Karlmaður sem dvaldi í hælisleitendaúrræði í Reutlingen í Þýskalandi hefur verið dæmdur í 11 ára fangelsi fyrir að hafa ýtt vini sínum út um glugga og svo nauðgað honum á meðan hann lá alvarlega slasaður á jörðinni en fallið var um 14 metrar.
Dómurinn féll við héraðsdóm í Tübingen samkvæmt frétt SWR, opinbers útvarps í Baden-Württemberg.
Árásin náðist á myndbandsupptöku
Samkvæmt gögnum málsins áttu mennirnir tveir í átökum eftir að hafa drukkið áfengi og reykt marijúana inni í húsnæðinu.
Í kjölfarið ýtti ákærði hinum manninum út um glugga.
Á meðan fórnarlambið lá meðvitundarlaust og illa slasað fyrir utan húsið, kom gerandinn niður, dró niður buxurnar og nauðgaði manninum.
Þetta náðist allt á öryggismyndavél, samkvæmt dómaranum sem vitnaði í upptökurnar við uppkvaðningu dóms.
Vegfarendur reyndu að stöðva árásina
Vegfarendur komu að vettvangi og reyndu að koma fórnarlambinu til aðstoðar.
Ein kona sló gerandann með handtösku en hann hætti engu að síður ekki árásinni fyrr en lögregla og sjúkraliðar komu á staðinn.
Ákærði, 30 ára gamall, var dæmdur fyrir alvarlega líkamsárás og nauðgun.
Saksóknari fór fram á 12 ára fangelsi en verjandi krafðist sýknu.
Dómarinn taldi hins vegar að glæpurinn hefði verið framinn af fullum ásetningi og að engin merki væru um geðröskun eða fíkn sem gæti mildað refsingu.
Ekki liggja fyrir upplýsingar um þjóðerni eða stöðu mannsins innan hæliskerfisins þrátt fyrir að þýskir fjölmiðlar hafi óskað eftir þeim.