„Að gefnu tilefni viljum við minna á hver tilgangur #metoo-byltingarinnar er“

Hópur kvenna sem kýs að kalla sig #metoo-konur, hafa sent frá sér yfirlýsingu sem á að minna á hver tilgangur #metoo byltingarinnar er.

Yfirlýsinguna segja þær að gefnu tilefni og má geta sér til um að tilefnið sé umræða hefur hefur átt sér stað í samfélaginu vegna aðalmeðferðar í máli Atla Rafns Sigurðssonar gegn Borg­ar­leik­hús­inu og Krist­ínu Ey­steins­dótt­ur leik­hús­stjóra, sem fram fór fyrir helgi.

Konurnar sem skrifa undir yfirlýsinguna eru 29 talsins og segjast lýs­a yfir stuðningi við þá hug­rökku brotaþola sem rofið hafa þögn­ina og þá at­vinnu­rek­end­ur sem standa við bakið á þeim. Þær skora einnig á fjölmiðlafólk að vanda umfjöllun um þessi mál.

Hér má sjá yfirlýsinguna í heild sinni:

„Að gefnu til­efni vilj­um við minna á hver til­gang­ur #met­oo-bylt­ing­ar­inn­ar er. Til­gang­ur­inn er að kon­ur finni kraft­inn í fjöld­an­um og geti sam­ein­ast um að af­hjúpa aldagam­alt mis­rétti sem blas­ir alltof víða við, mis­rétti sem er viðhaldið með úr­elt­um viðhorf­um, meðvirkni með þeim sem mis­nota vald sitt, þolenda­smán­un og þögg­un. Öldum sam­an hafa kon­ur þurft að bera harm sinn í hljóði ef þeim er mis­munað, þær beitt­ar of­beldi eða áreitt­ar á vinnustað, al­manna­færi eða jafn­vel á heim­ili sínu. Þær hafa verið látn­ar axla ábyrgðina og bera skömm­ina, með þeim skila­boðum að hefðu þær nú bara hegðað sér öðru­vísi/​klætt sig á ann­an hátt/​dregið skýr­ari mörk/​gætt sín bet­ur, þá hefðu þær af­stýrt gjörðum ger­and­ans. Þessi hugs­un­ar­hátt­ur leys­ir gerend­ur und­an ábyrgð og þagg­ar niður í þolend­um, en hvort tveggja auðveld­ar of­beld­is­mönn­um að kom­ast óáreitt­ir upp með iðju sína.

Þeir brotaþolar sem stigið hafa fram og sagt frá hafa í mörg­um til­vik­um þurft að gjalda fyr­ir það dýru verði, með at­vinnum­issi, ærum­issi og hafa jafn­vel hrak­ist úr heima­byggð sinni. Með til­komu #met­oo-bylt­ing­ar­inn­ar gátu kon­ur myndað breiðfylk­ingu og vakið at­hygli á þessu óá­sætt­an­lega ástandi í krafti fjöld­ans. Þær þurftu ekki leng­ur að standa ein­ar og ber­skjaldaðar með frá­sagn­ir sín­ar og mæta for­dæm­ingu og skömm, held­ur gátu þær valið um að segja frá reynslu sinni nafn­laust eða láta nægja að nota fimm stafa myllu­merki, sem sagði allt sem segja þurfti.

Með þátt­töku sinni í #met­oo geng­ust þolend­ur ekki í ábyrgð fyr­ir mann­orð gerenda sinna. Þær bera ekki ábyrgð á ákvörðunum þeirra sem kusu að áreita þær eða beita þær of­beldi, né til­finn­ing­um þeirra eða starfs­frama. Brotaþolum ber eng­in skylda til að fara fyr­ir fjöl­miðla eða dóm­stóla, kjósi þeir frem­ur að leita eins­lega til trúnaðar­manns eða yf­ir­manns, séu þær áreitt­ar af sam­starfs­manni. Þær eiga rétt á ör­uggu starfs­um­hverfi, þar sem mann­rétt­indi þeirra eru virt og þær metn­ar að verðleik­um. Að sama skapi þurfa at­vinnu­rek­end­ur að hafa svig­rúm til að bregðast við ásök­un­um um of­beldi eða áreitni án þess að fyr­ir liggi dóm­ur. Fátt myndi ávinn­ast ef sak­fell­ing­ar­dóm­ur væri eina for­senda þess að segja upp starfs­manni sem brýt­ur gegn sam­starfs­fólki sínu, enda er rétt­ar­kerfið önn­ur brota­löm þegar of­beldi gegn kon­um er ann­ars veg­ar. Auk þess gef­ur auga leið að sak­fell­ing get­ur ein­ung­is átt sér stað í kjöl­far brots og gagn­ast því ekk­ert við að fyr­ir­byggja of­beldi.

Þá skor­um við á fjöl­miðlafólk að vanda um­fjöll­un um þessi mál og birta ekki frétt­ir sem gera aðför að ein­stök­um þolend­um, þar sem þeir eru vænd­ir um lyg­ar. Fjöl­miðlar eiga ekki að vera gjall­ar­horn fyr­ir þá sem hafa beina hags­muni af því að rýra trú­verðug­leika þolenda. Við lýs­um yfir stuðningi við þá hug­rökku brotaþola sem rofið hafa þögn­ina og þá at­vinnu­rek­end­ur sem standa við bakið á þeim. Líf, geðheilsa og starfs­frami kvenna er ekki leng­ur ásætt­an­leg­ur fórn­ar­kostnaður á at­vinnu­markaði sem hef­ur hylmt yfir með gerend­um frá ör­ófi alda. Þeirri skömm var skilað í #met­oo bylt­ing­unni.

Virðing­ar­fyllst,

Anna Lind Vign­is­dótt­ir 
Bryn­hild­ur Heiðar- og Ómars­dótt­ir 
Drífa Snæ­dal 
Edda Ýr Garðars­dótt­ir 
Elísa­bet Ýr Atla­dótt­ir 
Elva Hrönn Hjart­ar­dótt­ir
Erla Hlyns­dótt­ir 
Fríða Rós Valdi­mars­dótt­ir 
Guðrún Helga Sig­urðardótt­ir 
Guðrún Lín­berg Guðjóns­dótt­ir 
Haf­dís Inga Helgu­dótt­ir Hinriks­dótt­ir
Hall­dóra Jón­as­dótt­ir 
Halla B. Þorkels­son 
Heiða Björg Hilm­is­dótt­ir 
Hlíf Steins­dótt­ir 
Kol­brún Dögg Arn­ar­dótt­ir 
Kol­brún Garðars­dótt­ir
Krist­ín I. Páls­dótt­ir 
Marta Jóns­dótt­ir 
Myrra Leifs­dótt­ir 
Nichole Leigh Mosty 
Ólöf Dóra Bartels Jóns­dótt­ir 
Ósk Gunn­laugs­dótt­ir
Sigrún Jóns­dótt­ir 
Silja Bára Ómars­dótt­ir 
Stef­an­ía Svavars­dótt­ir 
Stein­unn Ýr Ein­ars­dótt­ir
Þór­dís Elva Þor­valds­dótt­ir 
Þór­laug Ágústs­dótt­ir“

Auglýsing

læk

Instagram