Auglýsing

Fengu hvort um sig um 1,7 milljónir í sinn hlut frá Menntamálaráðuneytinu fyrir 20 mínútna fræðslumyndband um MeToo

Fyrir tæpu ári síðan voru fjögur myndbönd frumsýnd í Fjölbrautaskólanum í Ármúla (FÁ).

Myndböndin báru yfirskriftina #MeToo bylting framhaldsskólanna – Samþykki, mörk og náin samskipti og voru hluti af forvarnar- og fræðsluátaki mennta- og barnamálaráðuneytisins.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, var viðstaddur viðburðinn ásamt fulltrúum skólans og nemendahreyfinga.

Markmið og bakgrunnur myndbandanna

Myndböndin fjalla um MeToo-hreyfinguna innan framhaldsskóla, kynferðisofbeldi, samþykki, mörk og áhrif kláms á ungt fólk.

Í raun er um að ræða eitt langt myndband sem skipt er niður í fjóra hluta og í hverjum hluta eru mismunandi viðfangsefni skoðuð.

Að sögn ráðherra var tilgangur þeirra að stuðla að gagnrýnum samræðum í skólum.

Verkefnið varð til í kjölfar nemendamótmæla haustið 2022, þegar fjöldi framhaldsskólanema yfirgaf kennslustundir til að mótmæla aðgerðarleysi yfirvalda í kynferðisbrotamálum.

Ráðuneytið fól Sólborgu Guðbrandsdóttur og Þorsteini V. Einarssyni að sjá um efnisgerð myndbandanna í samstarfi við RÚV og UngRÚV.

Myndböndin voru unnin samhliða nýjum leiðarvísi ráðuneytisins um viðbrögð við einelti, kynferðislegri áreitni og ofbeldi í skólum.

Spurningar um ráðningarferlið og kostnað

Nútíminn sendi Menntamálráðuneytinu fyrirspurn um ráðningarferlið og sundurliðun kostnaðar við gerð myndbandanna.

Einnig var óskað eftir upplýsingum um menntun og reynslu þeirra sem völdust til verksins.

Ráðuneytið svaraði því til að heildarkostnaður við myndbandsgerðina hefði verið 4,6 milljónir króna, þar af 3,4 milljónir í efnisgerð og 1,2 milljónir í vinnslu og frágang. Nútíminn reyndi að fá nánari sundurliðun á efnisgerð.

Frekari sundurliðun á efnisgerðinni var ekki veitt og einungis tekið fram að greiðslunni vegna efnisgerðar, 3,4 milljónir króna, hafi verið skipt milli einstaklinganna tveggja sem sáu um hana, þeirra Þorsteins og Sólborgar og samkvæmt því hefur hvort um sig fengið um 1,7 milljónir í sinn hlut fyrir verkefnið.

Menntun efnisgerðarfólksins

Varðandi ráðningarferlið sagði ráðuneytið að Þorsteinn og Sólborg hefðu verið valin vegna reynslu sinnar í málaflokknum.

Sólborg hélt úti Instagram síðunni Fávitar og er sögð hafa starfað að forvörnum gegn stafrænu og kynferðislegu ofbeldi í gegnum fyrirlestra, bókaskrif og og hafi leitt starfshóp á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins um markvissa kennslu um kynheilbrigði og ofbeldisforvarnir í grunn- og framhaldsskólum .

Fyrirspurn Nútímans um hvort hún hefði einhverja menntun til slíkra starfa var ekki svarað en Nútíminn gerir þó ráð fyrir að svo sé þar sem Þorsteinn hefur lagt mikla áherslu á að fagmenntun sé til staðar við slík störf.

Þorsteinn hefur rekið hlaðvarpið Karlmennskan og hefur kynjafræðimenntun.

Fyrirspurn Nútímans um hvort verkið hafi verið boðið út var ekki svarað.

Myndbandið er hægt að sjá hér fyrir neðan.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing