Ingunn Björnsdóttir, dósent við lyfjafræðideild Háskólans í Osló, mætti í Spjallið með Frosta Logasyni og sagði þar frá hrottalegri árás sem hún varð fyrir af hendi nemanda síns.
Nemandinn hafði fallið á prófi og réðst skyndilega til atlögu gegn henni inni í skólanum í þeim tilgangi að „koma henni frá“.
Árásin átti sér stað inni á skrifstofu í háskólanum þar sem Ingunn stóð frammi fyrir dauðanum en hún var skorin á háls og stungin alls 21 sinni, meðal annars í kvið, háls og bak.
Ingunn sagði frá því í viðtalinu að hún hefði strax fundið að hún gæti dáið af sárunum og talið að hún væri að upplifa síðustu andartök lífs síns.
„Ég er ekki reið við hann. En ég er hrædd við hann“
„Fyrsta hugsunin var bara: ‘What?’ Og svo kemur: ‘Já, ég gæti nú dáið af þessu,’“ sagði Ingunn í viðtalinu.
„Ég var eiginlega viss um að ég myndi ekki hafa þetta af,“ bætti hún við.
Tók ekki ábyrgð – sýndi enga iðrun
Nemandinn sýndi enga iðrun fyrir dómi og samkvæmt dómsskjölum hafði hann rætt það að þegar Ingunn upplýsti hann um að hún yrði áfram við störf næsta vetur, hafi hann ákveðið að „koma henni frá“, en ekki með með því að drepa hana, samkvæmt hans eigin orðum, heldur til að geta tekið prófið aftur án hennar.
Réttargeðlæknir spurði hann síðar: „Heldurðu að þú hefðir fengið að klára kúrsinn eftir að hafa ráðist á kennarann þinn með hnífi?“ og svaraði hann: „Það var kannski ekki mjög rökrétt hugsað.“
„Hann gat ekki svarað þegar hann var spurður hvort það sem hann gerði mér væri verra en það sem ég gerði honum,“ sagði Ingunn. „Það segir mikið um hvar hann er staddur.“
Dæmdur til fangelsisvistar með möguleika á ótímabundinni vistun
Nemandinn var dæmdur í sjö og hálfs árs fangelsi en með sérstöku ákvæði sem gerir yfirvöldum í Noregi kleift að halda honum inni ótímabundið ef hann telst áfram hættulegur.
Ingunn segist ekki ætla sér aftur til Osló ef honum yrði sleppt.
Hún telur hættuna ekki liðna hjá.
„Ég er ekki reið við hann. En ég er hrædd við hann,“ sagði hún.
Aðspurð hvers vegna hún væri ekki reið við hann sagði Ingunn:
„Það sem hann hugsaði var svo fjarstæðukennt, eins og hann hefði ásakað mig um að stela fíli úr dýragarðinum.“
Hægt er að sjá brot úr viðtalinu hér fyrir neðan en þátturinn er aðgengilegur í heild sinni á Brotkast.is.