Sæþór Benjamín Randalsson, nýkjörinn formaður framkvæmdaráðs Sósíalista, segir að verið sé að reyna að rústa mannorði hans með fölsuðum skjáskotum og skipulögðum rógburði.
Undanfarið hefur skjáskotum af samtali verið dreift sem sýna kynferðislegt spjall sem á að hafa átt sér stað á Grindr og sagt sýna spjall milli Sæþórs og 16 ára drengs.
Nútíminn fékk nokkur slík send en engin staðfesting hefur fengist á uppruna samtalanna og ekkert í þeim staðfestir að Sæþór sé þarna sjálfur á ferð.
Umrætt efni birtist í lokuðum Telegram-hóp í mars síðastliðnum en hópurinn segist berjast gegn barnaníði og þar því er haldið fram að Sæþór hafi átt í óviðeigandi samskiptum við drenginn.
Í símtali við Nútímann vísar Sæþór öllum ásökunum á bug og segir að reynt hafi verið að kúga hann til greiðslu með því að dreifa meintu skjáskoti úr Grindr spjalli sem hann segist ekkert hafa haft með að gera.
Hann segir um falsaðan reikning að ræða og hafnar allri tengingu við skjáskotin.
Aðspurður segir Sæþór Benjamín að hann hyggist ekki kæra málið til lögreglu að svo stöddu enda viti hann ekki hvaðan ásakanirnar koma og erfitt sé að rekja málið gegnum forrit eins og Telegram.
Hann tekur einnig fram að hann telji engan vafa leika á því að ásakanirnar tengist stöðu hans innan Sósíalistaflokks Íslands og segir tímasetningu þeirra enga tilviljun.
Skjáskotin sem Nútíminn fékk send er hægt að sjá hér fyrir neðan.