Sakar lögreglu um áreiti og valdníðslu – „Þetta var árás á mig“

Athafnamaðurinn Sverrir Einar Eiríksson, sem rak skemmtistaðinn B5 í miðbæ Reykjavíkur, hefur greint frá því að hann hyggist höfða skaðabótamál gegn ríkinu vegna þess sem hann kallar „fordæmalaust einelti“ og „röng afskipti lögreglu og opinberra aðila“.

Sverrir segir að endurteknar aðgerðir lögreglu, sýslumanns og Skattsins hafi leitt til þess að rekstur B5 hafi stöðvast og að hann hafi orðið fyrir verulegu fjárhagslegu og persónulegu tjóni.

Segir lögreglumann hafa haft „horn í síðu sinni“

Auglýsing

Í langri og ítarlegri færslu á Facebook lýsir Sverrir því að tiltekinn lögreglumaður, sem hann kallar „lögreglumaður nr. 2020“, hafi í 15 mánuði haft óeðlileg afskipti af eftirliti með rekstri hans.

Að sögn Sverris mætti lögreglumaðurinn á staðina sem hann rak allt að fjörutíu sinnum, stundum með 8–15 manna lögreglusveit, undir yfirskini reglulegs eftirlits.

Hann telur að um hafi verið að ræða markvissa og kerfisbundna áreitni.

„Þetta var ekki venjulegt eftirlit. Þetta var árás á mig, fjölskyldu mína og starfsfólk,“ segir Sverrir í færslunni.

Hann bætir við að lögreglumaðurinn hafi ítrekað lagt fram „falskar eða rangar ásakanir“, meðal annars um að ungmenni undir lögaldri hefðu fengið aðgang að staðnum.

„Það er staðfest af dómstólum að rekstraraðili ber ekki ábyrgð ef einstaklingar framvísa fölsuðum skilríkjum,“ segir hann og vísar þar til dóms sem fjallað var um á mbl.is 17. janúar 2024.

Fullyrðir að aðgerðir hafi verið byggðar á röngum upplýsingum

Sverrir segir að í kjölfar ágreiningsins hafi lögreglumaðurinn lagt fram efni sem leiddi til þess að sýslumaður afturkallaði rekstrarleyfi B5 tímabundið.

Hann segir að sviptingin hafi byggst á röngum eða fölsuðum upplýsingum.
„Þetta var endanlega banabiti B5,“ segir hann. „Þegar leyfið fékkst aftur hafði traust gesta og starfsfólks verið brotið niður og markaðurinn breyst.“

Samkvæmt frásögn Sverris hafði B5, undir stjórn hans, á skömmum tíma orðið einn vinsælasti skemmtistaður landsins.

„Við vorum með frábæra listamenn, húsið fullt helgi eftir helgi og yfir hundrað manns í röð fyrir utan,“ segir hann.

„En svo mætti lögreglan á staðinn margsinnis, og þegar fólk sér lögreglubíla fyrir utan skemmtistaðinn kviknar ótti og vantraust.“

Kærði lögreglumann til eftirlitsnefndar og síðar fyrir rangar sakargiftir

Í september 2023 kærði Sverrir lögreglumanninn til Nefndar um eftirlit með störfum lögreglu (NEL) vegna framgöngu hans.
Skömmu síðar kærði lögreglumaðurinn Sverri sjálfan, meðal annars fyrir meint brot sem síðar voru felld niður.

„Þetta var gert án lagastoðar, eingöngu til að niðurlægja mig“

„Þetta sýnir að hann var vanhæfur til að koma nálægt nokkru sem tengdist mér,“ segir Sverrir.

Héraðssaksóknari og síðar ríkissaksóknari felldu niður allar kærur á hendur Sverri.

Í niðurstöðu ríkissaksóknara frá 19. október 2024 kom fram að rannsókn hefði ekki leitt í ljós neitt sem benti til refsiverðrar háttsemi af hans hálfu.
Í kjölfarið kærði Sverrir lögreglumanninn sjálfan fyrir rangar sakargiftir, sem hann segir að hafi verið „þungbær persónuleg barátta fyrir réttlæti og heiðri“.

Inn­siglun og aðgerðir Skattsins

Sverrir segir að ástandið hafi náð hámarki í apríl 2024 þegar Skatturinn mætti á staðinn með lögreglu og blaðamanni í eftirdragi og innsiglaði B5, sem þá hafði verið lokaður í fimm mánuði.

„Þetta var gert án lagastoðar, eingöngu til að niðurlægja mig,“ segir hann.

Samkvæmt fréttum mbl.is staðfesti lögreglan þá að hún hefði aðstoðað Skattinn við að innsigla skemmtistaðinn.

Aðgerðin var liður í eftirliti með skattskilum fyrirtækja, en nánari ástæður voru ekki gefnar upp opinberlega.

Sama dag var annar skemmtistaður í eigu Sverris, Exit, einnig innsiglaður.

Hann segir að sú aðgerð hafi verið algerlega tilefnislaus.
„Sama kvöld var ég handtekinn grunaður um að hafa rofið innsiglið á Exit, þó það hafi í raun aldrei átt að vera sett á. Kæran var síðar felld niður og Skatturinn baðst afsökunar,“ segir Sverrir.

Fundur með lögreglustjóra batt enda á átökin

Að sögn Sverris lauk áreitni og eftirliti eftir fund sem hann átti með Höllu Bergþóru Björnsdóttur, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, í nóvember 2024.
„Ég mætti á fundinn með lögmanni mínum og lagði fram öll gögnin. Eftir það hvarf þessi lögreglumaður úr myndinni, og allt fékk loksins frið,“ segir hann.

Hann þakkar Höllu Bergþóru sérstaklega fyrir fagleg og sanngjörn vinnubrögð í kjölfar fundarins.

Hyggst leita réttar síns fyrir dómstólum

Sverrir hefur falið Sveini Andra Sveinssyni hæstaréttarlögmanni að undirbúa skaðabótamál á hendur ríkinu vegna þess tjóns sem hann telur sig hafa orðið fyrir.

„Þetta var ekki bara rekstrarlegt tjón heldur mannlegt tjón,“ segir hann. „Ég missti fyrirtæki sem tugir listamanna, barþjóna og starfsfólks höfðu lagt hjarta sitt í. Þetta verður ekki látið viðgangast án ábyrgðar.“

Hann segir mikilvægt að óháðir aðilar rannsaki málið og að tekin verði afstaða til þess hvort opinberir starfsmenn hafi farið út fyrir valdsvið sitt.

„Ég hef áhyggjur af því að utanaðkomandi hafi átt þátt í þessu. Það þarf að rannsaka það. Því aðeins þannig má endurheimta traust á lögreglu og stjórnsýslu,“ segir Sverrir.

Auglýsing

læk

Auglýsing

Fréttir

Auglýsing