Segir erlendan leigubílstjóra hafa gengið í skrokk á konu, keyrt á hana og brunað svo í burtu

Íslensk kona er sögð hafa orðið fyrir hrottalegri líkamsárás síðastliðna nótt en samkvæmt færslu sem birt var á Facebook hópnum Mæðratips segir nafnlaust vitni frá því að hún hafi vaknað við „kvalafull öskur“ þar sem íslensk kona á fertugsaldri kallaði eftir hjálp.

Vitnið segist hafa horft út um glugga og séð hávaxinn leigubílstjóra, sem hún lýsir sem manni af erlendum uppruna, grípa konuna, henda henni í jörðina og ganga svo í skrokk á henni.

Auglýsing

Eftir það hafi konan staðið upp og reynt að stöðva bílinn með því að standa fyrir framan hann, en maðurinn hafi þá bakkað, stöðvað stutt og síðan ekið harkalega á konuna, þannig að hún féll aftur í jörðina.

Hann hafi síðan keyrt burt.

Alblóðug í jörðinni

„Konan var alblóðug og með sprungu á enni og líklega með fleiri áverka sem ég sá ekki í myrkrinu. Hún var í mikilli geðshræringu,“ skrifar vitnið sem segir nágranna hafa streymt út til að hjálpa henni.

Neyðarlínan hafi þegar verið kölluð til og fleiri en eitt vitni hafi hringt.

Nútíminn fékk staðfestingu frá öðrum aðila sem einnig varð vitni að atburðinum:
„Ég get 100% staðfest þetta. Þetta var í Dugguvogi og ég vaknaði við öskrin í henni í nótt… heyrði hann öskra á hana og síðan háan dynk þegar hann keyrði á hana. Hann síðan keyrði burt á miklum hraða.“

Konan hafi legið öskrandi á miðri götunni eftir atvikið og fólk hafi hlaupið út til að veita henni aðstoð.

Kallar eftir umræðu um ofbeldi

Í færslunni á Facebook lýsir vitnið einnig vonbrigðum með að atvik sem þetta fái ekki meiri athygli í fjölmiðlum og kallar eftir opnari umræðu um ofbeldi, sérstaklega þar sem gerandi sé sagður af erlendum uppruna.

Lögreglan hefur ekki enn gefið út opinbera tilkynningu um málið þegar þetta er skrifað.

Ef einhver hefur frekari upplýsingar um málið er hægt að senda póst á Ritstjórn@nutiminn.is

Skjáskot af færslunni á Mæðratips

 

Auglýsing

læk

Auglýsing

Fréttir

Auglýsing