Sverrir hefur að undanförnu vakið mikla athygli á samfélagsmiðlinum X, þar sem hann talar tæpitungulaust um ýmis samfélagsmál.
Í nýjasta þætti Fullorðins á Brotkast ræðir Sverrir Helgason opinskátt við Kiddu Svarfdal um samfélagsmál, COVID faraldurinn og áhrif femínisma og sparaði ekki stóru orðin.
Sverrir segir að heimsfaraldurinn hafi mótað hann pólitískt og leitt til þess að hann hafi misst traust á yfirvöldum.
„Ég var alveg brjálaður á COVID tímanum,“ segir hann.
„Það var tími sem mótaði mig mjög mikið pólitískt. Ég fékk algjört vantraust á yfirvöldum, þeim var skítsama.“
Hann heldur því fram að íslenskir fjölmiðlar hafi keyrt fyrirfram ákveðna afstöðu og ekki veitt stjórnvöldum aðhald.
„Það var einhver ‘narratíva’ í gangi sem var búin að vera ákveðin fyrirfram. Hún átti bara að keyra áfram sama hvað kæmi upp, og enginn mátti efast,“ segir hann.
Krefst uppgjörs vegna innilokana
Sverrir segir að samfélagið hafi aldrei rætt afleiðingarnar sem fylgdu þessari stefnu af hreinskilni.
„Það var fólk sem var lokað inni í marga mánuði, jafnvel ár. Það eru félagslegar afleiðingar sem enginn hefur viljað ræða,“ segir hann og bætir við: „Fólk dó vegna þess, ungt fólk, fíklar sem féllu aftur, eldri borgarar sem fengu aldrei að hitta sína nánustu.“
Hann telur að fjölmiðlar hafi brugðist hlutverki sínu og lýsir þeim á afar óvæginn hátt.
„Enginn hefur pikkað þetta upp, ekki Vísir, ekki MBL, ekki RÚV, ekki DV. Þetta er allt aktívistar,“ segir hann og heldur áfram: „Allir fjölmiðlamenn á Íslandi, þetta eru allt aktívista hórur. Ef þú spyrð ekki þessara spurninga, þá ertu partur af vandanum.“
Kidda spyr þá: „Hversu margir dóu af völdum einangrunar, miðað við COVID? Það væri áhugavert að vita það.“
„Já,“ svarar Sverrir, „en enginn vill ræða þetta, af því allir eru hræddir. Þetta var hræðilegt.“
Bólusetningar og ábyrgð stjórnvalda
Þegar samtalið færist að bólusetningum segir Sverrir að hann hafi sjálfur látið bólusetja sig, þó hann hafi haft efasemdir.
„Ég var að vinna á sambýli og hugsaði: þetta er kannski ekki gott fyrir mig, en ég geri þetta fyrir fólkið í kringum mig.“
Kidda svarar að bólusetningin hafi ekki minnkað líkur á smiti heldur aðeins mildað einkenni.
Hann viðurkennir að hann hafi sjálfur smitað foreldra sína án þess að vita það.
„Þú varst samt líklegri til að smita þannig, ekki satt?“ spyr Sverrir og hlær.
Að lokum segir hann að umræðan snúist ekki um samsæriskenningar heldur ábyrgð þeirra sem tóku ákvarðanir.
„Þetta snýst ekki um samsæri,“ segir hann. „Þetta snýst um að fólk sem gerði augljós mistök sýni smá auðmýkt og segi: ‘Við gerðum mistök. Fyrirgefðu.’ En enginn gerir það. Þeir sitja enn á Alþingi, tala um mannúð og réttlæti, en hlusta ekki á fólk.“
„Femínistar eru ekki tilbúnir að skoða sjálfa sig“
Í öðrum hluta þáttarins snýst umræðan að kynjajafnrétti og stöðu ungra karla.
Sverrir segir að hann sé í miklum samskiptum við unga stráka sem séu „alveg komnir upp í kok“ af stöðugri gagnrýni.
„Þeir eru búnir að fá nóg af því að einhver kennari, yfirleitt kona, sé að segja þeim hvað sé að þeim,“ segir hann.
„Þeir sitja í tíma þar sem einhver miðaldra kona talar um eitraða karlmennsku og segir þeim að þeir séu vondir fyrir að vera hvítir karlmenn.“
Ungir karlar upplifi fyrirlitningu
Sverrir segir að þessi orðræða hafi áhrif á marga unga karla sem upplifi fyrirlitningu og sjálfa sig óvelkomna í samfélaginu.
„Þetta fólk gerir sér ekki grein fyrir því hversu illa þetta fer í þá,“ segir hann.
„Svo skilja þau ekkert af hverju hatrið í samfélaginu er að aukast. Það er af því að þau hlusta ekki. Þau eru svo hrokafull að þau sjá ekki eigin þátt.“
Kidda svarar: „Þú talar stundum eins og femínistar séu vondi kallinn.“
Sverrir svarar: „Ekki vondi kallinn, en hugmyndafræðin sjálf er vond. Hún ber af sér vondan ávöxt. Það að trúa á eitthvað feðraveldi sem kúgar konur, það er bara samsæriskenning. Kynin eru ólík, og það er eðlilegt. En femínistar líta á þann mun sem kúgun.“
Deilur um sögu og jafnrétti
Kidda mótmælir og segir: „Konur hafa verið kúgaðar, það er bara staðreynd.“
Sverrir spyr á móti: „Af hverjum? Hvenær? Og með hvaða tilgangi?“
Þegar Kidda nefnir að konur hafi ekki haft kosningarétt og verið bundnar heimilum segir Sverrir að sagan sé flóknari.
„Ef við skoðum Íslandssöguna, þá voru kynin að berjast saman,“ segir hann.
„Karlinn var úti á áttæringi að róa í kulda og stormi, konan hélt heimilinu saman. Þetta voru ekki kúgarar og kúgaðir, þetta voru samherjar í baráttunni við náttúruna.“
Hann segir söguna um „vonda karlinn og kúguðu konuna“ ekki passa við íslenskan veruleika.
„Mér finnst það gera bæði konunum og körlunum á þessum tíma rangt til,“ segir hann. „Þetta er sögulína sem við höfum fengið lánaða úr öðrum löndum.“
Kallar á frelsi fremur en útkomujöfnuð
Þegar Kidda nefnir launamun kynjanna svarar Sverrir að hann hafi einfaldar skýringar.
„Karlar vinna meira, eru tilbúnir að eyða meiri tíma frá fjölskyldunni, og sækjast eftir störfum þar sem er meiri peningur. Konur velja frekar störf þar sem unnið er með fólki. Það er ekkert rangt við það, það er bara val.“
Að lokum dregur hann saman sína sýn á jafnrétti:
„Fullkomið jafnrétti er ekki að niðurstaðan sé alltaf 50/50,“ segir hann.
„Það er að allir hafi frelsi til að velja það líf sem þeir vilja, hvort sem það er heimavinnandi móðir eða verkfræðingur. Kynin eru ólík, og það er í lagi.“
Hægt er að sjá brot úr viðtalinu hér fyrir neðan, en ef þú vilt sjá allan þáttinn geturðu tryggt þér áskrift að Brotkast.is hérna.