Í nýjasta þætti Spjallsins með Frosta Logasyni segir Gunnar Dan, rithöfundur og rannsakandi fljúgandi furðuhluta, frá íslenskri konu sem hann telur hafa orðið fyrir brottnámi af hendi geimvera í Mosfellsbæ.
Gunnar fullyrðir að hann hafi talað persónulega við konuna, sem sé hátt sett í sínu starfi og vilji ekki koma fram undir nafni.
„Ég tók viðtal við hana, þetta er kona sem ég þekki persónulega, hef unnið með og þekkt í örugglega tíu ár,“ sagði Gunnar í þættinum.
„Sjö gráar geimverur komu inn í herbergið.“
Samkvæmt frásögn konunnar átti atvikið sér stað í Álafosskvosinni í Mosfellsbæ, þar sem hún bjó ein með ungu barni sínu.
„Hún upplifði að sjö klassískar gráar geimverur komu inn í herbergið, hún lamdist í rúminu og fann fyrir miklum tilfinningalegum doða áður en hún missti meðvitund,“ sagði Gunnar.
Þegar hún vaknaði fannst henni hún svífa fyrir ofan fossinn við Álafoss, „eins og hún væri krossfest í loftinu“, umlukin hátíðnihljóði eða orku sem fyllti svæðið í kringum hana.
Hún sagðist hafa séð húsþakið á gömlu Álafossverksmiðjunni og Úlfarsfellið fyrir framan sig, og yfir fossinum svifi diskur um tuttugu metra í þvermál.
Trúnaðarsaga sem rataði í bók
Gunnar segir að konan hafi sagt honum söguna í trúnaði, en hann hafi fengið leyfi til að skrifa hana í bók sinni um brottnámstilfelli.
Konan hafi þó ekki viljað koma fram undir nafni.
Í þættinum bætti Gunnar við að hann teldi líklegt að geimverur frá öðrum plánetum muni koma til jarðar þann 31. október.
Hægt er að sjá brot úr viðtalinu hér fyrir neðan en ef þú vilt sjá allan þáttinn geturðu tryggt þér áskrift að Brotkast.is hérna.