Sala lúxusbílaframleiðandans Jaguar í Evrópu hefur verið í frjálsu falli eftir misheppnaða ímyndarbreytingu og auglýsingaherferð sem vakti mikla reiði meðal aðdáenda vörumerkisins.
Sala á Jaguar bílum hefur lækkað um heil 98 prósent síðan auglýsingin fór í loftið en fyrirtækið sýndi meðal annars auglýsingu með karlkyns fyrirsætum í pilsum, án þess að sýna nokkra bíla, til að kynna fyrirhugaða umbreytingu í fullkomlega rafvædda bílaframleiðslu.
Samkvæmt gögnum frá Samtökum evrópskra bílaframleiðenda seldust einungis 49 Jaguar bílar í Evrópu í apríl, samanborið við 1.961 bíla í sama mánuði árið áður.
Frá janúar til apríl hefur salan dregist saman um 75,1%, aðeins 2.665 bílar seldust á tímabilinu.
„Copy Nothing“ – en bíllinn hverfur úr mynd
Auglýsingaherferðin, sem var sýnd í nóvember 2024, var hluti af tilraun Jaguar til að höfða til yngri kaupenda með slagorðum á borð við „Live Vivid“ og „Copy Nothing“.
En fyrirtækið hlaut mikla gagnrýni fyrir að sýna bíla né leggja nokkra áherslu á tækni eða hönnun bílanna, heldur einblína á ímyndarbreytingu sem mörgum þótti „of pólitísk“.
Líkt og þegar Bud Light varð fyrir miklum viðskiptaáföllum eftir samstarf við trans áhrifavaldinn Dylan Mulvaney árið 2023, hefur Jaguar einnig orðið fyrir bakslagi meðal kaupenda sem áður voru tryggir fyrirtækinu.
Engir bílar í boði fyrr en 2025
En líklega er jafn stór ástæða söluhrunsins þó sú að fyrirtækið hefur tekið bensín- og dísilbíla sína úr sölu án þess að nýju rafbílarnir hafi verið tilbúnir.
Flaggskip nýju línunnar, fjögurra dyra rafknúinn GT-bíll, er ekki væntanlegur á markað fyrr en í lok árs 2025 og mun kosta um 200.000 dollara eða um 30 milljónir króna.
Aðrir rafbílar frá Jaguar eru ekki væntanlegir fyrr en sumarið 2026, samkvæmt fréttum Bloomberg.
Í millitíðinni hafa sýningarsalir verið nær tómir og fyrirtækið sagt vera í einhcerskonar „dvala“.
Yfirmenn verja stefnuna – en gagnrýnin harðnar
Rawdon Glover, framkvæmdastjóri Jaguar í Bretlandi, sagði í fyrra að skilaboð auglýsingaherferðarinnar hefðu „týnst í óþoli gegn boðskapnum“, en ýmsir sérfræðingar, söluaðilar og aðdáendur vörumerkisins segja að Jaguar hafi „rústað ímynd sinni“ með uppátækinu.
Jaguar hefur ekki enn tjáð sig opinberlega um sölutölurnar eða gagnrýnina.
Hægt er að sjá auglýsinguna umdeildu hér fyrir neðan.