Hver beitir ofbeldi?

Það er alltaf að koma betur og betur í ljós að heimilisofbeldi er ekki kynbundið eins og femínískir aðilar hafa reynt af öllum mætti að haldið fram og reynt að þagga niður sannleikann eins og gert var við frumkvöðul baráttunnar gegn heimilisofbeldi og stofnanda fyrsta kvennaathvarsins, Erin Pizzey, þegar hún upplýsti að yfir 60% kvennanna á kvennaathvarfinu höfðu verið að berja eiginmenn sína jafn mikið eða meira en þær höfðu verið barðar.

Árásirnar á hana voru svo ofboðslegar að hún flæmdist úr landi.

Auglýsing

Heimilisofbeldi er ekki bundið við ofbeldi gegn fullorðnu fólki heldur eru líka börn á heimilinu sem bæði verða fyrir beinu ofbeldi og eru einnig áhorfendur upp á ofbeldi milli foreldra sinna sem einnig er ofbeldi gegn barninu.

Ráðstefna til varnar börnum

5. júní 2025 verður haldin ráðstefna undir fyrirsögninni  Vernd Barna gegn ofbeldi á heimili og myndskreytingin er óttasleginn drengur sem er í skjóli móður sinnar.

Það vekur athygli að þau sem standa að ráðstefnunni eru 7 aðilar, þar af eru 3 lögregluembætti, heilbrigðisráðuneyti og svo nokkur kvennasamtök og það má fullyrða að þau séu fæst ef nokkur þeirra hlutlaus í skoðunum sínum, og lögreglan og ráðuneytið þar meðtalið.

Það eru 13 fyrirlesarar sem eru allt konur en fundarstjóri er forseti hæstaréttar sem á að vera hlutlaus í öllum málum, en hann er eini karlmaðurinn sem kemur að ráðstefnunni.

Nú hefur ekki komið fram hvert innihald fyrirlestranna er, en ekkert bendir til að hlutlægni verði gætt.

Umræðan sem ráðstefnuaðilar sem koma að henni hafa haldið fram í samfélaginu er að karlmenn og feður séu yfirgnæfandi gerendur ofbeldis á heimili, bæði gagnvart konum og börnum.

Á heimasíðunni karlaathvarf er greinaflokkurinn Ofbeldi gegn körlum á norðurlöndum.

Í greininni um Ofbeldi gegn körlum í Danmörku og Ofbeldi gegn körlum í Noregi  er örlítið fjallað um ofbeldi kvenna gegn börnum, bæði líkamlegt og kynferðislegt.

Síðan hafa komið áræðanlegar upplýsingar um ofbeldi kvenna gegn börnum.

Það gildir um Svíþjóð eins og Ísland að reynt er að stinga þessum sannleika dýpst í neðstu skúffuna eins og rannsóknin sem Gautaborgarháskóli gerði á kynjaskiptingu ofbeldis.

Vandi femínista er að sannleikurinn leitar alltaf út, og oftast kemst hann út þótt seint sé, því lang flestir, bæði konur og karlar vilja berjast gegn ofbeldi og það verður miklu markvissara ef allur sannleikurinn er uppi á borðinu.

Sænsk samtök (ECPAT) sem berjast gegn ofbeldi gegn börnum fengu háskólann í Linköping til að skoða málið.

Það er lítil tölfræði í skýrslunni sem kom út 2019, en nokkur umræða um kynferðislegt ofbeldi bæði feðra og mæðra gegn börnum og vitnað í norsku skýrsluna Ingen penis – ingen skade?  sem segir að kynferðislegt ofbeldi mæðra sé jafnvel skaðlegra en feðra.

Þessar niðurstöður eru í samræmi við frétt sem birtist nýlega á Nútímanum Skýrsla World Parent Organization – Mæður beita oftar ofbeldi en feður á Norðurlöndum   og þarf ekki að koma neinum á óvart.

Skýrsla World Parent Organization – Mæður beita oftar ofbeldi en feður á Norðurlöndum

Samtökin The Coalition to End Domestic Violence (CEDV) eru samtök sem vinna gegn heimilisofbeldi í Bandaríkjunum og líka á alþjóðavísu.

Í janúar 2023 gáfu þau út skýrsluna :  Menn og konur í Evrópu eru jafnlíklegt til að vera fórnarlömb heimilisofbeldis, samkvæmt rannsóknum.

Rannsóknin náði til 15 evrópulanda og það þarf ekki að koma neinum á óvart sem þekkja til hérlendis að Ísland er ekki þar á meðal.

Þar segir einnig:  „Even though domestic violence rates between the sexes are similar throughout Europe, the EU Istanbul Convention uses the phrase, “violence against women,” 56 times, while “violence against men” is not mentioned.“

Eru bara feður sem berja börn á Íslandi?

Í greininni Ofbeldi gegn körlum á Íslandi er ekkert fjallað um ofbeldi gagnvart börnum, en eins og kemur fram í greininni þá er kyrfilega reynt að þagga niður allt ofbeldi sem konur beita og í öllum rannsóknum um heimilisofbeldi er nánast eingöngu skoðað það ofbeldi sem karlar beita konur en ekkert um hið gagnstæða, þarna tekur lögreglan fullan þátt í sannleiksþögguninni.

Árið 2000 kom úr lokaverkefnið Konur lemja líka.

Í greininni er aðallega verið að fjalla um að heimilisofbeldi sé ekki kynjaskipt og þar segir:

„Sýnt hefur verið fram á að 150% meiri líkur eru á að barn verði fyrir ofbeldi þar sem líkamlegt ofbeldi á sér stað milli maka. Í könnun sem gerð var í Bandaríkjunum 1998 kom fram að í 82% tilvika þar sem börn höfðu orðið fyrir ofbeldi voru foreldrar gerendur og einnig kom fram að konur beita oftar líkamlegu ofbeldi gagnvart börnum en karlmenn“.

Ofbeldið getur orðið eðlilegur hluti af lífi barnsins eins og segir í skýrslunni:

„Ágætt dæmi um þetta er tíu ára stúlka sem dvaldi um tíma í Rauðakrosshúsinu. Þegar hún var spurð hvort hún væri beitt ofbeldi heima fyrir svaraði hún alltaf neitandi. En þegar hún var að segja hinum krökkunum frá einhverju hversdagslegu sem gerðist heima hjá henni sagði hún eins og ekkert væri eðlilegra: „Og mamma dró mig út á hárinu.“

Í sömu skýrslu segir:  „Fólk á nógu erfitt með að horfast í augu við að mæður berji börn sín, það er enn erfiðara að fá það til að viðurkenna að þær geti misnotað þau kynferðislega. Slíkt ofbeldi af hendi móður er kannski best falda ofbeldið sem konur beita. Við skoðuðum það mjög lítið einfaldlega vegna þess að lítið er til um það. En við vitum að það á sér stað. Sænskur sálfræðingur skrifaði bók um þetta sem hann byggði m.a. á frásögnum sjúklinga sinna sem voru fórnarlömb slíks ofbeldis af hendi móður.“

2004 kemur út grein eftir landlæknir á vef Umboðsmanni barna,  sem heitir: Heimilisofbeldi gegn börnum á Íslandi: höggva-hýða-hirta-hæða-hóta-hafna-hrista-hræða.

Greinin fjallar almennt um ofbeldi gegn börnum og segir að það sé almenn mýta að það séu bara feður sem beita börnin ofbeldi og segir að samkvæmt sænskum rannsóknur þá beiti mæður börnin meira ofbeldi.

2011 kemur út BA lokaverkefni í Félagsráðgjöf sem ber nafnið:  Ofbeldi gegn börnum. Samfélagsleg vernd.

Þar segir:  „Gerendur í ofbeldismálum gegn börnum eru oftast konur og greina má ýmislegt sammerkt með þeim og þeirra lífi. Þá virðist sem drengir séu frekar þolendur líkamlegs ofbeldis en stúlkur þolendur andlegs ofbeldis. Vanræksla hvers konar birtist jafnt gegn báðum kynjum.“  og á öðrum stað segir: „Þegar rætt er um líkamlegt eða andlegt ofbeldi gegn  börnum  og  börn  sem  eru  vanrækt  á  einhvern  hátt  eru  konur  í  miklum meirihluta gerendur“

Það verður að þegja yfir beiskum sannleikanum

Svo verður #MeToo byltingin og þá er hætt að skoða þessa hlið ofbeldis og algjör þöggun tekur við, og stöku fréttir af ofbeldi kvenna hætta að birtast, en þeim mun meira af ofbeldi karla, en aldrei sagt frá neinum hlutlausum rannsóknum.

Það sagði frá því hvernig reynt var að þagga niður í Erin Pizzey fyrir rúmri hálfri öld, og þöggunin hefur verið samfelld síðan.

Af því að ráðstefnan Ofbeldi gegn börnum er haldin á Háskólanum í Reykjavík með forseta hæstaréttar sem fundarstjóra þá vill greinarhöfundur geta þess að hann fór í ársbyrjun 2018 að benda á það hvað tálmun væri alvarlegt ofbeldi og að heimilisofbeldi væri ekki kynjaskipt.

Þetta féll ekki vel í musteri vísinda og málfrelsis þ.e.a.s Háskólanum í Reykjavík og var undirrituðum sagt upp á miðju misseri sem hefur bara gerst áður þegar starfsmaður varð uppvís að kynferðisbroti gegn barni, sem sýnir hvað það þurfti að beita hörðum tökum til að þagga niður þennan beiska kaleik.

Höfundur reyndi að leita réttar síns alveg upp til hæstaréttar, en hann lítur svo á að stjórnarskrárvarinn réttur til tjáninga var látinn víkja til að refsa fyrir að segja þennan beiska sannleika.

Við þetta má svo bæta við að Samtök um karlaathvarf fór þess á leit að koma réttum sjónarmiðum að í ráðstefnunni, en því var hafnað.

Kristinn Sigurjónsson

lector universitatis dimissus

 

 

Auglýsing

læk

Auglýsing

Fréttir

Auglýsing