Á meðan Dóra Björt Guðjónsdóttir, formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur, ver skipulag nýs hverfis í Keldnalandi þar sem 12.000 íbúum er ætlað að deila 2.230 bílastæðum, hefur hún sjálf nýlega fest kaup á raðhúsi í Grafarvogi – með þremur bílastæðum og bílskúr.
Tólf þúsund manns, tvö þúsund stæði
Samkvæmt drögum að samgönguskipulagi Keldnalands, sem Morgunblaðið greindi frá 17. september, verður aðeins gert ráð fyrir 2.230 bílastæðum fyrir allt að tólf þúsund íbúa. Það jafngildir um 5,4 íbúum á hvern bíl – á meðan landsmeðaltalið er 1,6.
Skipulagið hefur þegar vakið gagnrýni fyrir að vera óraunhæft og bitna á fjölskyldum sem þurfa á bíl að halda vegna vinnu, barna eða hreyfihamlaðra.
Raðhús með bílskúr og þremur stæðum
Á sama tíma hefur Dóra Björt, sem hefur verið ein helsti talsmaður vistvænna samgangna og samnýttra bílastæða, keypt sér parhús í Grafarvogi.
Í söluauglýsingu Mikluborgar kemur fram að húsið sé 165 fermetrar, með góðum bílskúr og aðgengi að þremur bílastæðum.
Húsið kostaði 127 milljónir króna og var selt í maí 2025.
„Grænasta hverfi borgarinnar“ – nema þegar kemur að eigin bílum
Í Facebook-færslu sem Dóra Björt birti 19. september skrifar hún að Keldnalandið verði „grænasta og metnaðarfyllsta hverfi borgarinnar hingað til“, þar sem Borgarlínan tengir íbúa við borgina og „vistvænir ferðamátar eru svarið“.
Hún segir jafnframt að markmið sé að komast hjá því að „fylla Ártúnsbrekkuna og Vesturlandsveginn af fleiri bílum“. Þá segir hún einnig: „Hvers vegna erum við að standa í því að styðja við breytingu ferðavenja? Við þurfum að huga að þeirri staðreynd að okkur er að fjölga og það er ekki pláss fyrir alla þessa bíla.“
Færslan hefur þó vakið háðsglósur og gagnrýni, þar sem margir telja skilaboðin ekki samræmast lífsstíl hennar sjálfrar.
Tvískinnungur eða einfaldlega forréttindi?
Á samfélagsmiðlum hafa margir bent á að þau sem móta skipulagið fyrir almenning hafi sjálf aðgang að rúmgóðum eignum, bílskúrum og stæðum – á meðan nýrri íbúðum er ætlað að deila litlu bílastæðamarki.
Þeir spyrja hvort „vistvænt skipulag“ sé orðið nýtt orð yfir forréttindasamfélag þar sem þeir efnameiri halda í bílastæðin – á meðan aðrir mega bíða eftir strætó.
Hvers vegna erum við að standa í því að styðja við breytingu ferðavenja? Við þurfum að huga að þeirri staðreynd að okkur er að fjölga og það er ekki pláss fyrir alla þessa bíla.
Dóra Björt tjáir sig
Nútíminn náði á Dóru við vinnslu fréttarinnar og vildi hún koma eftirfarandi á framfæri:
„Ég er bara venjuleg manneskja, þekki skutlið af eigin raun og hef aldrei þóst vera neitt annað en það og hef þvert á móti talað ítrekað um það.
En það er einmitt mín eigin reynsla sem hvetur mig áfram í mínum störfum. Ég er hluti af samsettri fjölskyldu og á stjúpson sem er í skóla í Grafarvogi. Ég eignaðist minn fyrsta bíl eftir að yngri sonur minn sem er þriggja ára fæddist enda gekk ekki lengur upp að ná að koma börnum í skóla og leikskóla og ná í vinnu á réttum tíma með almenningssamgöngum sem við þó gerðum um skeið. Þess vegna þekki ég vel skutlið af eigin raun enda þurftum við að skutla fram og til baka klukkustundarferðalag hvora leið og ég hef mikla samúð með fólki sem stendur í því.
Mig langaði til að losna undan skutlinu, það var streituvaldandi og vesen og mig langaði til að einfalda lífið og skapa skilyrði fyrir sjálfbærari ferðalög til og frá skóla og vinnu fyrir mína fjölskyldu. Við ákváðum þannig í raun að flytja í Grafarvoginn til að lifa sjálfbærara lífi. Við völdum okkur heimili eins nálægt skóla stjúpsonar míns og við gátum svo hann gæti hjólað eða gengið til skóla á öruggan hátt. Við vorum ekki að velja bílastæði heldur staðsetninguna. Það húsnæði er hannað á níunda áratugnum í takti við bílamiðaða þróun þess tíma og kannski hefði það verið ódýrara ef bílskúrinn hefði ekki fylgt og bara eitt stæði eins og það húsnæði sem hefur verið hannað fyrir Grafarvoginn í dag og þá hefðu fleiri fjölskyldur átt kost á að kaupa það sem gætu eflaust hugsað sér sambærileg búsetuskilyrði. Við fjölskyldan nýtum eitt bílastæði fyrir okkar bíl og bílskurinn er ekki notaður fyrir bíl, samnýting bílastæða við blokkina sem ég bjó í áður þjónaði þannig okkar þörfum vel sömuleiðis.
Ákvörðunin um flutningana var líka tekin með því til hliðsjónar að svæðið er vel tengt við almenningssamgöngur með sexunni sem gengur beinustu leið niður í bæ, þannig get ég tekið einn vagn alla leið í vinnuna. Þegar Borgarlínan byrjar að keyra mun ferðalagið ganga enn hraðar fyrir sig með mikilvægum forgangsakreinum stystu leið og ég hlakka til þess. Við vorum líka hrifin af því að lágvöruverslun er í göngufæri sem og bókasafn, sundlaug, bakarí og flest öll þjónusta sem við þurfum á að halda. Það eru gríðarleg lífsgæði sem ég veit að eru ekki sjálfsögð í öllum öngum Grafarvogs. Þetta gerir það að verkum að við þurfum ekki lengur að standa í skutlinu og erum ekki lengur neydd til að nýta bílinn til daglegra athafna.
Ég óska sem allra flestum að búa við þær aðstæður og það er minn metnaður að hanna borgina á þann hátt að fólk hafi alvöru valfrelsi um ferðamáta og sem flest losni undan skutlinu og þeirri streitu og streði sem það felur í sér. Klukkustund tvisvar á dag með þreytt og buguð börn í bíl hefur verið skipt út fyrir afslappaðar strætóferðir og útsýnistúra um borgina, hljóðbækur, góða tónlist og að láta hugann reika. Maðurinn minn hjólar gjarnan þannig að hann er búinn að græða á þessu meiri hreyfingu. Fyrir okkur er þetta betra og hamingjuríkara líf og dregur úr streitunni. Við eigum enn bíl og notum hann stundum en erum ekki hlykkjuð við hann eins og áður sem er svo gott. Í raun gætum við losað okkur við hann og höfum alveg velt því fyrir okkur. Þannig viljum við hanna hverfin og það gengur Keldnaland út á sem enn er í mótun og þar sem vel verður hægt að fjölga eitthvað stæðum ef það er talin verða þörf á því. Sum vilja eiga bíl og önnur ekki og Keldnalandið mun líka mæta þeirri þörf en aðalmarkmiðið er að öll heimili verði frábærlega vel tengd við Borgarlínuna með nauðsynlegri nærþjónustu og atvinnumöguleikum allt í kring sem og grænum svæðum og öruggum gönguleiðum fyrir börn.
Þannig að fólk hafi val um það að nota ekki bílinn til daglegra athafna, þannig að umhverfið sé grænt og manneskjuvænt og styðji við samveru, heilsu og hamingju og þannig að börn séu örugg. Það er ekki okkar metnaður að banna fólki að eiga bíl heldur að skapa aðgang að tækifærum til að nýta aðra ferðamáta og þannig hætta að neyða fólk til að eiga bíl eða jafnvel tvo eða þrjá með þeim kostnaði sem því fylgir fyrir fjölskyldur. Við viljum líka auka samnýtingu bíla með deilibílum og deilieignarbílum vegna þess að þó fólk þurfi ekki alltaf á bíl að halda getur verið gagnlegt að nota stundum bíl og þá gæti verið gott að fjölskyldan þurfi ekki að standa ein að rekstrinum. Þannig verður ekki lengur þörf á jafn mörgum bílastæðum sem lækkar húsnæðisverðið, það er líka skítt að þurfa að greiða fyrir bílastæði eða tvö eða þrjú ef þú þarft ekki á þeim að halda.
Oft er talað um að borgarfulltrúar séu bara lattelepjandi miðbæjarrottur alveg úr tengingu við úthverfin en ég get með þessu staðfest að ég er stolt úthverfatútta í Grafarvogi og er svo heppin að búa í því dásamlega og fjölskylduvæna hverfi. En ég sé líka tækifæri til að gera það enn betra, blása lífi í nærþjónustukjarnann í næsta nágrenni við mig, skapa enn lífvænlegri aðstæður fyrir hverfispöbbinn og gera umhverfið við alla þá frábæru þjónustu sem boðið er upp á í Spönginni öruggara, grænna og betra fyrir litla stubba sem okkur fylgja gjarnan og til að styðja betur við lifandi og iðandi mannlíf. Lifi Grafarvogur og megi hann blómstra sem aldrei fyrr!“
UPPFÆRT
Dóra Björt vill koma því á framfæri að hún er aðeins með tvö bílastæði en ekki þrjú eins og Nútíminn hélt fram.