Spænska lögreglan skaut 18 ára mann til bana á Gran Canaria flugvellinum á laugardag eftir að hann ógnaði ferðamönnum með stórum hníf og reyndi að ræna leigubílstjóra.
Atvikið átti sér stað á annasömu svæði flugvallarins þar sem fjölmargir ferðamenn voru á ferð.
Myndbandsupptökur sýna manninn hlaupa í átt að lögreglumanni af fimm sem reyndu að stöðva hann, á meðan fólk hljóp í felur.
Lögreglan skaut manninn fimm sinnum og var hann úrskurðaður látinn á vettvangi.
Samkvæmt spænskum fjölmiðlum hafði maðurinn reynt að komast um borð í flugvél til Gambíu, en var hafnað þar sem flugmiði hans var ekki gildur fyrr en síðar í vikunni.
Hann reyndi þá að troða sér í gegnum öryggiseftirlit með hníf í bakpoka, sem olli því að skanni fór í gang.
Talsmaður lögreglusambandsins Jupol, Ibon Dominguez, sagði viðbrögð lögreglunnar hafa verið „í samræmi við aðstæðurnar og réttlætanleg“, þar sem maðurinn hafi ógnað lífi lögreglumanna.
Dómstóll í Telde rannsakar nú atburðarásina og safnar myndbandsupptökum úr öryggismyndavélum innan og utan flugstöðvarinnar.
Í yfirlýsingu segir meðal annars að maðurinn hafi verið í ójafnvægi, vopnaður stórum hníf og skapað alvarlega ógn við öryggi fjölda fólks á svæðinu.