Í ítarlegu viðtali við Frosta Logason í þættinum Spjallið á streymisveitunni Brotkast, kemur Jón Óttar Ólafsson, fyrrverandi rannsóknarlögreglumaður, með alvarlegar ásakanir á hendur sérstökum saksóknara, Ólafi Þór Haukssyni.
Þar segir hann Ólaf hafa lekið gögnum til fjölmiðla og vísvitandi leitt hann sjálfan og samstarfsmann sinn í gildru til að geta kært þá árið 2012 fyrir gagnaþjófnað.
Fullyrðir að kæran hafi verið yfirvarp
Samkvæmt Jóni Óttari var kæra Ólafs Þórs frá árinu 2012 aðeins „yfirvarp“.
Kæran gekk út á meint brot á þagnarskyldu og óleyfilega not gagna, en Jón segir gögnin hafa verið á þeirra tölvum vegna lögmætrar vinnu fyrir embætti sérstaks saksóknara, með samþykki embættisins.
„Við vorum kærðir vegna þess að Ólafur fyrir allt í einu að fá veður af því að verjendur í málunum séu að fetta þeirra feta fingur út í þetta, þetta kerfi,“ segir Jón.
Hann bendir á að málið hafi snúist um að þeir og fleiri hafi unnið samtímis fyrir embætti sérstaks saksóknara og slitastjórnir, með vitund og leyfi saksóknara.
Segir Ólaf hafa falsað dagsetningu á samningi
Jón lýsir því að Ólafur hafi fengið hann og samstarfsmann hans, nú látinn, til að skrifa undir samning um þá vinnu sem þeir áttu að vinna fyrir slitastjórn.
Samningurinn var dagsettur afturvirkt.
„Svo segir hann: ‘Strákar, er eitthvað að því að ég dagsetji þetta fyrsta janúar?’ Og við bara: ‘Okei, ef það lokar einhverju gati fyrir þig, þá er það allt í lagi okkar vegna.’“ Jón bætir við: „Ólafur segir þarna: ‘Nú gerum við bara eins og bankakallarnir strákar, backdeita.’“
Kæran kemur nokkrum vikum síðar
Stuttu síðar, segir Jón, breytist allt. „Seinnipartinn í maí, þá allt í einu bara, er allt lok lok og læs hjá héraðssaksóknara og allir fjölmiðlar með það að héraðssaksóknari sé búinn að kæra okkur fyrir gagnaþjófnað.“
Í júlí sama ár voru þeir svo yfirheyrðir af Sigríði Björk Guðjónsdóttur, núverandi ríkislögreglustjóra, og lögreglumanni frá Suðurnesjum.
„Innan úr ríkissaksóknara, að ég veit, þá voru menn í vandræðum með að Ólafur Þór Hauksson og Grímur Gríms og Hólmsteinn Gauti væru að ljúga“
„Þá byrjar Sigríður á því að leggja fyrir mig hennar verktakasamning. Þá segi ég bara: ‘Þetta er samningurinn sem við undirrituðum með Óla fyrir örfáum vikum, hvað er þetta?’ Og hún segir: ‘Þetta er grunngagnið með kærunni frá Ólafi.’“
Fullyrðir að kæran hafi verið fyrirfram ákveðin gildra
Frosti spyr Jón beint út: „Ertu þá að segja að sérstakur saksóknari Ólafur Hauksson hafi kallað ykkur til sín á fund til að fá ykkur til að skrifa undir samning, á meðan hann var í raun þegar búinn að ákveða að kæra ykkur?“
Jón svarar: „Já, hann var búinn að ákveða að kæra okkur þá.“
„Hann er að búa til gögn til að segja síðan: ‘Sjáðu, Sigríður, sjáðu hvað þeir eru miklir glæpamenn. Þeir sögðu mér frá slitastjórnarvinnunni en ekki mælstónvinnunni.’ Og þá á það að vera sönnun fyrir því að það hafi verið án hans vitundar og vilja.“
Getur sannað að samningurinn sé tilbúiningur
Jón segir að einfalt hafi verið að sanna að samningurinn væri dagsettur aftur í tímann.
„Það stendur að við séum að vinna fyrir slitastjórn Glitnis 2. janúar. Við vorum ekkert að vinna fyrir slitastjórn Glitnis 2. janúar.“ Hann segir fyrstu samskiptin við slitastjórnina ekki hafa átt sér stað fyrr en í lok febrúar, sem staðfest sé með tölvupóstum.
Ólafur, Grímur og Hólmsteinn sakaðir um lygar
„Innan úr ríkissaksóknara, að ég veit, þá voru menn í vandræðum með að Ólafur Þór Hauksson og Grímur Gríms og Hólmsteinn Gauti væru að ljúga.
Og það er bara hrikalegt vandamál fyrir kerfið.“
Slitastjórnin tók gögnin – en ekki saksóknari
Jón segir að eftir að þeir voru kærðir hafi slitastjórn Glitnis komið inn á skrifstofu þeirra, tekið allar tölvur, netþjóna og gögn.
„En það kom enginn frá héraðssaksóknara. Ólafur gerði aldrei neina tilraun til að gera eitt eða neitt, að ná í neitt.“
Hægt er að sjá brot úr þættinu hér fyrir neðan en ef þú vilt horfa á allan þáttin geturðu tryggt þér áskrift að Brotkast.is hér.