Siggi hakkari varpar ljósi á ólöglega starfshætti sérstaks saksóknara

Sigurður Þórðarson, betur þekktur sem „Siggi hakkari“ mætti í Spjallið með Frosta Logasyni í morgun og sagði þar frá afar óhefðbundnu samstarfi sínu við embætti sérstaks saksóknara eftir hrun.

Þar segir hann að hann hafi aðeins 17 ára gamall verið fenginn til að hakka sig inn í tölvukerfi fjárfestingabanka, fyrirtækja og slitastjórna, án dómsúrskurða og í skjóli lögreglu.

Auglýsing

Hann fullyrðir að samskiptin hafi verið skjalfest í hans eigin gögnum, en að embættið hafi síðar reynt að fela þau, meðal annars með því að funda með honum áður en formleg yfirheyrsla vegna sakamáls gegn honum færi fram.

Gagnaleki frá Milestone

Sigurður segir frá því að hann hafi fyrst orðið uppvís að lögbroti árið 2010 í tengslum við gagnaleka frá fjárfestingarfélaginu Milestone.

„Ég er, sko, kærður fyrir gagnaleka hjá Milestone… í janúar–febrúar 2010, og er svo í framhaldinu handtekinn fyrir það,“ segir hann.

„Ég held að Ólafi, sérstökum saksóknara, langi ekkert sérstaklega til að mín samskiptagögn við hans lögreglumenn verði gerð opinber“

Málið hafi aldrei verið klárað, því samkvæmt hans frásögn fékk hann aldrei formlega niðurfellingu en segist þó hafa fengið einhverskonar vilyrði fyrir því að aldrei yrði neitt úr því máli:
„Það mál er ennþá til rannsóknar. Ég hef aldrei fengið að heyra að því máli sé lokið, en mér var tjáð af embætti sérstaks saksóknara á sínum tíma að þetta mál yrði ekki að neinu.“

Óformlegt samstarf hefst – án vitundar foreldra

Sigurður segir að hann hafi enn verið undir lögaldri þegar embætti sérstaks saksóknara hafi þegið frá honum gögn sem fengin hefðu verið með ólögmætum hætti:
„Á þessum tíma þegar ég labba inn til sérstaks, þá er ég 17 ára, eða hvað. Ég hlýt að hafa verið 17, eða ég var þarna, 16–17.“

Þrátt fyrir aldur hans var ekki haft samband við foreldra hans:
„Þeir í raun samkvæmt lögum þurftu að hringja í foreldra mína og láta þau vita hvað væri í gangi.  En það var ekki gert.  Eftir um klukkutíma viðræður, þá geri ég bara kröfu að það verði ekki hringt í foreldra mína. Og það var ekki gert.“

Afritaði tölvukerfi banka og fyrirtækja – „afhenti gögn á Vitabar“

Í kjölfarið fór Sigurður að vinna reglulega með embættinu og lýsir hann því að hann hafi að eigin sögn verið beðinn um að brjótast inn í tölvukerfi fyrirtækja, með vitund lögreglu:
„Þau fengu mig, þá 17 ára gamlan, til að afrita tölvukerfi fjárfestingabanka, til að afrita tölvukerfi bara venjulegra fyrirtækja og slitastjórna og þar fram eftir götunum.“

„Ég flakkaði á milli og afritaði tölvukerfi og gagnakerfi og afhenti þau oftast á Vitabar þegar ég var búinn í skólanum.“

Frosti spyr hver hafi tekið á móti gögnunum:
„Starfsmaður sérstaks saksóknara þá, eða?“

„Já, lögreglumaður Guðmundur Haukur Gunnarsson,“ svarar Sigurður.

Tölva haldlögð ári síðar – geymdi viðkvæm samskipti

Árið 2011 eða 2012 var tölva Sigurðar haldlögð af lögreglumönnum úr öðru embætti sem voru að rannsaka Sigga fyrir ætluð brot gegn Milestone, að eigin sögn án þess að þeir sem áttu í samstarfi við hann væru sáttir við það:

„Hún geymdi samskipti mín við Jón Óttar, við Guðmund Hauk, við Grím sjálfan og í raun bara öll gögn sem ég var að vinna með á þessum tíma.“

Sigurður telur embættið hafa viljað koma í veg fyrir að þessi gögn yrðu á vitorði annarra lögregluembætta:
„Ég held að Ólafi, sérstökum saksóknara, langi ekki sérstaklega til að mín samskipti og gögn við hans lögreglumenn verði gerð opinber.“

Upptaka af Grím Grímssyni: Yfirheyrsla utan formlegra ramma

Sigurður segir frá fundi með Grími Grímssyni, yfirmanni hjá lögreglunni, þar sem rætt var hvernig yfirheyrslum yrði háttað án þess að samband þeirra kæmist upp.

Grímur segir á upptökunni:
„Yfirheyrslur, þær hafa nú svo sem ekki svona fundi fyrir framan venjulega […] Þetta er ekki mjög venjulegt […] við ættum að gera þetta eins vel og hægt er fyrir alla aðila.“

„Ef hann vissi það ekki, þá er hann vanhæfur. Ef hann vissi það, þá er hann samt vanhæfur“

Lögmaður Sigurðar kemur einnig við sögu á upptökunum og ýjar hann að því að Sigurður þurfi tryggingu fyrir því að „enda ekki í steininum klukkutíma síðar“ ef illa færi.

Sigurður segir einnig:
„Grímur segir að hann sé ekki bara að treysta mér heldur að ég þurfi að treysta honum líka.“

„Ég get geymt tölvuna hjá hinu embættinu“ – Grímur um skjalfest gögn

Í upptöku segir Grímur Grímsson:
„Ég tel að ég geti tekið tölvuna og farið með hana og haft hana í minni vörslu, hjá hinu embættinu […] hvort ég geti það alveg um aldur og ævi, það er annað mál.“

Þá lýsir hann áhyggjum af því að hann „sé að ákveða að rannsóknin sé ekki hér og fari með tölvuna.“

Samskipti við slitastjórnir – og hvort embættið hafi framselt gögn

Frosti bendir á að tveir lögreglumenn hafi síðar verið kærðir fyrir að vinna að einkamálum fyrir slitastjórnir á sama tíma og þeir störfuðu fyrir sérstakan saksóknara og veltir hann upp þeirri kenningu að sú kæra hafi verið yfirvarp af hálfu sérstaks til þess að skera embættið úr snörunni ef svo má segja.

Sigurður segist telja það líklegt:
„Já, ég tel það bara mjög líklega atburðarás. Ég vissi ekkert af því, til dæmis, að þeir væru að vinna í þessum einkamálum fyrr en ég sé að þeir eru reknir í fjölmiðlum.“

Frosti spyr hvort hann telji líklegt að sérstakur saksóknari hafi leyft slitastjórnum og einkafyrirtækjum að hafa aðgang að gögnum um hugsanlega sakborninga.

„Ef hann vissi það ekki, þá er hann vanhæfur. Ef hann vissi það, þá er hann samt vanhæfur,“ svarar Sigurður.

Aðspurður hvort hann telji að sérstakur saksóknari hafi haft vitneskju um að gögn væru notuð á þennan hátt segir Sigurður einfaldlega:

„Hann vissi það 100%.“

Sigurður fullyrðir þannig að sérstakur saksóknari, Ólafur Þór Hauksson, hafi vitað af öllu:
„Ég veit það líka bara eftir að ég var handtekinn […] það var haft samband við hann þegar ég var handtekinn fyrir lekamálin til að sjá hvort að það yrði eitthvað úr þeim málum og hann gaf fullvissu um að svo yrði ekki.“

Afturvirkir samningar

Í lokin bendir Sigurður á að þegar lögreglumennirnir voru reknir, hafi embættið reynt að hylja yfir samstarfið með afturvirkum samningi sem átti þá að sýna að sérstakur hefði ekki verið samþykkur slíku samstarfi:
„Það að Ólafur skyldi fara fram sem sérstakur saksóknari og backdate-a samning við þá, það er náttúrulega bara vitleysa út af fyrir sig.“

„Þá erum við að tala um embættið sem á að rannsaka mörg alvarlegustu mál sem hafa komið upp á okkar lífstíma og hann er farinn að gera það sem að fólkið sem hann á að rannsaka var að gera.“

„Þetta hefur aldrei verið neitt leyndarmál. Þetta er ekki eitthvað sem ég hef geymt á samviskunni í 10–15 ár,“ segir Sigurður.

Óskar eftir því að fá að bera vitni

Sigurður hefur einnig óskað eftir því að fá að koma fram fyrir Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis og hefur sent eftirfarandi bréf á alla meðlimi nefndarinnar, að einum undanskildum, Grími Grímssyni þingmanni Viðreisnar. Hann segist telja vitnisburð sinn mikilvægan þar sem hann geti varpað ljósi á starfshætti bæði fyrrverandi og núverandi starfsmanna lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, núverandi starfsmanna bæði ríkis- og héraðssaksóknara sem og starfsmanna þáverandi embættis sérstaks saksóknara.

Hægt er að sjá brot úr viðtalinu hér fyrir neðan en viljirðu sjá þáttinn í heild sinni geturðu tryggt þér áskrift að Brotkast.is hérna.

Auglýsing

læk

Auglýsing

Fréttir

Auglýsing