Donald Trump Bandaríkjaforseti undirritaði í dag nýja forsetatilskipun sem miðar að því að lækka lyfjaverð í Bandaríkjunum með því að krefjast svokallaðrar „most favored nation“ verðlagningar.
Með því skuldbindur ríkisstjórnin sig til að tryggja að Bandaríkjamenn greiði ekki hærra verð fyrir lyf en borgað er í öðrum þróuðum ríkjum.
Trump hafði áður skrifað undir aðra tilskipun um lækkun lyfjaverðs fyrir ákveðna hópa og sjúkrahús eins og Nútíminn sagði frá.
Trump undirritar tilskipun til að lækka lyfjaverð í Bandaríkjunum fyrir þá tekjulægstu
„Við munum ekki lengur þola ofurhagnað og verðsvindl frá lyfjarisunum (Big Pharma),“ sagði Trump í Hvíta húsinu. „Sum lyfjaverð munu lækka um allt að 50 til 90 prósent næstum samstundis.“
Trump sagði að Bandaríkin, sem hýsa aðeins 4% jarðarbúa, væru samt það land þar sem lyfjafyrirtæki hagnist mest.
„Þetta er ekki eðlilegt ástand,“ bætti hann við.
Kennedy og Oz í broddi fylkingar
Við hlið forsetans stóð heilbrigðisráðherra Robert F. Kennedy Jr., sem lýsti yfir mikilli ánægju með skrefið: „Ég trúði aldrei að þetta myndi gerast á minni ævi.“
Dr. Mehmet Oz, nýr yfirmaður Medicare og Medicaid þjónustunnar, var einnig viðstaddur og tók formlega við embætti við sama tækifæri.
Högg á milliliði og alþjóðaverðlagningu
Samkvæmt yfirlýsingu frá Hvíta húsinu felur tilskipunin í sér að bandarískir neytendur fái að kaupa lyf beint frá framleiðendum á „most-favored-nation“ verði, án milliliða sem græða á tá og fingri eins og nú er gert.
Ef lyfjafyrirtæki neita að fara að skilmálunum, mun ráðuneytið leggja fram reglur sem skylda þau til þess og grípa til annarra harðra aðgerða til að lækka lyfjaverð.
Gagnrýni frá iðnaðinum
Lyfjaframleiðendafélagið PhRMA gagnrýnir tilskipunina harðlega.
„Þetta er vondur samningur fyrir bandaríska sjúklinga,“ sagði Stephen Ubl, forstjóri samtakanna.
Hann sagði að fyrirkomulagið myndi draga úr fjárfestingum og að þetta myndi setja Bandaríkin skrefi á eftir Kína í þróun nýrra lyfja.
Ubl benti einnig á að stór hluti lyfjakostnaðar í Bandaríkjunum lendi hjá tryggingafélögum, sjúkrahúsum og milliliðum.
„Að veita sjúklingum meiri hluta þessa fjár mun lækka lyfjaverð og minnka bilið milli Bandaríkjanna og Evrópu,“ sagði hann.
Trump sagðist í upphafi dags hafa fengið nýja tölfræði sem sýndi að lyfjaverð myndi lækka um 59% með tilskipuninni.