Allt fyrir Brussel og Nató – „Biðsalur dauðans“ fyrir eldri borgara

Í nýrri grein fjallar Davíð Bergmann harðlega um ástand velferðarkerfisins og segir hugmyndina um Ísland sem „eitt besta velferðarríki veraldar“ vera gullhúðaða lygi.

Hann líkir ástandinu við ævintýrið Nýju föt keisarans eftir H.C. Andersen og segir íslenskt samfélag hafa breyst í leikrit þar sem raunveruleikinn sé hunsaður.

Auglýsing

„Við höfum sett þessa sögu í leikritaform sem hefur verið í gangi í áratugi í þessu samfélagi,“ skrifar hann og bætir við að sýningin sé jafn þreytt og föstudagsþátturinn Vikan með Gísla Martein sem skattgreiðendur neyðist til að fjármagna.

„Skattpíndi almúginn í lottói heilbrigðiskerfisins“

Davíð gagnrýnir sérstaklega heilbrigðiskerfið og lýsir því sem „lottói þar sem fólk þurfi að hringja á tilteknum tíma í von um að fá tíma hjá lækni.“

Hann bendir á að bið eftir sérfræðingum geti verið margir mánuðir og spyr háðslega hvort þetta sé virkilega þjónusta í einu ríkasta landi heims.

Hann tengir ástandið við vaxandi spilafíkn og segir þjóðarsálina gegnsýrða af „gambli,“ jafnvel þegar kemur að því að fá læknistíma.

„Undir yfirskini heilbrigðiskerfis hefur verið sviðsettur algjör skrípaleikur þar sem sjúklingurinn er alltaf auminginn í leikslok,“ skrifar hann.

„Lyktin lýgur ekki“ – börn, geðheilsa og forgangsröðun

Í greininni fjallar Davíð einnig um málefni barna í vanda og segir að fnykurinn af kerfisbundinni vanrækslu sé yfirþyrmandi.

Hann gagnrýnir barnamálaráðherra fyrir sinnuleysi og segir það óeðlilegt að foreldrar þurfi að flýja land til að leita þjónustu fyrir börnin sín.

Á meðan renni ríkisfjármunir í hernaðarverkefni, vopnakaup og þátttöku í Nató.

„Það er nóg til fyrir NATÓ, vopnakaup til Úkraínu og til að borga sig inn í fína Brussel klúbbinn. Skál fyrir því!“ skrifar hann.

„Biðsalur dauðans“ – gagnrýni á meðferð eldri borgara

Stærsta skömmin í samfélaginu sé þó að finna í meðferð aldraðra, að sögn Davíðs.

Hann lýsir reynslu fjölskyldu sinnar þar sem faðir hans fékk ekki hjúkrunarheimili fyrr en eftir mörg föll og alvarleg veikindi og þá aðeins viku áður en hann lést.

„Þá, og aðeins þá, var hann nógu mikið ‘case’… Sá hálfi mánuður sem hann fékk á heimilinu var hann mestallan tímann meðvitundarlaus,“ segir hann og bætir við að móðir hans, 84 ára, sé nú í sömu stöðu.

Davíð kallar hjúkrunarheimilin „biðsal dauðans“ og segir að nýja stefna stjórnvalda virðist felast í því að flýta fyrir dauðanum svo fólk hætti að vera byrði á samfélaginu.

Kallar eftir uppgjöri

Greinin endar með ákalli um að Íslendingar vakni og krefjist raunverulegra umbóta í stað leikritsins sem hann segir stjórnvöld setja upp.

„Pabbi skilaði sínu alla tíð og verðskuldaði ekki svona ævikvöld… Hvað bíður þessara pólitísku puntprika þegar þeirra tími kemur?“ spyr hann að lokum og hvetur almenning til að krefjast þess að „sýningum á leikritinu Nýju föt keisarans verði hætt.“

Auglýsing

læk

Auglýsing

Fréttir

Auglýsing