Féll sjö metra niður af svölum

Maður féll af svölum í blokk á Raufarhöfn í nótt. Hann féll sjö metra og var með litla meðvitund þegar lögregla kom á staðinn. Hann var fluttur til Þórshafnar með sjúkrabíl og þaðan með sjúkraflugi á Landspítalann klukkan að ganga þrjú í nótt, að sögn lögreglunnar. Þetta kom fram á vef Rúv.

Talið er að um slys sé að ræða en Lögreglan á Akureyri fór á vettvang í dag. Verið er að endurnýja blokkina að utan og eru handrið því ekki í fullnægjandi hæð.

Vinnumennirnir sem eru að gera upp blokkina eru búsettir í henni og er maðurinn sem féll af svölunum einn þeirra. Voru það vinnufélagar hans sem hringdu eftir aðstoð. Slysið átti sér stað klukkan eitt í nótt og flokkast því ekki sem vinnuslys, að sögn lögreglu.

Auglýsing

læk

Instagram