Erlendur ferðamaður smitaður af Covid-19 lést á Húsavík

Erlendur ferðamaður lést í gær á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Húsavík stuttu eftir komu þangað. Maðurinn leitaði þangað vegna alvarlegra veikinda og reyndist vera smitaður af COVID-19 kórónuveirunni. Það liggur þó ekki fyrir hvort að andlátið tengist veirunni.

Sjúkdómseinkennin voru ekki dæmigerð fyrir COVID-19 en unnið er að því að skera úr um dánarorsökina. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Almannavörnum.

„Margþætt vinna tekur nú við vegna þessa máls, bæði varðandi andlát mannsinns og stuðning við hans nánustu. Þá þarf að styðja við og setja þá heilbrigðisstarfsmenn sem komu að meðferð mannsins í sóttkví, sótthreinsa heilsugæslustöðina ásamt því að tryggja nauðsynlega heilbrigðisþjónustu fyrir Húsvíkinga. Öll þessi verkefni eru unnin á vegum almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, í náinni samvinnu við sóttvarnalækni, landlækni, Rauða krossinn og er unnið í samstarfi við aðgerðastjórn almannavarna á Norðurlandi eystra og heilbrigðisstofnun Norðurlands,“ segir í tilkynningunni.

Auglýsing

læk

Instagram