Ætlar ekki heim til Íslands án hundanna fimm

Auglýsing

Bjarney Hinriksdóttir er grafískur hönnuður auk þess að reka Jógastúdíó í miðbæ Reykjavíkur. Hún hefur alltaf verið mikill dýravinur og með ríka ævintýraþrá sem leiddi hana til dvalar á Krít síðastliðið vor.

„Mig langaði að einbeita mér að hönnuninni og bæta við mig þekkingu. Svo ég bjó mér til mitt eigið listamannaleyfi, fann hús á Krít og dreif mig út. Þegar ég kom út fór ég strax í það að læra grísku, sem ég mæli með ef fólk er að leita að meiriháttar heilaörvun,“ segir Baddý og hlær.

Bjarney hefur alltaf verið mikill dýravinur og hefur stöku sinnum farið í Kattholt sem sjálfboðaliði.

„Mig langaði að halda áfram að vinna með dýrum á Krít og ég vissi að þörfin var mikil. Ég kom mér því í samband við lítil sjálfboðaliðasamtök sem vinna sleitulaust við að hjálpa dýrum sem oft eru mjög illa leikin af mannavöldum, yfirgefin af eigendum eða lifa á götunni og eru skilin eftir afskiptalaus.“

Auglýsing

Eftir einungis vikudvöl á Krít fékk Bjarney símtal vegna fimm hvolpa sem höfðu fundist yfirgefnir við hraðbraut.

„Þegar símtalið kom hugsaði ég mig ekki tvisvar um, enda var ég með aukaherbergi og stórar svalir, og hversu erfitt gæti það verið að sjá um fimm litla hvolpa?“

Bjarney og sambýlismaður hennar, José, hafa hugsað um hvolpana síðustu mánuði og skipt á milli sín hundavöktum samhliða öðrum verkefnum.

„Við ákváðum þá að gera okkar allra besta við að koma hinum frábæru fimm, en hópurinn hefur gengið undir því nafni, heim til Íslands á góð heimili. Það var aldrei í boði í mínum huga að finna heimili fyrir þau á Krít. Dýravelferð hér er komin afar stutt, það er vel þekkt að eitrað sé fyrir hundum og köttum til að fækka þeim, þó eru þeir almennt á móti því að gelda dýrin. Það er erfitt að finna fólk sem vill taka að sér dýr og víða sjást hundar bundnir í stuttri keðju allan liðlangan daginn í steikjandi hita,“ segir Bjarney.

Þessa stundina er hugur þeirra og hjörtu upptekin að því markmiði að flytja hina Frábæru Fimm, heim til Íslands í desember.

„Eins og margir vita er ferlið við að ferðast með dýr til Íslands mjög kostnaðarsamt og flókið en samtals er allur kostnaðurinn við að flytja einn hund til Íslands rétt tæp hálf milljón.“

Þau settu af stað söfnun inni á Karolina Fund, fyrir flutningunum.

Á Karolina Fund getur fólk lagt til fjárhæð að eigin vali og fengið eitt og annað í staðinn. Þar er m.a annars í boði myndskreytta bókin, kort í jóga, grafísk hönnun og vefsíðugerð og svo gefa frábærir listamenn vinnuna sína. Söfnunin gengur vel og þau eru þakklát öllu því fólki sem hefur lagt söfnuninni lið.

Finna má söfnunina hér: karolinafund.

Þetta kom fram á vef Fréttablaðsins.

Auglýsing

læk

Ummmmm...

Instagram