Vakningin gegn woke-veirunni er ekki bakslag heldur viðsnúningur til heilbrigðari umræðu

Ragnar Rögnvaldsson skrifar:

Það hefur orðið töluverð breyting á íslenskri umræðu síðustu misseri. Þar sem áður ríkti nánast skilyrðislaus undirgefni gagnvart því sem kallað hefur verið „woke“, og margir kalla að vera pólitískt-rétt-hugsandi, hefur nú vaxið upp andóf – ekki gegn mannréttindum og persónufrelsi, heldur gegn hugmynda- og aðferðafræðum sem oft byggja á útilokunum, innantómum hugtökum og einhliða sýn á samfélagið. Umræðan hefur í sumum tilvikum orðið svo ofursprengd af réttrúnaði að fólk forðast að segja skoðun sína af ótta við að verða úthrópað, jafnvel hótað, sett í hólf eða meinað aðgengi að umræðunni.

Woke-hugtakið á sér uppruna í réttindabaráttu svartra í Bandaríkjunum og tengdist í upphafi því að vera vakandi fyrir óréttlæti. En eins og svo oft gerist, þá umbreytast góðar hugmyndir þegar þær fara úr hófi fram og verða eign fámenns en háværs hóps. Í dag hefur orðið fengið allt aðra merkingu, og lýsir miklu frekar ofmati á hugmyndafræði fram yfir veruleika, þar sem pólitískur réttrúnaður er notaður sem vopn gegn þeim sem spyrja, efast eða einfaldlega sammælast ekki í einu og öllu.

Auglýsing

Að þessi bylgja sé nú að fjara út í íslenskri umræðu er ekki áfall fyrir mannréttindi – þvert á móti. Samfélagsmál verða að byggja á raunverulegum samræðum í krafti málfrelsis, skoðanafrelsis, virðingu, heiðarleika og rökstuðningi. Ekki hræðslu, og ekki þöggun.

„Rangar“ skoðanir útilokaðar

Við höfum séð þetta birtast á margvíslegan hátt, t.d. Þegar fyrirlestri breska blaðamannsins Douglas Murray í Hörpu árið 2019 var mótmælt með þeim rökum að hann væri „hættulegur“ – þá sást skýrt hvernig sumir vildu frekar útiloka skoðanir sem ögraði þeirra pólitískt-rétt-hugsandi hugmyndafræði, heldur en ræða málin opinberlega. Svipað gerðist þegar breski rithöfundurinn J.K. Rowling birti færslu á Twitter um skoðun hennar á tungutaki líkt og „fólk sem fer á blæðingar“ frekar en  „kvenna“. Í stað þess að takast á við málið með virðingu og rökræðu, fékk jós rétttrúnaðarliðið yfir hana bylgju haturs með hótanum um margskonar líkamlegt ofbeldi. Þá voru tilraunir gerðar til að afskrifa hana og hennar verk þó svo það hafi ekki tekist fyllilega.

Við sjáum einnig dæmi úr íslensku samfélagi. Páll Vilhjálmsson, sem var kennari í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ, varð fyrir harðri gagnrýni og útskúfun vegna skrifa sinna og skoðana, að því marki að hann varð síðar að láta af kennslu. Í stað þess að ræða sjónarmið hans opinberlega og af málefnalegri sanngirni, snérist umræðan um hvort hann ætti yfir höfuð að hafa aðgang að skólastofunni. Slík nálgun er ekki til marks um frjálsa og heilbrigða umræðu, heldur bendir hún til samfélags þar sem persónulegar skoðanir eru bældar niður.

Afturhvarf til heilbrigðrar skynsemi

Það að fleiri Íslendingar séu farnir að þora að tjá sig gegn þessari hugmyndafræði er merki um að við séum að vaxa sem samfélag. Umræðan er að færast aftur á þann stað þar sem hægt er að vera ósammála án þess að vera útskúfaður – þar sem fólk er ekki að tippla á tánum af ótta við að segja rangt orð eða hafa „vitlausa“ skoðun.

Auðvitað eigum við að halda áfram að standa með minnihlutahópum og berjast gegn fordómum. En við verðum að geta greint á milli réttindabaráttu og óttastýrðrar þöggunar, því réttindabarátta nær einungis árangri þegar hún byggir á trausti, virðingu og rökum. Ekki þegar hún er knúin áfram af félagslegum þrýstingi og tískubylgjum.

Sem betur fer erum að vakna, frá draumsýn sem í síauknum mæli var farin að gera meiri skaða en gagn.

Höfundur er áhugamaður um samfélagsmál.

Auglýsing

læk

Auglýsing

Fréttir

Auglýsing