Íslensk ungmenni hvött til að taka milljóna lán fyrir „gervigreindar námskeiði“ – Sjálfskipaður „gúru“ lofar ævintýralegum gróða

Undanfarna daga hafa færslur um ungan mann að nafni Sergio Herrero farið eins og eldur í sinu um íslenska samfélagsmiðla.

Nútímanum hafa borist skjáskot af færslum sem birtar hafa verið í Facebook hópunum Beautytips og Pabbatips þar sem aðilar vara notendur við námskeiðum á hans vegum.

Auglýsing

Þar eru þátttakendur hvattir til að greiða allt að tvær milljónir króna fyrir svokallað „AI Mastermind“ námskeið.

Í einni færslu segist aðili vera systir drengs sem hafði verið boðaður á Zoom fund hjá Sergio, sem hún segir hafa reynt að fá hann til að greiða 1,2 milljónir króna fyrir framhaldsnámskeið.

„Hann er að reyna fá 12 ára bróður minn í að skrá sig á ehv námskeið sem heitir Mastermind og kostar 1,2M,“ segir í færslunni sem birtist í Beautytips.

Svipuð varnaðarorð birtust í hópnum Pabbatips, þar sem foreldri sagði 14 ára bróður sinn hafa sótt svipaðan kynningarfund.

Þar kemur fram að þátttakendur séu hvattir til að „fjárfesta í sjálfum sér“ með háum fjárhæðum og jafnvel taka lán til að greiða fyrir námskeiðið.

„Hann var að segja reynslusögur frá nemendum sínum að þeir hefðu tekið lán hjá vinum og fjölskyldu, jafnvel bönkum líka,“ segir í færslunni.

„AI getur verið frábær grundvöllur til að græða peninga, en að borga öðrum allt að 2 milljónum fyrir að kenna sér það er með öllu siðlaust.“

Lofar nemendum háum tekjum með „AI Partner Model“

Á samfélagsmiðlum sínum fullyrðir Sergio að hann hafi sjálfur grætt mjög háar fjárhæðir á stuttum tíma með því sem hann kallar „AI Partner Model“.

Í færslum á Instagram síðu hans, officialsergioherrero, segist hann hafa náð rúmlega 6 milljón króna hagnaði á mánuði, eða 50 þúsund dollara, og náð því markmiði á tveimur mánuðum.

Hann lofar svo nemendum sínum svipuðum árangri.

„If I had to start from zero today, here’s how I’d hit $10K/month in the next 30 days,“ segir hann í einni færslu.

„With just 2 clients at $5K each, AI handling 90% of the work, and a simple system, hitting $10K in 30 days is realistic.“

Í annarri færslu heldur hann því fram að hann hafi grætt 14,5 milljónir króna á einni viku, eða 113 þúsund dollara, og að byrjendur geti náð „$3K–$10K á sinni fyrstu viku“.

Sergio segist einnig hafa tekið 30 þúsund dollara lán þegar hann var sjálfur 20 ára, til að fjárfesta í læriföður, sem hann segir hafa „breytt öllu“.

Nú kveðst hann sjálfur bjóða upp á svipaða ráðgjöf í formi „free training“ eða „live masterclass“, þar sem fólk er hvatt til að skrifa athugasemdir á borð við „10K“, „CLASS“ eða „Training“ til að fá tengil þar sem námskeiðin eru í boði.

Spurt hversu miklu fólk geti „fjárfest í sjálfu sér“

Í skráningarformi sem tengt er við námskeiðið spyr Sergio beint hversu miklu þátttakendur geti lagt fram, en þar stendur:
„Til að geta joinað Sergio’s Mastermind þarf að hafa ákveðið fjármagn til að fjárfesta í sjálfum sér.“

Gefnir eru kostir á bilinu undir 500 þúsund krónum upp í yfir tvær milljónir.

Að lokinni spurningunni er síðan boðið að velja hvenær viðkomandi sé tilbúinn að byrja, með valkostina „Strax, ég er action taker!!!“ fremst.

Færslur fjarlægðar eftir gagnrýni

Netverji sem segist áður hafa varað við námskeiðinu segir að hann hafi fjarlægt fyrri færslu eftir að hún vakti heitar umræður, en svo ákveðið að birta aðra þegar Sergio auglýsti nýtt námskeið 30. október.

„Það er augljóst að hann er að reyna að safna inn meiri pening eftir að hafa þegar fengið 1,2–2 milljónir króna frá um tíu nemendum sínum,“ skrifar hann.
„Ég þekki persónulega einstakling sem greiddi honum 1,5 milljón króna fyrir að sækja slíkt námskeið.“

„If you sleep on this it’s like telling yourself I want to stay broke“

Að sögn hans hafi engin sönnun verið lögð fram fyrir þeim tekjum sem Sergio segist hafa aflað.

„Hann hefur hvorki sýnt fram á neinn raunverulegan hagnað né lagt fram ársreikninga eða neinar sannanir fyrir tekjum sínum, bókstaflega ekkert.“

Þess ber að geta að allar færslurnar þar sem varað er við Sergio hafa verið nafnlausar.

Sama aðferð og notuð er í öðrum dýrum námskeiðum á netinu

Heimildarmaður Nútímans segir fyrirkomulagið sem Sergio beitir bera öll einkenni svokallaðrar high-ticket coaching svikamyllu.

Það er svikamylla sem hefur notið mikilla vinsælda á samfélagsmiðlum undanfarin ár og felur í sér að viðskiptavinum er lofað miklum tekjum á skömmum tíma, oft með „kerfi“ sem byggist á netviðskiptum, gervigreind eða markaðssetningu, en þátttakendur þurfa að greiða háar fjárhæðir fyrir kennsluna.

Þeir sem standa fyrir slíkum „námskeiðum“ á þessu sviði kynna sig sem ungt fólk sem hefur orðið fjárhagslega sjálfstætt eða ævintýralega ríkt á stuttum tíma.

Þeir sýna myndir af lúxusbílum, ferðalögum og tölum sem eiga að staðfesta árangurinn.

Þegar fólk sýnir áhuga er því boðið í ókeypis kynningu eða „free training“, sem oftast reynist vera sölufundur þar sem þátttakendur eru hvattir til að greiða stórar fjárhæðir fyrir framhaldsnámskeið.

Tekjur koma frá nýjum þátttakendum – ekki viðskiptum

Sérfræðingar í netöryggi og neytendavernd hafa ítrekað bent á að tekjur svona aðila komi yfirleitt aldrei af raunverulegri starfsemi heldur af nýjum nemendum sem borga til að komast inn í kerfið.

Þegar fyrri „nemendur“ byrja sjálfir að selja námskeiðin áfram til annarra, verður til keðjuverkun sem líkist pýramídasvindli.

Efnið sem selt er í svona námskeiðum reynist nær undantekningalaust vera endurtekið efni sem hægt er að finna ókeypis á netinu, almenn ráð um markaðssetningu, sjálfsaga og hvatningu.

Engin loforð um tekjur standast skoðun og oft hverfa kennararnir eða skipta um notendanafn þegar byrjað er að gagnrýna námskeiðin.

Frægir einstaklingar sem beitt hafa svipuðum aðferðum

Nokkrir þekktir einstaklingar hafa notað sambærilegar aðferðir á undanförnum árum, en þar má nefna Iman Gadzhi (sem Sergio nefnir í nokkrum myndböndum), Tai Lopez og Andrew Tate.

Frægasta dæmið um sama módel er líklega Hustler’s university, sem Andrew Tate byggði upp þar sem hann gefur sömu loforð og Sergio en í því virðist aðal (eða eina) innkoman vera frá nýjum áskrifendum.

Sergio notar sambærilegt orðalag og þessir aðilar:

„If you sleep on this, it’s like telling yourself I want to stay broke,“
„AI does 90% of the work,“
„I only take action takers.“

Þetta er dæmigerður sálfræðilegur þrýstingur sem ætlað er að vekja skömm og ótta við að missa af „stóra tækifærinu.“

Markhópurinn: ungmenni með litla fjármálareynslu

Það sem gerir íslenska dæmið sérstaklega alvarlegt er að markhópurinn virðist vera börn og unglingar ef eitthvað er að marka færslurnar úr Facebook hópunum.

Blaðamaður skoðaði einnig athugasemdir og þær virðast margar koma frá mjög ungu fólki.

Í mörgum alþjóðlegum dæmum hafa aðilar sem lofa slíkum tækifærum er einmitt einblínt sérstaklega á unga einstaklinga, oftast karlmenn, sem dreymir um skyndigróða.

Þeir nota hugtök á borð við financial freedom (fjárhagslegt sjálfstæði), escape the matrix (að sleppa úr kerfinu) eða AI wealth revolution (byltingarkennd leið til að auðgast með gervigreind), sem höfða til þeirra sem hafa ekki nægjanlega reynslu til að meta raunverulega takmörkun gervigreindar.

„Einkennin eru alltaf þau sömu“

Talsmenn í neytendavernd segja helstu rauðu flöggin í svona málum vera eftirfarandi:

  • Loforð um háar tekjur á skömmum tíma.
  • „Free masterclass“ sem leiðir þig upp á næsta stig sem er dýrt námskeið.
  • Kröfur um háar fjárhæðir fyrirfram.
  • Skortur á sönnunargögnum um raunverulegan árangur.
  • Þrýstingur og sálfræðileg hvatning til að „fjárfesta í sjálfum sér“.

Nútíminn hafði samband við sérfræðing í hugbúnaðargerð sem hefur starfað í faginu í 30 ár og sérhæft sig meðal annars í forritun gervigreindar.

„AI er voðalega góð leið til að plata fólk að láta þig fá peninga því fólk veit ekki hvað AI getur og getur ekki gert, hvað þá að skilja grunn tækni, einsog internet, forritun, gagnagrunna o.s.fv ,“ segir sérfræðingurinn.

Hann benti einnig á að ein mynd sem Sergio setur inn til að auglýsa starfsemi sína virðist hafa verið breytt, annaðhvort með gervigreind eða Photoshop.

Þar standa tveir menn fyrir framan risa auglýsingu á Time Square í New York sem þeir segja vera þeirra auglýsingu.

Hann segir lýsingu vera ranga og endurspegli ekki umhverfið og bendir einnig á að neðst í hægra horni auglýsingar sé gefin upp slóðin Whop.com  og sagt að þar sé hægt að finna meira um fyrirtækið en blaðamaður fann ekkert um ‚Propelsolar‘ inni á þeirri síðu.

Ekki fannst heldur nein síða um Propelsolar sem var virk, en ein síða var þó til með slíku nafni en sú var óvirk.

Blaðamaður settist á skólabekk

Blaðamaður fór á YouTube síðu Sergio og sat námskeiðið ‚How I went from 0 to $140k per month in 6 months at 19‘ og er það auglýst sem „full masterclass“ námskeið.

Námskeiðið er rúmar tvær klukkustundir og eftir að hafa hlustað á allt námskeiðið er þetta niðurstaða blaðamanns og hvernig það passar við áðurnefnt ‚High-ticket coaching‘ svikamylluna.

  • Allt „námskeiðið“ er söluræða sem hefur eitt markmið: að bóka símtal og kaupa pakka á 5 þúsund dollara.
  • Ósannreynanleg myndbönd með vitnisburði aðila sem segja sögur um 10–30 þúsund dollara gróða á mánuði á örfáum dögum. Engin fyrirtækjanöfn eru nefnd og engar sannanir gefnar fyrir árangri.
  • Tilbúinn skortur á plássi og tíma. „Fyrstu 10 fá bónusa“ og „aðeins hægt að skrá sig núna“ sem er klassísk aðferð til að þrýsta á fólk til að skrá sig strax til að missa ekki af „stóra tækifærinu.“
  • Óljós þjónusta. Talað í almennum frösum um „agency“, „automations“ og „inbound/outbound“, en engar skýrar aðferðir til að ná þeim árangri sem lofað er.
  • Ábyrgð námskeiðahaldara um árangur sem hljómar vel en er í reynd innantóm þar sem nánast undantekningalaust eru falin skilyrði í samningi um endurgreiðslu sem ómögulegt er að uppfylla.
  • Tal um hversu ríkir námskeiðahaldarar eru orðnir og hversu flotta bíla og úr þeir eigi núna.

Sérfræðingur Nútímans varar við að það sama gildir um gervigreind og flest annað þegar kemur að skyndigróða: „Ef það hljómar of gott til að vera satt þá er það næstum undantekningalaust svoleiðis. Ef drengurinn hefði þá þekkingu sem þarf til að verða jafn ríkur og hann heldur fram á þennan hátt þá væri hann ekki að deila því með almenningi.“

Hefur þú upplýsingar?

Hafir þú reynslu af námskeiðum Sergio, hvort sem um er að ræða góða eða slæma, geturðu sent tölvupóst á Ritstjorn@nutiminn.is

Ekki náðist í Sergio við gerð fréttarinnar.

 

 

Auglýsing

læk

Auglýsing

Fréttir

Auglýsing