„Ég held að bækur geti hreinlega bjargað mannslífum“

Bergrún Íris Sævarsdóttir fékk snemma ástríðu fyrir lestri og bókum og hefur undanfarin ár sett þá ástríðu sína í skrif og myndlýsingu fjölda bóka fyrir yngri kynslóðina. Hún segir mikilvægt að bækur lýsi raunveruleika barna og ungmenna og að allir geti samsamað sig sögupersónu í bók. Bergrún tekst nú á við nýtt og erfitt verkefni, en það mikilvægasta að hennar mati er fjölskyldan og að skilja eitthvað eftir sig, hafa áhrif og láta gott af sér leiða.

„Mamma vann í Bókabúð Steinars á Bergstaðastræti og ég var mikið hjá henni að skoða alls konar bækur og vil meina að ég hafi fengið bókaástina frá henni. Þegar systir mín fæddist og var löngum stundum á brjósti þurfti að halda mér rólegri. Það var gert með því að lesa fyrir mig. Mamma fór síðan í háskólanám og ég sat við hliðina á henni og fletti bókum og var farin að lesa rúmlega fjögurra ára,“ segir Bergrún sem segist hafa notað bækur sem skjól sem barn, en í æsku var hún mjög kvíðin sem hún fékk útskýringu á um þrítugt þegar hún var greind með ADHD.

„Ég bar það ekkert sérstaklega utan á mér sem barn, en týndi reyndar öllu og var ekki treystandi fyrir húslyklum og slíku, var alltaf að gera mistök en var líka snillingur í að fela mistökin. Þannig kviknar kvíðinn hjá mörgum og sérstaklega stelpum með ADHD. Maður fer að ofhugsa, hafa gríðarlegar áhyggjur, en ég var mikill martraðakrakki, svaf mjög illa og fannst rosalega gott að geta leitað í bækur til þess að dreifa huganum og gleyma mér. Ég var líka lúmskt ofvirk og á tímabili var ég í skátunum, fótbolta, myndlistarskóla, skák, kór og skólahljómsveit. Ég hef alltaf verið mikil félagsvera en á sama tíma rosa einræn og finnst gott að setjast út í horn og skrifa ljóð. Stundum sat ég jafnvel inni í skáp og las bækur. Þannig hlóð ég batteríin og safnaði kröftum.“

Bergrún er alin upp á Kársnesinu í Kópavogi, er miðjubarn, með bróður sjö árum eldri og systur 18 mánuðum yngri. „Við systurnar höfum alltaf verið mjög nánar, vorum bæði bestu vinkonur og verstu óvinkonur í æsku, slógumst mikið en alltaf til staðar fyrir hvor aðra. Það var oft fjörugt heima hjá mér þegar ég var krakki en ég fékk mikla ást og athygli. Foreldrar mínir gáfu mikið af sér og voru alltaf dugleg að leika og hafa gaman,“ segir Bergrún aðspurð um æskuárin. „Þegar þú veist að þú ert elskuð er hægt að fyrirgefa margt.

Þetta er brot úr lengra viðtali sem aðgengilegt er á vef Birtings.

Pabbi kenndi mér að axla ábyrgð og biðjast afsökunar, hann gerði alveg mistök í uppeldinu, en hann sagði alltaf: „Fyrirgefðu, ég elska þig.“ Það er ótrúlega dýrmætt fyrir barn að heyra slík orð. Foreldrar mínir eru enn þá dugleg að tala fallega við okkur systkinin og það er mikil ást í fjölskyldunni minni. Uppeldið var ekki gallalaust en ég lærði að vinna úr hlutunum, lærði að maður gengst við því sem maður gerir, biðst afsökunar og að orðin „ég elska þig“ eru ekki spari. Mér þykir mjög vænt um það.“

Bækur verða að lýsa raunveruleika barna

Bergrún segir að verðmætt sé að fá athygli barna og lesenda og þá athygli vilji hún nýta vel og vanda sig. „Bækurnar mínar fjalla gjarnan um samtíma íslenska barna og þann heim sem þau lifa í. Við sem erum eldri eigum það til að halda að börnum uppáhaldsbókum okkar frá því við vorum börn en ég held við getum verið sammála um að börn nútímans horfa fram á flókna heimsmynd og framtíð, með hnattræna hlýnun, stríð og fordóma sem eru farnir að grassera aftur,“ segir Bergrún. Þjóðin sé einnig orðin fjölbreyttari og litríkari sem þarf að endurspeglast í bókum, ekki bara fyrir börn sem eru af erlendum uppruna heldur líka fyrir krakkana sem sitja við hliðina á þeim í skólanum.

„Við þurfum að sýna Ísland eins og það er. Ég brenn fyrir því að börn geti speglað sig í bók af því bækur eru svo mikið skjól. Ef þú ferð á netið og samfélagsmiðla, sem krakkar gera, og viðrar þína skoðun geturðu lent í því að það er öskrað á þig til baka. Fyrir alla þá sem finnst þú frábær eins og þú ert þá eru jafnmargir sem rakka þig niður og skrifa ógeðslega hluti. Þegar þú lest bók öskrar enginn og oft gefst friður til að máta sig í alls konar aðstæðum. Börn eru að finna og móta sína sjálfsmynd og það er mikilvægt að geta lesið sögu um jafnaldra sína og fundið sjálfan sig í bók. Ég held að bækur geti hreinlega bjargað mannslífum. Það skiptir miklu máli fyrir börnin okkar, hvað sem þau eru að kljást við og hvernig sem þau upplifa sig í þessum heimi, að þeim finnist þau eiga pláss og megi vera með.“

„Börn eru að finna og móta sína sjálfsmynd og það er mikilvægt að geta lesið sögu um jafnaldra sína og fundið sjálfan sig í bók. Ég held að bækur geti hreinlega bjargað mannslífum.“

 

Texti: Ragna Gestsdóttir
Myndir: Heiða Helgadóttir

Auglýsing

læk

Instagram