Einar syndir í tvo sólarhringa

Einar Hansberg Árnason er búinn að synda í sólarhring og hálfnaður með tveggja sólarhringa sund til styrktar átaki UNICEF á Íslandi „Stöðvum feluleikinn.“

Einar, sem syndir í sundlauginni að Varmá í Mosfellsbæ, hóf sundið kl 17 á fimmtudaginn.

„Maður fær stundum geggaðar hugmyndir og þetta er ein af þeim. Ef maður getur gefið af sér af hverju gerir maður það ekki. Ég mæli ekki með þessu fyrir alla en stundum þarf maður að skjóta til að skora. Það sem ýtti þessum bolta af stað var að ég á litla frænku sem lenti í ljótu einelti í haust og þurfti að skipta um skóla,“ sagði Einar.

„Því miður er hún ekki eina barnið sem hefur lent í þessu. Þetta var það sem gaf hjartanu stuð til að fara í þetta. Maður óskar engum börnum að vera í þessari stöðu. Maður biðlar til þeirra aðila sem geta gripið inní að gera það og ekki hundsa og leyfa þessu að fara þannig að þolandinn þurfi að fara í burtu en ekki að taka á þessu.“

Þegar Sportpakkinn heimsótti Einar var hann búinn að synda í tæpan sólarhring. Fjölskyldan hans skiptist á að standa vaktina og passa að hann borði og ofgeri sér ekki.

Einar heldur áfram að synda í nótt og ástæða er til að hvetja fólk til að kíkja við í sundlauginni að Varmá. Til að kynna sér málstaðinn er hægt að fara á unicef.is og kynna sér málið þar.

Hér fyrir neðan má sjá fréttina í heild sinni.

Þetta kom fram á vef Vísis.

Auglýsing

læk

Instagram