Menntamálaráðuneytið með 495 milljónir til nýrra úrræða meðan börn með fatlanir fá ekki pláss í framhaldsskóla

Margrét Valdimarsdóttir, dósent við Háskóla Íslands og móðir drengs með sérþarfir, birti færslu á Facebook þar sem hún fordæmir það sem hún kallar „vanhæfa stjórnsýslu“ í mennta- og barnamálaráðuneytinu.

Í færslunni segir Margrét að ráðuneytið auglýsi nú eftir umsóknum frá sveitarfélögum til að nýta 495 milljónir króna í verkefni sem miða að því að efla farsæld barna.

Auglýsing

Þá séu einnig hundruð milljóna króna ætlaðar til áætlunar gegn ofbeldi meðal og gegn börnum, þar á meðal úrræði fyrir 16–17 ára ungmenni sem eru hvorki í námi né vinnu.

„En á sama tíma hefur ráðuneytið ekki fjármagn til að tryggja að þau börn sem þeim ber lagaleg skylda til að mennta fái að fara í framhaldsskóla,“ segir hún.

Þá nefnir hún sérstaklega börn með skerðingar og fatlanir sem þegar hafa sótt um pláss í starfsdeildir framhaldsskólanna en fengið synjun.

„Nú er kominn júní og það liggur því fyrir að um 25 börn fá ekki inngöngu í framhaldsskóla næsta vetur, meðal þeirra er Egill minn.“

Margrét segir stjórnmálamenn vísa hver á annan: „Menntastofnun bendir á ráðuneytisstjóra sem bendir væntanlega á ráðherra.“

Svörin sem hún fær séu að „börnin séu svo mörg“, sem hún bendir á að sé fyrirsláttur, þar sem stærð árgangsins hafi legið fyrir árum saman.

„Þetta væri fyndið ef þetta væri ekki svona sorglegt,“ segir hún að endingu.

 

Auglýsing

læk

Auglýsing

Fréttir

Auglýsing