Afslappað og notalegt með handverk og list í forgrunni

Auglýsing

Fatahönnuðurinn Aníta Hirlekar býr í snoturri íbúð á Rekagranda í Vesturbænum ásamt eiginmanni sínum og tveimur börnum þeirra, íbúðina hafa þau gert upp smátt og smátt síðan þau fluttu inn.

Umhverfissjónarmið leika stórt hlutverk á bæði heimilinu og í hönnun Anítu, hún vill eiga fáa og góða hluti og það er einmitt hugmyndafræðin sem hún hefur að leiðarljósi í vinnu sinni. Við kíktum í heimsókn til Anítu í Vesturbæinn en einnig á líflega vinnustofuna hennar þar sem mikil hugmynda- og tilraunastarfsemi fer fram.

Aníta og fjölskylda hafa búið í íbúðinni frá árinu 2017. Þegar þau fluttu inn var fyrsta skrefið að taka eldhúsið í gegn og síðan þá hafa þau verið að dytta að heimilinu smátt og smátt. Þau kunna vel við sig í hverfinu og segja skemmtilega stemningu ríkja á milli nágrannanna á svæðinu, bónusinn er svo nálægðin við hafið og stórfenglegt útsýnið út um norðurglugga íbúðarinnar.

„Þegar við fluttum inn þá réðumst við strax í breytingar á eldhúsinu og rifum til dæmis niður fyrirferðarmikla efri skápa sem hindruðu útsýnið. Við skiptum þeim út fyrir opnar hillur og þannig nýtur útsýnið sín mun betur og birtan flæðir inn í íbúðina. Við verjum miklum tíma í eldhúsinu og þessi gluggi og útsýnið hefur mikil áhrif á okkur.“

Auglýsing

Þá rifu þau einnig flísarnar af eldhúsveggjunum og leyfðu grófri áferðinni sem myndaðist við það að njóta sín og ýttu enn frekar undir hana með því að bera sparsl á veggina á grófan hátt.

Í fyrra réðust þau svo í breytingar á baðherberginu þar sem þau meðal annars flísalögðu veggi og flotuðu og lökkuðu gólfið. „Annars er heimilið í stöðugri þróun, þetta er svona „ongoing“ verkefni, við erum endalaust eitthvað að betrumbæta og fínpússa.“

Þetta er brot úr lengra viðtali sem aðgengilegt er á vef Birtings.

Umsjón/ Guðný Hrönn
Myndir/ Hallur Karlsson
Mynd af Anítu/ Hákon Davíð

Auglýsing

læk

Ummmmm...

Instagram