Guðmundur Karl Snæbjörnsson, betur þekktur sem Kalli Snæ, hefur beðist opinberlega afsökunar á því að hafa fullyrt ranglega að embætti Landlæknis hafi svipt hann lækningaleyfi vegna skoðana hans á bólusetningum og sóttvarnaraðgerðum.
Í pistli sem hann birtiá Facebook viðurkennir hann að um hafi verið að ræða hans eigin ályktanir en ekki orð Landlæknis.
Hann segir að fullyrðingarnar hafi verið settar fram á þann hátt að þær virtust vera beinar tilvitnanir úr sviptingarbréfinu, en í raun hafi þær verið hans persónuleg túlkun á aðdraganda málsins.
„Ég biðst afsökunar á því að ályktanir mínar, sem voru mínar eigin en ég hélt fram af hálfu EL (Embætti Landlæknis), ranglega þó líklegar séu, hafi valdið ruglingi,“ skrifar Kalli Snæ.
Fullyrti að Landlæknir hefði sagt hann ógna lýðheilsu
Í fyrri yfirlýsingum sínum hafði Kalli Snæ haldið því fram að sviptingin væri refsiaðgerð vegna skoðana hans. Meðal annars vitnaði hann, með gæsalöppum, í eftirfarandi setningar sem hann sagði koma úr bréfi Landlæknis:
- Yfirlýsingar hans „grafa undan trausti“ á heilbrigðisþjónustu.
- Að þeim „skorti vísindalegan grunn“ og væru „óhæfileg afskipti“ og „misnotkun starfsheitis“.
- Að hópar sem hann starfaði með væru „vísindalega óstuddír“.
- Að yfirlýsingar hans um mRNA bóluefni væru „óljósar“, „valdi ótta“, „dragi úr bólusetningum“ og „ógni lýðheilsu“.
Ekkert af þessu reyndist satt eins og kom fram í viðtali sem Frosti Logason tók við Kalla Snæ en Frosta hafði borist bréfið í hendur og innihélt það enga af þessum fullyrðingum.
Sviptingin vegna vanrækslu – ekki vegna skoðana
Raunveruleg ástæða sviptingarinnar, samkvæmt bréfinu, var sú að Guðmundur Karl svaraði ekki ítrekuðum erindum Landlæknis í kjölfar þess að hann sjálfur tilkynnti árið 2023 að hann ætlaði að opna símaþjónustu til fjarlækninga.
Hann hætti rekstrinum skömmu síðar og fylgdist ekki með sérstöku netfangi sem embættið hafði samskipti við.
Í samskiptum Landlæknis kom fram að embættið óskaði skýringa og gagna vegna þjónustunnar.
Þegar ekkert svar barst eftir fjölmargar ítrekanir, endaði málið með sviptingu leyfisins.
Segist enn telja aðra ástæðu líklegri – og gagnrýnir yfirvöld harðlega
Þrátt fyrir afsökunarbeiðnina heldur Guðmundur Karl því enn fram að símamálið geti ekki eitt og sér útskýrt sviptinguna.
Hann heldur áfram að gagnrýna heilbrigðisyfirvöld harkalega og spyr hvort þau muni einhvern tímann viðurkenna eigin mistök og biðjast afsökunar.
Í færslu sinni telur hann upp langan lista af fullyrðingum gegn bólusetningum, sóttvarnaraðgerðum og heilbrigðiskerfinu, þar á meðal aukningu í fósturlátum, frjósemiskerðingu, ungbarnadauða, og umframdauðsföll sem hann tengir við bóluefnin.
„Mistök mín voru mín – ekki Landlæknis“
Í lok pistilsins segir Kalli Snæ:
„Ég hef nú beðist afsökunar og velvirðingar á mistökum mínum. Ég viðurkenni fúslega mín mistök, enda rétt er rétt.“
Hann krefst engu að síður viðbragða frá embætti Landlæknis og segir boltann nú hjá þeim.