Samkvæmt nýjustu tölum frá Þjóðskrá Íslands hafa alls 200 börn undir 18 ára aldri breytt kynskráningu sinni frá því lög um kynrænt sjálfræði (nr. 80/2019) tóku gildi í byrjun árs 2020.
Á Íslandi eru um 39.823 börn 10 ára og eldri, sem þýðir að eitt af hverjum 200 börnum í þessum aldurshópi hefur gengist undir formlega breytingu á kynskráningu.
Hlutfallið í alþjóðlegu samhengi
Í samanburði við önnur Evrópulönd er Ísland með langtum hærra hlutfall barna með breytta kynskráningu. Í Bretlandi hafa tæplega 9.000 einstaklingar á sama aldursbili hlotið svokallað „Gender Recognition Certificate“, sem jafngildir um 0,12% af þessum aldurshóp í landinu.
Ef það hlutfall væri heimfært á íslenskan mannfjölda ætti fjöldinn hér að vera um 52 einstaklingar, en er tæplega fjórfalt meiri.
Í Danmörku tengdust 354 börn transteymum árið 2024, en miðað við höfðatölu ætti Ísland með sambærilegu hlutfalli að vera með um 30 börn í slíku ferli. Hlutfallslegur fjöldi er hins vegar rúmlega sexfalt hærri.
Tölur hærri en áður talið
Uppfærðar tölur bárust frá Þjóðskrá eftir formlega beiðni um upplýsingar um kynskráningar frá því lögin um kynrænt sjálfræði tóku gildi.
Fram til þessa hefur opinber umræða einkum byggt á gögnum frá Landlæknisembættinu, þar sem greint hefur verið frá að 84 börn hafi farið í meðferð hjá transteymi Barna- og unglingageðdeildar (BUGL).
Nýjustu tölur Þjóðskrár sýna að fjöldi barna sem hefur formlega breytt kynskráningu sinni er meira en tvöfalt hærri en þær tölur sem Landlæknisembættið hefur gefið út.
Kynjahlutföll og óútskýrð skekkja
Lög um kynrænt sjálfræði heimila einstaklingum að breyta kynskráningu sinni án læknisfræðilegs eða réttarfarslegs mats. Samkvæmt þeim geta börn undir 18 ára aldri einnig breytt kynskráningu með samþykki forráðamanna.
Lögunum hefur verið fagnað sem miklum tímamótum í réttindabaráttu transfólks af mannréttindasamtökum og Samtökunum ’78, en þau hafa einnig sætt gagnrýni fyrir að hafa verið innleidd án nægilegrar umræðu eða rannsókna um áhrif þeirra á börn.
Í gögnunum frá Þjóðskrá má greina markverða skekkju í kynjahlutföllum: talsvert fleiri stúlkur en drengir gangast undir kynbreytingarferli á barnsaldri, á meðan mun fleiri karlar en konur fara í slíkt ferli á fullorðinsárum.