Tveir slökkviliðsmenn voru skotnir til bana á sunnudag í Idaho þegar skotárás var gerð á viðbragðsaðila sem voru að slökkva sinuelda á Canfield Mountain.
Nokkrir aðrir slösuðust, en enn er óljóst hversu margir.
Yfirvöld segja að skotum hafi verið hleypt af úr fleiri en einni átt og að árásarmaður hafi notað hálfsjálfvirka riffla.
„Við vitum ekki hvort það eru einn, tveir, þrír eða fjórir árásarmenn,“ sagði Robert Norris, lögreglustjóri. „Við munum stöðva þessa menn.“
Eldur hugsanlega kveiktur viljandi
Slökkviliðsmaður sem var við störf á vettvangi sagði eldurinn gæti hafa verið kveiktur viljandi til að lokka viðbragðsaðila inn á svæðið.
Skotárásin hófst þegar lögregla og slökkviliðsmenn komu á vettvang.
Fjöldi göngumanna og íbúa var fastur í fjallinu vegna árásarinnar og aðgerðir lögreglu stóðu yfir fram eftir degi.
Lík með skotvopn fannst á fjallinu
Síðar um kvöldið greindi skrifstofa lögreglustjóra frá því að lík karlmanns hafi fundist á Canfield Mountain með skotvopn við hlið sér.
Ekki hefur verið gefið út hvort maðurinn sé árásarmaðurinn, einn af árásarmönnunum eða tengist málinu með öðrum hætti.
Íbúar beðnir um að halda sig fjarri
Á meðan skothríðin stóð yfir var gefin út skipun um að íbúar í nágrenni Canfield Mountain skyldu halda sig innandyra.
Nú hefur útgöngubanninu verið aflétt en aðstæður eru áfram taldar hættulegar þar sem eldurinn logar enn.
„Íbúar eru hvattir til að vera viðbúnir ef frekari aðgerða verður þörf,“ segir í tilkynningu frá lögreglu.
FBI hefur sent sveitir til aðstoðar við lögreglu á vettvangi.
Rannsókn málsins er í fullum gangi og óvíst er enn hvort fleiri séu viðriðnir árásina.
Yfirvöld búast við að aðgerðir geti staðið yfir í nokkra daga.