Gagnrýnir harðlega innflytjendastefnu – segir íslenskt samfélag veikara nú en áður

Arnar Þór Jónsson, formaður Lýðræðisflokksins, birtir færslu á Facebook þar sem hann gagnrýnir þróun íslensks samfélags undanfarin ár og varar við því sem hann kallar skipulagt stjórnleysi í innflytjendamálum.

Hann segir Ísland standa berskjaldað gagnvart innfluttri ofbeldismenningu og skipulagðri glæpastarfsemi, þar sem landamæragæsla hafi verið í molum árum saman og lögreglan vanbúin.

Auglýsing

„Sem herlaus örþjóð með fámennt lögreglulið eru Íslendingar í sérlega viðkvæmri stöðu,“ segir Arnar Þór og gagnrýnir jafnframt að ekki hafi mátt ræða þessar áskoranir opinberlega.

Hann sakar stjórnvöld um að þagga niður í varnaðarorðum og nota upphrópanir í stað málefnalegrar umræðu.

„Þegar fólk sér ekki tilgang í að læra íslensku er tímabært að staldra við“

Arnar Þór tekur fram að flestir innflytjendur komi til landsins með góðan vilja, en bendir á að „daglega fáum við líka áminningu um önnur viðhorf“.

Hann lýsir yfir áhyggjum af því að sumir innflytjendur sjái ekki lengur tilgang í að læra íslensku, og varar við að menningararfur þjóðarinnar kunni að hverfa.

Ríkisstjórnir sökuð um undirlægjuhátt gagnvart erlendri hagsmunagæslu

Í færslunni gagnrýnir hann bæði núverandi og fyrri ríkisstjórn og segir þá fyrri mögulega þá verstu í lýðveldissögunni, „fyrir utan kannski Jóhönnustjórnina“.

Hann nefnir stefnuleysi í landamæravörslu og innleiðingu erlendra orkupakka sem dæmi um stefnumál sem hafi ekki þjónað hagsmunum þjóðarinnar.

Núverandi ríkisstjórn segist hann sjá halda áfram „í þágu ESB, SÞ og NATO“.

Hver er arfleifð þessara leiðtoga?

Að lokum íhugar Arnar Þór hver sé arfleifð leiðtoga á borð við Katrínu Jakobsdóttur og Bjarna Benediktsson.

Hann segir þau bæði hafa verið fær og ræðufær, en að stjórnmálaflokkar þeirra standi nú eftir „í rjúkandi rúst“ og samfélagið sé veikara en áður.

„Til hvers var þá unnið?“ spyr Arnar Þór að lokum.

Auglýsing

læk

Auglýsing

Fréttir

Auglýsing