Auglýsing

Prakkarastelpur og strákaskussar

Dröfn Vilhjálmsdóttir, bókasafnsfræðingur skrifar:

 

Ég hef starfað á skólasafni í bráðum 12 ár og er hugsi vegna þeirrar umræðu um læsi, lestur og líðan barna og unglinga sem á sér stað þessa dagana. Ég upplifi að umræðan sé ekkert alltaf í tengslum við þann raunveruleika sem ég upplifi daglega „á gólfinu“ með umræddum börnum. Ég undrast að nánast sé aldrei rætt um kjarna málsins, að mínu mati, þegar kemur að læsi og lestri barna; sjálfar bækurnar! Gæti það verið að við, lítið samfélag með örtungumál, setjum óraunhæfar lestrarkröfur á börnin okkar miðað við það úrval íslenskra bóka sem við bjóðum þeim upp á í mettuðum heimi afþreyingar á ensku?

Þegar kemur að líðan og sjálfsmynd barna okkar þá velti ég því líka fyrir mér hvaða barnabækur sýni okkur drengi sem jákvæða fyrirmynd? Vissulega er hægt að finna dæmi um það, sérstaklega í nýlegum bókum. En það er fremur áberandi að oft fjalla vinsælir bókaflokkarnir, sem eiga að höfða til stráka, um erfiða stráka og jafnframt eru þeir málaðir upp sem mjög einhliða persónuleikar. Það er ákveðin tilhneiging að sýna stráka þannig að þeir geti ekki verið sniðugir eða skemmtilegir án þess að stríða eða vera óþekkir. Og svo eru þeir uppnefndir í titlinum út frá því:

SKELFIR!
KLAUFI!
SÓÐI!
STRÍÐNISPÚKI!
KLÚÐRARI!
PRAKKARI!
VONDUR!

Það er líka áhugavert að „prakkara“-stelpur eru oft sýndar sem meira marglaga karakterar sem eru jákvæðir uppreisnarseggir, t.d. Ronja og Fíasól. Okkur myndi líklega bregða ef við sæjum titla á bókum sem eiga að höfða til stelpna á borð við: Dagbók Bínu brussu, Vondu gellurnar, Sibba sóði eða Solla skelfilega en við lyftum ekki brúnum ef bækur sem eru um drengi bera þessa titla. Dæmi um titla í vinsælum bókaflokkum sem eiga að höfða til stelpna:

DÝRAVINUR!
LÆRIR AÐ LESA!
FLOTTUST!
BEKKJARDROTTNINGIN!
FER Í SKÓLA!
OFURHETJA!
BJARGAR HEIMINUM!
Í BLÍÐU OG STRÍÐU!

Vissulega vel ég þarna jákvæða titla. En það er samt sláandi munur á milli bókaflokka og orðræða hefur áhrif, þarna berum við mikla ábyrgð.
Við höfum algjörlega eftirlátið markaðsöflum barnabókamarkaðinn og börn eru ekki með rödd á þeim markaði. Við styðjum ekkert sérstaklega vel við frábæru barnabókahöfundana okkar og það gildir einnig um þýðingar. Það er til dæmis hætt að þýða bækur í miðju kafi í öðrum hverjum bókaflokki fyrir börn og unglinga því útgáfan stendur ekki undir sér.

Dæmi um sláandi mun á milli bókaflokka:

Mín reynsla er sú að börn vilja sannarlega lesa. Vandamálið felst hins vegar í því að þó ég kaupi inn á skólasafnið allar barnabækur sem gefnar eru út á íslensku, þá mettar það úrval í besta falli ca. 10% af bókaþörf barnanna! Þau klára bækur sem höfða til þeirra á örstuttum tíma en megnið af tímanum eru þau í stökustu vandræðum með að finna bækur sem þau hafa áhuga á og lesa gjarnan sömu bækurnar aftur og aftur eða fara bókalaus og vonsvikin af skólasafninu þegar þau finna ekki bækur sem höfða til þeirra.
Við kvörtum yfir því að unglingar nenni ekki að lesa. Það koma út 10-12 nýjar unglingabækur árlega – hversu spennt væruð þið fyrir lestri ef þið hefðuð einungis það val árlega? Kannski elskið þið að lesa glæpasögur en meðal þessara bóka væri engin glæpasaga, mynduð þið lesa bækur sem þið hefðuð engan áhuga á? Við ætlumst til þess af börnum okkar og unglingum.

Við gáfum út tæplega 200 barna- og unglingabækur á íslensku árið 2023. Í Svíþjóð komu hins vegar út 2200 barna- og unglingabækur á síðasta ári. Börnin okkar þurfa jafnmikla breidd í úrvali bóka og sænsk börn en við erum lítið land, því þyrfti ríkið að styðja barnabókaútgáfu mjög duglega. Eins og staðan er í dag þá þarf hver einasta barnabók, sem gefin er út hér á þessari litlu eyju með eigið örtungumál, að skila hagnaði – það eru galnar forsendur!

Í Noregi meta stjórnvöld það svo að norska sé örtungumál og því þurfi þau að styðja sérstaklega við barnabókaútgáfu. Ríkið kaupir því 1800 eintök af hverri útgefinni barnabók og dreifir á bókasöfn landsins. Með þeim hætti er barnabókaútgáfa tryggð, útgefandi tapar aldrei á útgáfu barnabóka og bókaþörf barnanna ræður útgáfunni, ekki markaðsöfl.

Hættum að tala um að börn hafi ekki áhuga á lestri og tökum raunverulega ábyrgð á því að skapa þeim gott umhverfi fyrir lestur með breiðu úrvali bóka og góðu aðgengi að bókum.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing