Maður í haldi lögreglu eftir eldsvoða

Maður er í haldi lögreglu eftir að eldur kviknaði í gömlu húsi í Sandgerðisbótinni á Akureyri í nótt.

Í húsinu, sem er skammt frá smábátahöfninni á Akureyri, eru búsetuúrræði á vegum bæjarins en húsið er mjög gamalt. Var tilkynnt um eld um klukkan hálf tvö í nótt að sögn Ólafs Stefánssonar, slökkviliðsstjóra á Akureyri. Karl og kona sem búa á efri hæð hússins hringdu í Neyðarlínuna þegar þau urðu vör við eld á neðri hæðinni. Þau komu sér sjálf út og voru flutt á bráðamóttöku til skoðunar. Líðan þeirra er eftir atvikum góð, að sögn Ólafs en húsið er talið ónýtt.

Gekk ágætlega að slökkva eldinn en rífa þurfti klæðningu úr húsinu til að slökkva í glæðum. Íbúi á neðri hæðinni, þar sem eldurinn kviknaði, var handtekinn í nótt og er enn í haldi. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Akureyri er málið í rannsókn og verður maðurinn yfirheyrður seinna í dag. Lögreglan vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið. Þetta kom fram á vef Rúv.

Auglýsing

læk

Instagram