„Það voru, held ég, um 890 beiðnir um símhleranir á árunum 2008 til 2012. Það var fallist á 99,7% þeirra,“ segir Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, í nýjum þætti af Spjallinu með Frosta Logasyni.
Hann lýsir yfir miklum áhyggjum af réttaröryggi borgaranna og gagnrýnir sérstaklega þá dómara sem samþykktu hleranir nánast undantekningarlaust.
„Menn verða að átta sig á því að þegar beðið er um símahlustun, þá er ekki hægt að gera sakborningum grein fyrir því, og ekki heldur verjandanum, vegna þess að það eyðileggur rannsóknaraðgerðirnar. Og þess vegna gátu menn bara farið fram eins og þeir vildu,“ segir hann og bendir á að þetta hafi leitt til þess að ekkert aðhald hafi verið við veitingu heimilda.
Hann dregur sérstaklega fram að einn héraðsdómstól var „fúsari en aðrir“ til að samþykkja hleranir, Héraðsdóm Vesturlands, og bætir við:
„Og hver heldur þú að hafi setið þar í dómaraembætti? Sá maður er núna forseti Hæstaréttar Íslands. Hann samþykkti allar beiðnir.“
Hleranir eftir að sakborningi var bent á rétt sinn
Jón Steinar bendir á að í sumum tilvikum hafi verið veitt heimild til hlerunar eftir að sakborningi var bent á að hann hefði rétt til að svara ekki spurningum lögreglu.
„Þá má ekki hlera hann strax í kjölfarið,“ útskýrir hann. „Ekki um það brot sem hann er sakaður um.“
Hann segir að þetta hafi síðar komið fram í dómi sem staðfesti að slíkt væri brot á mannréttindum mannsins.
„Það er ekki hægt að byrja á því að benda manninum á það að hann þurfi ekki að svara spurningum og fara svo að hlera það sem hann segir í símanum.“
Enn alvarlegra telur hann að verið hafi að hlera símtöl milli sakborninga og verjenda. „Það er auðvitað alveg háheilagur hlutur,“ segir hann og bætir við að þannig hafi verið brotið gegn grundvallarreglum réttarríkisins.
„Þeir breyttu lögunum til að hægt væri að sakfella bankamenn“
Í seinni hluta viðtalsins beinir Jón Steinar sjónum að dómsmálum gegn bankamönnum eftir hrun.
Hann segir að ákvæðum hafi hreinlega verið breytt í hegningarlögum til að hægt væri að sakfella þá fyrir svokölluð umbjóðsvik.
„Það er brot sem er í auðgunarkafla hegningarlaganna. Þar er skilyrði fyrir öllum brotum að það sé sannaður auðgunartilgangur hjá þeim sem brýtur af sér.“
„Þeir breyttu þessu ákvæði,“ segir hann, „og töldu nóg til að sakfella menn ef það hefði verið hætta á því að féð tapaðist við einhverjar aðgerðir þeirra.“
Hann segir slíkt fordæmalaust og ólögmætt: „Þetta er refsiákvæði, þetta er algjörlega óheimilt.“
Ákært vegna lengri fyrningarfrests
Samkvæmt Jóni Steinar var einnig markvisst forðast að ákæra samkvæmt bókhaldslögum, sem þó hefðu átt betur við í sumum málum, einfaldlega vegna þess að þau fyrnast eftir aðeins tvö ár.
„En brotin á almennu hegningalögunum fyrnast á sex árum. Og það skildi nú ekki hafa verið ástæðan fyrir því að það var ákært fyrir brot á almennum hegningarlögum, þó að þau stæðu alls ekki til þess.“
Harka gagnvart lögfræðistéttinni
Í lokin lýsir Jón Steinar yfir vonbrigðum með eigin stétt:
„Það þýðir ekkert fyrir mig að tala um þetta. Hver tekur undir með mér? Þessi lögmannastétt og lögfræðingastétt í landinu er alveg lið-ónýt!“
Hægt er að sjá brot úr viðtalinu hér fyrir neðan en ef þú vilt hlusta á allan þáttinn geturðu tryggt þér áskrift að Brotkast.is hér.