Sérsveit Ríkislögreglustjóra gerði húsleit á Raufarhöfn að morgni miðvikudags, en aðgerðin er sögð vera hluti af samræmdum lögregluaðgerðum sem fóru fram víða um land þann 18. júní.
Aðgerðinni, sem vakti athygli bæjarbúa þegar lögreglubílar umkringdu hús og sérsveitarmenn brutu sér leið inn, hefur nú verið lýst sem hluta af víðtækri rannsókn á skipulagðri brotastarfsemi tengdri fíkniefnaframleiðslu.
Í tilkynningu sem lögreglan á Norðurlandi eystra sendi frá sér í dag kemur fram að lögreglan hafi um nokkurt skeið rannsakað mál sem tengist framleiðslu fíkniefna.
Aðgerðin var unnin í samstarfi við lögregluna á Vesturlandi, höfuðborgarsvæðinu og með aðkomu sérsveitar.
Ekki hefur verið upplýst hversu margir einstaklingar voru handteknir, en lögreglan hyggst fara fram á gæsluvarðhald yfir sakborningum síðar í dag.
Málið er sagt á viðkvæmu stigi og engar frekari upplýsingar hafa verið veittar að svo stöddu.
Nútíminn hefur fyrir því heimildir að aðilar sem voru í húsinu sem ráðist var inn í á Raufarhöfn séu Albanir sem nýlegu fluttu til bæjarins en lögreglan hefur ekki viljað staðfesta þær upplýsingar að svo stöddu.