okkur: erum við að skapa raunverulegt jafnvægi eða erum við að fara úr einum öfga í annan? Rétturinn til að vera maður sjálfur, hvort sem maður er karl, kona, hinsegin eða eitthvað annað, á að vera óumdeilanlegur. Það þarf ekki að hrópa, lemja í veggi eða gera lítið úr öðrum til að ná fram árangri.
Ábyrgð felst í því að viðurkenna að fjölbreytileiki er ekki aðeins bundinn við minnihlutahópa heldur líka þá sem tilheyra meirihlutanum. Það er jafn mikilvægt að vera „miðaldra karl eða kona“ eins og að vera „trans“ eða „hinsegin unglingur“. Allt eru þetta manneskjur með rétt til að lifa og tala, án þess að annar sé lofaður meira en hinn.
Allir jafnir engin sérmeðferð
Ég er ekki að krefjast þess að karlmönnum sé hampað umfram aðra. Það eina sem ég bið um er jafnrétti í orðsins fyllstu merkingu, að allir hafi sama rétt til að tjá skoðanir sínar án þess að óttast stimplun, útskúfun eða háðsyrði.
Hvaða skoðun sem við höfum, þá á hún rétt á sér, jafnvel þótt öðrum þyki hún óþægileg eða ósanngjörn í augnablikinu. Það þýðir ekki að við þurfum að taka hana persónulega eða bregðast við með reiði.
Þetta snýst ekki um að draga úr réttindabaráttu minnihlutahópa, heldur að minna á að lýðræðið lifir á fjölbreytilegum röddum. Þegar við hlustum á alla, “ekki aðeins suma”, þá erum við að byggja upp raunverulegt og réttlátt samfélag.
Í upphafi var orðið.
Ólafur Ágúst Hraundal
Höfundur er lífskúnstner