Snorri Másson: „Enginn sagði að það yrði gaman að standa vörð um fullveldi þjóðarinnar“

Snorri Másson, þingmaður Miðflokksins, gagnrýnir harðlega þá afstöðu að bókun 35 sé leiðinlegt eða ómerkilegt mál.

Máli sínu til stuðnings birtir hann brot af ummælum Ólafar Skaftadóttur úr hlaðvarpsþættinum Komið gott.

Auglýsing

Í færslu sem Snorri birti á samfélagsmiðlum segir hann bókunina eitt allra athyglisverðasta og afdrifaríkasta þingmál sem Alþingi hafi fengist við í langan tíma.

„Í grunninn þá felur þessi lagabreyting það í sér að lög sem koma hingað frá Evrópusambandinu, af því að við erum í EES samstarfinu, að þau hafi forgang yfir íslensk lög ef þetta stangast á,“ skrifar Snorri.

Hann bendir á að þetta hafi djúpstæð áhrif á vald Alþingis til að setja lög, þar sem dómstólar þurfi í framtíðinni að meta forgang Evrópulaga fram yfir nýsamþykkt íslensk lög ef þau stangast á.

Telur bókun 35 stjórnarskrárbrot

Í færslunni vísar Snorri til fjölmargra sérfræðinga sem deila áhyggjum hans af málinu og telja bókunina brjóta í bága við stjórnarskrá lýðveldisins.

Þar nefnir hann sérstaklega Markús Sigurbjörnsson, fyrrverandi forseta Hæstaréttar, Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómara, og Eyjólf Ármannsson innviðaráðherra, sem Snorri segir hafa áður lýst þeirri skoðun að bókun 35 standist ekki stjórnarskrá.

Eyjólfur: Bókun 35 gengur þvert á stjórnarskrá Íslands

„En virðist vera tilbúinn að gera þessa litlu málamiðlun til þess að geta fengið sæti sem ráðherra í ríkisstjórn,“ bætir Snorri við um Eyjólf.

Ádeila á ríkisstjórnina og Evrópusambandssinna

Þá sakar Snorri suma ráðherra í ríkisstjórninni um að beita bókun 35 sem „sjálfsögðu og eðlilegu skrefi“ í átt að beinni aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Hann telur að markmiðið sé að færa lagasetningarvald í auknum mæli til Brussel og veikja íslenska löggjafavaldið.

„Það sagði enginn að það yrði gaman að standa vörð um fullveldi þjóðarinnar,“ segir hann í lok færslunnar á kaldhæðnislegan hátt, með tilvísun í orð Ólafar Skaftadóttur um að málið sé leiðinlegt.

 

Auglýsing

læk

Auglýsing

Fréttir

Auglýsing