Fullyrðingum íslenskra ráðamanna um að lokun sendiráðsins hafi verið nauðsynleg vegna skorts á öryggi starfsmanna er alfarið hafnað af rússneskum stjórnvöldum.
Engar kvartanir vegna slíkra mála bárust rússneskum yfirvöldum.
Á blaðamannafundi sem haldinn var í Moskvu þann 20.mars kom fram að rússnesk stjórnvöld höfðu ekki fengið neinar tilkynningar né kvartanir frá íslenskum yfirvöldum vegna meintra öryggisógna starfsmanna sendiráðs Íslands í Rússlandi.
Þessar upplýsingar komu fram í þættinum Heimsmálin á Útvarpi Sögu, sem Arnþrúður Karlsdóttir og Pétur Gunnlaugsson stýra. Gestur þáttarins var Bjarni Hauksson þjóðfélagsrýnir.
Í þættinum var spiluð upptaka frá blaðamannafundinum.
Talskona rússneska utanríkisráðuneytisins hafnar ásökunum
Fréttamaðurinn Haukur Hauksson lagði fram spurningarnar til Maríu Zakarovu, upplýsingafulltrúa rússneska utanríkisráðuneytisins, þar sem hann vísaði í orð Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, fyrrverandi utanríkisráðherra, og Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, núverandi utanríkisráðherra, um að starfsmönnum sendiráðsins hafi verið ógnað og að ekki hafi verið hægt að tryggja öryggi þeirra.
Lokun sendiráðsins sögð pólitísk ákvörðun
Zakarova vísaði þessum ásökunum á bug og sagði ákvörðun Íslands um að loka sendiráðinu í Moskvu hafa verið pólitísk, en ekki vegna raunverulegra öryggisástæðna.
Hún benti á að Ísland hafi verið fyrsta ríkið til að loka sendiráði sínu í Rússlandi eftir að stríðið í Úkraínu hófst.
Hún sagði einnig að sú atburðarrás muni hafa meiri afleiðingar heldur en þegar hafa komið í ljós.
Óljósar lýsingar á meintum atvikum
Á fundinum kom einnig fram að íslensk yfirvöld hafi aldrei skilað inn neinum formlegum kvörtunum eða tilkynningum vegna meintra atvika á borð við innbrot í íbúðir sendiráðsstarfsmanna, óvenjulega hluti í ísskápum eða sígarettustubba á vettvangi.
Slík atvik voru meðal þeirra sem íslensk stjórnvöld hafa sagt hafa átt sér stað.
Haukur Hauksson sagði málið sérlega undarlegt og benti á að ef engin samskipti hafi átt sér stað við rússnesku lögregluna um þessi mál hljóti málið að teljast afar sérstakt.
Ísland gagnrýnt fyrir skort á öryggisgæslu
Zakarova gagnrýndi einnig hvernig öryggismál rússneska sendiráðsins í Reykjavík hafi verið meðhöndluð.
Hún sagði að þar hafi átt sér stað skemmdarverk og að rússneskir ríkisborgarar hafi orðið fyrir áreiti.
Að hennar sögn hafi rússneska sendiráðið í Moskvu hins vegar notið lögreglueftirlits allan sólarhringinn til að tryggja öryggi íslenskra starfsmanna.
Einfalt mál að skera úr um sannleikann
Það er ljóst að þarna eru tvær hliðar sem eru algerlega ósammála um málsatvik.
Það góða í stöðunni hlýtur þó að teljast að auðvelt sé fyrir íslenska ráðamenn að sanna mál sitt með því að birta tilkynningar á þeim brotum sem þeir segja hafa átt dsér stað og hefur Nútíminn óskað eftir þeim samskiptum og hvort þau séu til.
Fréttin verður uppfærð ef og þegar þau berast.