Í nýlegum þætti Hluthafaspjallsins gagnrýnir Þórður Pálsson, forstöðumaður fjárfestinga hjá Sjóvá, afstöðu íslenskra stjórnmálamanna gagnvart atvinnulífinu.
Hann segir Ísland skera sig algjörlega frá hinum Norðurlöndunum hvað þetta varðar, þar sem stjórnvöld og jafnvel þjóðhöfðingjar í þeim ríkjum geri mikið til að styðja við fyrirtæki sín og atvinnulífið í heild.
„Þetta er bara algjör staðreynd,“ sagði Þórður í samtali við þáttastjórnandann Sigurð Már Jónsson. „Skandinavísku utanríkisþjónusturnar eru miklu virkari í því að styðja við eigið atvinnulíf.“
Hann benti sérstaklega á að í Danmörku hafi leyniþjónustan gripið inn í til að tryggja að Carlsberg fengi sanngjarnt verð fyrir verksmiðjur sínar í Rússlandi.
„Það er dæmi um hvernig ríkisapparat starfar með atvinnulífinu í stað þess að vinna gegn því.“
Hrunið og afleiðingar þess
Þórður telur að þessi neikvæða afstaða hérlendis megi að hluta rekja til bankahrunsins 2008 og þess brot á trausti sem fylgdi í kjölfarið.
Hann segir traust á markaðslausnum og atvinnulífi almennt hafa hrunið og að það hafi ekki enn náð sér.
Í kjölfarið hafi ríkishyggja tekið völdin og ríkisvaldið orðið lausnin sem meirihluti virðist aðhyllast á flestum sviðum.
„Við fórum úr því að fólk trúði á markaðinn yfir í að ríkisvaldið eigi að gera allt, úthluta gæðum og stýra öllu.“
Veiðigjaldafrumvarpið
Þórður gagnrýnir einnig hve mikla athygli veiðigjaldafrumvarpið fær í pólitískri umræðu.
„Ég verð að segja að það kom mér á óvart hvað Viðreisn hefur keyrt mikið á þessu máli. Þegar ég tala við fólk úti í samfélaginu er þetta einfaldlega ekki það sem það er að ræða.“
Hann segir að almennir borgarar virðast fyrst og fremst hafa áhuga á skólamálum og innflytjendamálum, en að skrímslavæðing sjávarútvegsins, sérstaklega í tengslum við Samherja, hafi skapað ranga mynd á sjávarútveg landsins í hugum margra.
„Það er búið að skrímslavæða sjávarútveginn og leiðinlegt að sjá Kristrúnu Frostadóttur taka undir það í Kastljósi. Það virðist vera helsta áhugamál stórs hluta blaðamannastéttarinnar að koma Þorsteini Má Baldvinssyni bak við lás og slá.“
Hægt er að sjá brot úr viðtalinu hér fyrir neðan en ef þú vilt sjá allan þáttinn geturðu tryggt þér áskrift að Brotkast.is hérna.