Kona á fimmtugsaldri lést eftir stunguárás í miðbæ Hønefoss í Suðaustur Noregi síðdegis á þriðjudag.
Árásarmaðurinn, karlmaður á svipuðum aldri, var skotinn af lögreglu við handtöku og fluttur á sjúkrahús þar sem hann gekkst undir aðgerð.
Samkvæmt upplýsingum frá norska ríkisútvarpinu NRK hefur maðurinn nú verið yfirheyrður.
Verjandi hans, Stian Hatleberg, segir að skjólstæðingurinn viðurkenni upp á sig ódæðið.
„Lögreglan hefur ekki spurt hann sérstaklega út í afstöðu hans til ákærunnar, en hann viðurkennir tengsl við málið,“ sagði Hatleberg í viðtali við TV 2.
Hann staðfesti að maðurinn og konan hefðu áður verið í sambandi sem lauk fyrir nokkrum árum.
Á þeim tíma sem árásin átti sér stað var konan með nálgunarbann á manninn.
Lögreglurannsókn stendur yfir og er málið rannsakað sem morð.