Bandarískur nemandi syngur Stál og hnífur

„Ég fæ mikla ánægju úr því að syngja íslensk lög,“ segir hinn átján ára Preston Scoggins en hann hefur vakið athygli og sérstaklega góða lukku hérlendis fyrir ábreiður sínar af íslenskum lögum. Í nýjasta myndbandi sínu spreytir hann sig með laginu Stál of hnífur eftir Bubba Morthens.

Áður hafði hann gefið út ábreiður af lögunum Ljósvíkingur eftir Mugison og einnig Vor í Vaglaskógi í flutningi Kaleo.

Preston er 18 ára nemandi í Flórída sem hefur gefið út fjölmargar ábreiður af ýmsum lögum á samfélagsmiðlum sínum. Hann heldur utan um YouTube-síðu og hefur verið virkur með ábreiður sínar í um þrjú ár. Helst syngur hann kántrí lög eftir listamenn eins og Chris Stapleton, Luke Combs og Brett Young. Hann hefur þó breitt yfir lög eftir popplistamenn eins og Ed Sheeran og Justin Bieber.

Í samtali við Nútímann segir Preston íslenska menningu vera sérlega heillandi og sé það skemmtileg áskorun að ná utan um íslenskan texta og framburð. Hafi þó Stál og hnífur verið sérlega krefjandi, á jákvæðan máta. „Þetta ferli tók sinn tíma og margar æfingar en þetta lag eftir Bubba talar sterkt til mín með þessum ljóðræna texta,“ segir Preston.

„Gripin voru auðveld og mér tókst að gera litlar breytingar en í þessu tilfelli var framburðurinn á orðunum gífurlega krefjandi, en þar sem er vilji, þar er vegur, segir tónlistarmaðurinn. Mér finnst íslenska svo fallegt og merkilegt tungumál og þetta var mikil lífsreynsla. Mig langaði til að koma laginu eins vel til skila og ég hafði tök á“

Preston segist hafa byrjað að syngja áður en hann byrjaði að tala og er búinn að læra á gítar í fjögur ár. Hann hefur ekki stundað söngnám. Auk þess er hann í hljómsveit sem heitir Fallen Timber og hyggst gefa út frumsamin lög á næstunni.

Heyra má ábreiðu Preston hér fyrir neðan. Finna má fleiri ábreiður eftir hann á YouTube.

Auglýsing

læk

Instagram