Auglýsing

Heimsfræg YouTube-stjarna á yfir höfði sér 35 ára fangelsi á Filippseyjum fyrir „óspektir á almannafæri“

Það er ekki ólíklegt að þú hafir séð YouTube-stjörnuna Vitaly án þess að gera þér grein fyrir því, en fyrir nokkrum árum var hann með eina vinsælustu rás heims.

Vitaly sérhæfði sig í svokölluðum hrekkjamyndböndum þar sem hann gabbaði fólk á góðlátlegan hátt.

Myndbönd hans hafa fengið milljarða áhorfa um allan heim og flestir hafa séð eitthvað af efni hans.

Gekk sífellt lengra

Þegar samkeppnin jókst þurfti hann sífellt að ganga lengra til að halda athygli áhorfenda og hrekkirnir þróuðust smám saman yfir í hreina áreitni.

Vitaly varð einnig þekktur fyrir að hlaupa inn á ýmsa íþróttaviðburði.

Þegar áhorfið fór að dvína hóf hann að sviðsetja hrekkina, sem urðu sífellt ýktari.

Þegar það dugði ekki lengur fór Vitaly sömu leið og margir aðrir svokallaðir „live streamers“ og byrjaði að áreita venjulegt fólk á almannafæri, eingöngu til að ná viðbrögðum þeirra á myndband.

Þessi tegund efnis hefur sætt mikilli gagnrýni, enda snýst hún um að vera eins óþolandi og hægt er til að fá sem mest viðbrögð.

Asía vinsæl meðal þessara streymara

Það hefur sérstaklega verið vinsælt meðal „streymara“ á seinustu árum að heimsækja lönd í Asíu, sérstaklega í lönd þar sem kurteisi og reglusemi eru í hávegum höfð, í þeim tilgangi að brjóta gegn samfélagslegum venjum.

En þau lönd eru farin að bregðast hart við.

Tvö nýleg dæmi eru Vitaly á Filippseyjum og Johnny Somali í Suður-Kóreu.

Vitaly birti upptökur yfir heila helgi þar sem hann fór ítrekað yfir strikið og gelti að fólki, stal úr verslunum, reyndi að kyssa öryggisverði, stal mótorhjóli, tók hatta af lögreglumönnum og fleira í þeim dúr.

Í myndböndunum virðist hann vera undir áhrifum fíkniefna.

Almenningur heimtaði aðgerðir

Viðbrögð almennings á Filippseyjum voru hörð.

Reiði blossaði upp og almenningur krafðist þess að yfirvöld gripu inn í.

Vitaly var handtekinn þegar hann var á leiðinni á flugvöllinn í Manila og honum bannað að yfirgefa landið.

Filippseyjar eru þekktar fyrir að taka mjög hart á glæpum og yfirvöld hafa gefið út að fordæmi verði gert úr Vitaly.

Hann er ákærður fyrir sjö brot og samkvæmt dómsmálaráðherra gæti hvert þeirra leitt til að lágmarki fimm ára fangelsisvistar.

Vitaly, sem er 33 ára, gæti því þurft að sitja inni til að minnsta kosti sjötugs ef hann verður sakfelldur fyrir öll brotin.

Fangelsin eru eins og úr hryllingsmynd

Fangelsisaðstæður á Filippseyjum eru harðneskjulegar og hafa verið gerðar heimildarmyndir um skelfilegar aðstæður í fangelsum þar.

Fangelsisaðstæður á Filippseyjum eru skelfilegar

Fangar fá mat fyrir sem nemur um 100 íslenskum krónum á dag, engin loftkæling er í boði, hundruðir manna deila þröngum klefum og pöddur og og önnur kvikindi skríða á mönnum þar sem þeir sofa á gólfinu.

Vitaly mun þurfa að dvelja í einu slíku fangelsi í Manila þar til réttarhöld hefjast, en dómskerfið þar er undir miklu álagi og gæti hann þurft að bíða í allt að tvö og hálft ár áður en mál hans kemur fyrir dóm.

Hér fer þekkt Youtube stjarna frá Filippseyjum yfir ástand Vitaly.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing