Gestir sem sóttu fjölmenningarhátíð í Húsdýragarðinum um helgina lýsa því að atvik á svæðinu hafi valdið óöryggi og hræðslu meðal gesta.
Nokkrar frásagnir af reynslu fólks birtust á samfélagsmiðlum, þar sem meðal annars var greint frá ofbeldisfullri hegðun barna, árekstrum við foreldra og ágangi í leikjatækjum.
Umræður um málið vöktu talsverð viðbrögð, en færslum sem lýstu atvikunum var síðar eytt úr umræðuhópnum Mæðratips.
Segir barnabörnin sín hafa orðið skelkuð
Sigfús Aðalsteinsson birti færslu á Facebook síðu þar sem hann lýsti því að hann hefði óvart mætt á hátíðina með barnabörnum sínum, ómeðvitaður um að fjölmenningarviðburður stæði yfir.
Að hans sögn var fjölmennt á svæðinu og segir hann að börn, sem hann lýsti sem „mest af arabískum uppruna“, hafi verið með yfirgang og ógnandi hegðun við önnur börn.
Hann sagðist hafa yfirgefið garðinn með barnabörnum sínum þar sem þau urðu hrædd.
Síðar sagðist eiginkona hans hafa heyrt á leið út úr garðinum að fólk væri að tala um manninn sinn sem „rasista“ og spurt sín á milli hvað hann væri eiginlega að gera á svæðinu, en kona hans var nokkuð á eftir honum.
Hún sagðist hafa greint þar á meðal Sönnu Magdalenu Mörtudóttur, borgarfulltrúa.
Kona segir börn sín hafa verið beitt ofbeldi
Í annarri færslu, sem birt var nafnlaust í hópnum Mæðratips, lýsti kona því að dætrum hennar hefði verið hrint og togað í hár hennar af hópi barna af erlendum uppruna sem hún segir hafa sýnt af sér álíka hegðun við önnur börn á svæðinu.
Einnig greindi hún frá því að móðir einhvers úr þessum hóp hefði ýtt vinkonu hennar, sem hélt á ungabarni og sagt eitthvað við hana á tungumáli sem hún skildi ekki en með hranalegum tón.
Samkvæmt lýsingunni virtust starfsmenn Húsdýragarðsins eiga í mestu erfiðleikum með að ná tökum á aðstæðum.
Konan lýsti því að þegar eiginmaður hennar hafi reynt að áminna börnin hafi þau öskrað á hann. Hún sagði fleiri börn á svæðinu hafa orðið hrædd og grátið eftir samskipti við þennan sama hóp.
Umræðan beindist að orðavali fremur en ofbeldinu
Færslunni var síðar eytt úr umræðuhópnum og í kjölfarið lýsti konan yfir vonbrigðum.
Hún gagnrýndi að notkun hennar á orðunum „erlendur hópur“ hefði orðið að aðalumræðuefninu fremur en það að börn hefðu, samkvæmt hennar frásögn, verið beitt líkamlegu ofbeldi og að konu sem hélt á ungabarni hefði verið hrint harkalega.
„Það var literally verið að beita börnin mínum ofbeldi, það var hrint vinkonu minni sem hélt á UNGABARNINU mínu, en það er öllum drull um það af því það stendur ‘erlendur hópur’,“ skrifaði hún í athugasemd eftir að færslan var fjarlægð.
Hún bætti við að lokum: „Þið sem eruð svona hrikalega viðkvæmar fyrir þessu orði þurfið að átta ykkur á því að það eru þið sem eruð að gera orðið “erlendur” “erlend” að slæmu orði. Þetta er lýsingarorð. Ef ég flyt til annars lands þá er ég erlendis kona í því landi and thats it!!