Fölsuð ökuskírteini notuð til að fá íslensk – verklagi breytt eftir að svik erlendra ríkisborgara komu upp

Útlendingar sem áður bjuggu utan EES-svæðisins hafa ítrekað lagt fram fölsuð ökuskírteini frá heimalöndum sínum hér á landi, í þeim tilgangi að fá útgefin íslensk ökuskírteini. Þetta staðfestir Sigríður Kristinsdóttir, sýslumaður á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is. Umræddar falsanir hafa leitt til breytinga á verklagi og aukins eftirlits með umsóknum.

Samkvæmt gildandi reglum þurfa einstaklingar frá löndum utan EES að sækja um íslenskt ökuskírteini eftir að hafa haft fasta búsetu hér í sex mánuði. Þeir verða að gangast undir bæði bóklegt og verklegt ökupróf, en þurfa þó ekki að sækja formlega ökutíma áður en þeir mæta í próf. Til að skiptin geti átt sér stað verður umsækjandi að framvísa ökuskírteini frá heimalandi sínu.

Skilríkjakröfur hertar og fölsuðum skjölum hafnað

Auglýsing

Í kjölfar þess að upp komst um að fölsuð ökuskírteini væru lögð fram – að mestu frá einstaklingum af sama þjóðerni – var verklag hjá sýslumannsembættinu endurskoðað í vor. Nú er gerð krafa um að umsækjendur leggi fram bæði erlenda ökuskírteinið og vegabréf þegar sótt er um skipti yfir í íslenskt skírteini. Áður dugði í sumum tilfellum staðfesting á ökuréttindum ein og sér.

Sýslumaður hefur í kjölfarið aukið samstarf við lögregluna og Samgöngustofu og eru skjöl sem vekja grun um fölsun send til skilríkjarannsóknar hjá lögreglunni á Suðurnesjum. „Við erum orðin flinkari í því að meta þessi gögn og sjáum að fólk er orðið var um að eftirlitið hefur aukist – í mörgum tilfellum hefur fólk dregið umsókn sína til baka þegar við óskuðum eftir frekari gögnum,“ segir Sigríður í samtali við mbl.is.

Óljóst er hversu mörg íslensk ökuskírteini hafi verið gefin út á grundvelli fölsaðra skjala, en í dag fá eingöngu þeir sem standast prófin útgefið skírteini. Ökuprófin eru framkvæmd af Frumherja.

Ríkisborgarar hvaða landa sleppa við ökuprófið?

Samkvæmt upplýsingum sem birtar eru á island.is geta þeir sem eru með ökuskírteini frá löndum innan EES, Bretlandi, Sviss eða Japan skipt sínu skírteini yfir í íslenskt án þess að taka próf, svo fremi sem viðkomandi hafi búið hér í a.m.k. sex mánuði. Umsækjendur þurfa þá að skila inn:

  • Passamynd
  • Erlendu ökuskírteini
  • Vegabréfi (eða nafnskírteini innan EES)
  • Læknisvottorði ef heilsufarsvandamál eru til staðar

Við móttöku íslenska skírteinisins verður hið erlenda afhent og tekið úr umferð, þar sem ekki er heimilt að hafa tvö ökuskírteini frá evrópskum ríkjum í einu.

Þeir sem koma frá öðrum löndum – utan EES – þurfa áfram að standast bæði skriflegt og verklegt próf. Ekki er hægt að sækja um skipti fyrr en, líkt og áður segir, eftir sex mánaða fasta búsetu á Íslandi.

Lönd sem sleppa við próf:

Austurríki, Belgía, Bretland, Búlgaría, Danmörk, Eistland, Finnland, Frakkland, Færeyjar, Grikkland, Holland, Írland, Ítalía, Japan, Króatía, Kýpur (gríski hlutinn), Lettland, Liechtenstein, Litháen, Lúxemborg, Malta, Noregur, Portúgal, Pólland, Rúmenía, Slóvakía, Slóvenía, Spánn, Sviss, Svíþjóð, Tékkland, Ungverjaland og Þýskaland.

Auglýsing

læk

Auglýsing

Fréttir

Auglýsing