Áttu dramatísk börn? Við spurðum pabbana um ráð og þeir svöruðu kallinu

Börn eru dramadrifið fólk. Við fórum á stúfana og fengum dramasögur frá pöbbum sem kalla ekki allt ömmu sína. Mögulega opnuðum við eitthvað tilfinningalegt pandórubox því sumir þeirra bara gátu ekki hætt að tala um þetta. Enginn þessara pabba vill þó viðurkenna að dramatík barna þeirra sé frá þeim sjálfum komin.

Að hræða þau dálítið

„Dóttir mín, fimm ára, fór yfir um því ég vildi ekki láta hana hafa símann. Hún var að fara að sofa og missti það gjörsamlega. Kýldi mig í magann. Ég greip fyrir andlitið og lét eins og hún hefði meitt mig. Hún kýldi mig aftur! Ég bar mig rosalega aumlega og greip fyrir munninn, sagði henni að mér liði svo illa að ég væri hreinlega alveg að fara að gubba. Hún fríkaði gjörsamlega út og fór að hágráta – hélt að ég myndi gubba yfir sig og sá geysilega eftir því að hafa kýlt mig. Eitt núll fyrir mér.“

Að sitja ekki við orðið tóm

„Ég á erfitt með búðarferðir þegar börnin eru með. En einn daginn, í miðju meltdowni hjá yngsta þá fékk ég bara nóg. Ég var búinn að segja honum að ef hann hætti ekki að suða og væla þá færum við beint heim. Og þegar hann hélt áfram þá tók ég hann upp, stakk honum undir hendina og lagði af stað út úr búðinni. Hann ormaðist þarna við síðuna á mér gjörsamlega gáttaður á þessu en gargaði svo að hann væri hættur. Ég setti hann niður við útganginn og spurði hann hvort hann væri í alvörunni hættur að væla. Hamm. Það heyrðist ekki í honum restina af innkaupaferðinni.“

Að kaffæra þau í áhuga

„Stelpan mín er mjög dramatísk og er ógeðslega lengi að koma sér í fötin. Við hjónin erum búin að reyna allt. En um daginn þá var hún komin í kast yfir einhverjum sokkum sem hún annað hvort vildi fara í eða ekki í – það var erfitt að greina á milli, miklar tilfinningar og óskýr framburður. Svo ég tók allt annan pól en vanalega. Ég fór inn til hennar og spurði hana bara endalaust út í þessi sokkamál. Við fórum yfir þetta frá A-Ö, allt um sokkana og litina á þeim og hvort þeir væru með röndum eða hjörtum eða háir eða lágir eða hlýir eða whatever. Ég gjörsamlega tæmdi þetta sokkamál og kaffærði hennar vanstillingu í uppgerðum áhuga mínum. Hún gleymdi alveg sínu drama. Við vorum dálítið sein út, en það gildir einu. I own the socks núna.“

Að bæla þetta bara niður

„Mig rámar í að börnin mín hafi farið í gegnum þetta terrible-two’s . En ég er búinn að vista yfir þær minningar.“

Að fá þau til að hlæja

„Mitt besta ráð er að byrja bara að syngja eitthvað grípandi lag ógeðslega hátt, eða dansa. Bara gera þau ógeðslega hissa og láta þau fara að hlæja. Virkar fyrir mig.“

Að bíða þetta bara af sér

„Það er fátt óútreiknanlegra en unglingsstelpur á gelgjunni. Ég held að mín hafi byrjað níu ára og þetta er sko ekki búið ennþá. Ég hef ekki komist að á klósettinu heima hjá mér í mörg ár. Ég veit í sannleika sagt ekkert hvernig ég á að díla við hana, og oft fel ég mig bara inn í eldhúsi á meðan mesta dramað gengur yfir. Ætli ég þurfi ekki að bíða þetta af mér í nokkur ár í viðbót.“

Auglýsing

læk

Instagram