„Hey! Mér bara líður ekkert lengur illa á sunnudögum!“

Einhver verður nú gleðin í Gamla bíói laugardaginn 26. nóvember næstkomandi þegar Brönsklúbburinn verður haldinn með pompi og prakt. Brönsinn samanstendur af góðum mat, sjálfsstyrkingu, skemmtun, tónlist og að sjálfsögðu búbblum. Eins og segir í kynningu á tix.is um viðburðinn er Brönsklúbburinn staður þar sem konur koma saman og eiga góða stund, fá hvatningu til að eflast og setja fókusinn á jákvæðu hlutina í lífinu. Þær Berglind Guðmundsdóttir, eigandi uppskriftasíðunnar Gulur, rauður, grænn & salt, hjúkrunarfræðingur og lífskúnstner, og Katrín Petersen, markaðsfræðingur, standa fyrir Brönsklúbbnum.

Blaðamaður hittir Berglindi og Katrínu í anddyri veitingastaðar á föstudegi klukkan fimm. Okkur er sagt að það sé brjálað að gera þar semmargir séu á leið í leikhús og ætli að snæða á staðnum áður en sýning hefst. Eftir dágóða bið er okkur sagt að það sé hægt að „troða okkur að“ í klukkutíma en við erum sammála um að klukkutími muni aldrei nægja í þetta viðtal og því færum við okkur yfir á kaffihús skammt frá. Þegar búið er að panta kaffi á línuna spyr blaðamaður hvort þær stöllur séu búnar að þekkjast lengi. „Nei, við kynntumst bara út frá þessari hugmynd um Brönsklúbbinn,“ segir Berglind. „Katrín var búin að ganga með þessa hugmynd í maganum í einhvern tíma og hafði samband við mig út af henni. Við hittumst, ræddum málin, hún bar þessa frábæru hugmynd undir mig og þá var ekki aftur snúið. Við bara ákváðum að kýla á þetta.“

Hvernig kviknaði þessi hugmynd þín um Brönsklúbbinn, Katrín?
„Ég var í stjórn FKA Framtíðar, sem er fyrir konur sem vilja vaxa og ná lengra í íslensku atvinnulífi. Það er lögð mikil áhersla á að félagskonur efli hver aðra og ég fann það alltaf þegar ég var búin að funda með stjórninni eða vera á viðburðum á vegum FKA hvernig ég kom full af krafti út af þeim. Maður var svo peppaður að manni fannst maður geta sigrað heiminn. En FKA Framtíð er auðvitað hugsað svona meira fyrir starfsframann og ég fann að mig langaði líka að fá pepp fyrir allt hitt. Auðvitað er maður oft peppaður, en það er samt alltaf gott að fá áminningu öðru hvoru. Þannig að ég var að velta því fyrirmér hvort það væri ekki hægt að gera eitthvað, setja eitthvað á laggirnar þar sem maður fengi þessa sömu vítamínsprautu fyrir það sem tengdist ekki endilega starfsframanum. Mig þyrsti í eitthvað meira. Eitt af því skemmtilegasta sem ég veit, fyrir utan að ferðast, er að fara í brunch með stelpunum; þar sem við byrjum snemma að hafa gaman og hættum fyrr.“

„Við elskum það,“ skýtur Berglind inn í, „og vakna hress næsta dag, við erum svolítið komnar á þann aldur,“ og það er hlegið dátt við borðið. „Já, maður er svolítið kominn þangað,“ segir Katrín hlæjandi, „og það er gott að fá svolitla vítamínsprautu í leiðinni, ekki bara fara út og fá sér í glas með stelpunum, sem er alveg gaman, heldur líka fá þetta pepp. Og þannig varð hugmyndin um Brönsklúbbinn til. Mér fannst frábært að halda svona viðburð þar sem við sláum tvær flugur í einu höggi; höfum gaman og fáum innblástur. Við Konur þurfum líka að setja okkur meira í fyrsta sætið. Við erum svo oft að hugsa um börnin, makann, heimilið, vinnuna … Setjum allt annað en okkur sjálfar í fyrsta sæti. Svo bara grotnum við niður í flíspeysu og Crocsskóm.“ Enn er hlegið. „Reyndar er Crocs að koma aftur í tísku,“ segir Berglind. Við erum fljótar að beina talinu frá því tískuslysi.

Ekki séns að bíða með viðburðinn fram í mars
Katrín segist hafa orðið mjög glöð að Berglind skyldi taka vel í hugmyndina þegar þær hittust. „Ég var svo fegin að Berglind skyldi vera til í þetta með mér því hún var mitt fyrsta val. Ég var búin að fylgjast lengi með henni á Instagram og fannst svo ótrúlega gaman að fylgjast með henni sýna frá ferðalögunum sínum, þar sem hún hefur verið ein að þvælast og taka fylgjendur sína á Instagram með. Ég var meira að segja farin að standa mig að því að horfa ekki á þætti í sjónvarpinu heldur var ég að horfa á Berglindi á Instagram. Mér fannst þetta svo geggjað hjá henni og fannst hún alltaf svo jákvæð og greinilegt að hún vill bara lifa og njóta og hafa gaman. Þannig að ég ákvað að hafa samband við hana og var svo glöð að hún skyldi taka svona vel í þetta. Mig langaði svo að gera þetta með þessari konu.“

„Stelpu meinar hún,“ segir Berglind hlæjandi við blaðamann, „Skrifaðu stelpu.“ „Upphaflega ætluðum við stelpurnar,“ segir Katrín með léttri áherslu, „aðeins að melta þetta og plönuðum að hafa þetta á næsta ári, kannski í mars, en svo urðum við bara svo spenntar að við ákváðum að kýla á þetta í lok nóvember.“ „Ég myndi deyja ef við þyrftum að bíða fram í mars,“ segir Berglind. „Ertu að grínast? Það væri ekki séns að bíða svo lengi. Mér finnst þetta svo geggjað. Fyrsti sunnudagur í aðventu er daginn eftir þannig að það verður auðvitað bara geggjað að rölta um bæinn þegar Brönsklúbburinn er búinn, rölta Laugaveginn og njóta í botn áfram.“

Ég var á þeim stað sjálf einu sinni að ég
vissi ekki hvað mér þætti skemmtilegt
og hvort mér þætti eitthvað skemmtilegt
yfir höfuð. Ég vissi ekki hvort ég hefði
einhver áhugamál eða hvert ég stefndi.“

Af hverju varð þessi dagur fyrir valinu, var það með ráðum gert af því að aðventan er að byrja næsta dag?
„Það er nú bara skemmtileg tilviljun,“ segja þær einum rómi, ansi leyndardómsfullar á svip, líta hvor á aðra og hlæja dátt. „Við föttuðum það reyndar bara eftir á að þetta væri fyrsta aðventuhelgin en það er náttúrlega ekkert betra en miðbærinn á þessum árstíma,“ segir Berglind, „og það er auðvitað bara enn þá skemmtilegra. Þá er hægt að gera sér glaðan dag í jólastemningunni langt fram eftir degi, jafnvel framá kvöld. Það verður búið að skreyta í bænum og svona. Ég elska þennan tíma og það jafnast ekkert á við miðbæ Reykjavíkur á aðventunni.“

Fattaði einn daginn að hún vissi ekki hvernig henni leið
Það er auðheyrt á Berglindi og Katrínu að Brönsklúbburinn er kominn til að vera, þessi viðburður er hugsaður sem fyrsti viðburðurinn af fleiri. Þær vilja þó lítið gefa uppi um hvaða plön séu komin á teikniborðið með framhaldið en segja að yfirskrift þessa fyrsta viðburðar Brönsklúbbsins, sem gefur
loforð um fleiri, sé „Látum drauma okkar rætast“. Berglind er ein af þremur fyrirlesurum á viðburðinum og ætlar einmitt að fjalla um það hvernig kona fer að því að láta drauma sína rætast. „Ég ætla líka að koma inn á þetta sem margir þekkja; hvað ef maður veit ekki hver draumur manns er? Hvað ef maður veit ekki einu sinni hvað manni finnst skemmtilegt? Ég var á þeim stað sjálf einu sinni að ég vissi ekki hvað mér þætti skemmtilegt og hvort mér þætti eitthvað skemmtilegt yfir höfuð. Ég vissi ekki hvort ég hefði einhver áhugamál eða hvert ég stefndi. En svo fann ég út úr því. Okkur finnst skipta miklu máli að fyrirlesararnir á viðburðum Brönsklúbbsins tali út frá eigin reynslu og segi frá því hvað hefur gagnast þeim í þeirra lífsreynslu og hvernig þeir hafa komist út úr erfiðleikum, hvernig þeir hafa fundið gleðina, lífshamingjuna, ástríðuna sína og svo framvegis. Það að átta sig allt í einu á því að maður viti ekki alveg hvert maður er að stefna, hvað manni finnst gaman og allt þetta er ekki endastöð. Maður þarf bara að finna sig aftur.“

„Það er líka svolítið þannig að ef maður er búinn að lenda einu sinni á vegg, sama hvort það er vegna skilnaðar, sambandsslita, kulnunar eða einhvers annars, þá fer maður að hugsa hlutina svolítið upp á nýtt,“ segir Katrín. „En því miður þarf maður stundum að lenda á þessum blessaða vegg til að geta farið að forgangsraða upp á nýtt.“ „Mín kynslóð var svolítið í því að eltast við það hvernig hlutirnir áttu að vera,“ segir Berglind og leggur áherslu á orðið áttu, „en ég held að yngri kynslóðin sé slakari og átti sig á því að það þarf ekki að vera að elta neitt. Hérna einu sinni var það svolítið þannig að maður byrjaði í sambandi, svo langaði mann í börn, svo var það að eignast draumahúsið og svo var maður bara á sjálfsstýringu. Síðan fer mikill tími í að hugsa um þessi yndislegu börn, vinna fyrir fína húsinu og svo framvegis og allt í einu, einn daginn, vaknar maður upp við það að vita ekki hvernig manni líður. Er ég hamingjusöm? Er ég glöð? Hvað finnst mér skemmtilegt? Og það eru ekkert allir sem vita það eða geta áttað sig á tilfinningunum. Ég til dæmis fattaði einn daginn að ég vissi ekki hvernig mér leið og það var alveg hræðileg tilfinning.“

„Maður er búinn að týna sjálfum sér,“ skýtur Katrín inn í og Berglind samsinnir því áður en hún heldur áfram: „Ég var alsæl í mínu hjónabandi og vantaði ekki neitt þangað til bara allt í einu að það vantaði eitthvað. Það var rosalega skrýtið. Bara svona: Ó … Ég elska að vera mamma, ég elskaði að vera ólétt, ég elskaði að vera heima að dúllast í eldhúsinu og allt þetta og hélt bara einhvern veginn að það myndi duga. Ég var líka manneskja sem ætlaði aldrei að skilja. Aldrei,“ segir hún með mikilli áherslu, „af því að foreldrar mínir skildu og þá ákvað ég að það myndi ég aldrei gera. Svo bara ákveður lífið annað. Maður þarf náttúrlega að hlusta á sig þótt það geti verið erfitt. Það var mjög erfitt að taka þessa ákvörðun. Líka vegna þess að maður er ekki bara að taka ákvörðun fyrir sjálfan sig, maður er að taka ákvörðun fyrir svo marga aðra.“

„Hey! Mér bara líður ekkert lengur illa á sunnudögum!“
Berglind segist hafa farið að stunda göngur eftir skilnaðinn. „Ég fann það bara hvað ég var óstabíl, þetta var auðvitað erfið reynsla, og ég vildi ekki vera að fara á djammið. Þannig að ég fór í Fjallavini, hóp fólks sem var allt rólegt og gott og stabílt fólk. Það var allt svo fallegt í kringum þennan hóp. Ég fór í göngu aðra hvora helgi, þegar krakkarnir voru hjá pabba sínum. Ég var hjá sálfræðingi á þessum tíma og sagði einhvern tíma við hann að mér liði svo illa. Ég man svo vel þegar hann sagði að það eina sem ég gæti gert í þessari stöðu væri að vonast til þess að dagurinn í dag væri aðeins betri en dagurinn í gær. Þannig myndi ég svo byggja ofan á það og fara að líða betur. Eftir fyrstu gönguna fann ég strax að mér leið örlítið betur en mér hafði liðið áður. Svo þegar maður er farinn að eiga marga svoleiðis daga, þá allt í einu rennur upp fyrir manni að þetta er ekki lengur svona hræðilegt. Sumrin voru til dæmis erfið í byrjun þegar krakkarnir fóru í frí til pabba síns, jólin og helgarnar án þeirra. Sunnudagarnir fundust mér sérstaklega erfiðir þegar ég var ekki með krakkana, því sunnudagar eru svona fjölskyldudagar. Þetta tók kannski alveg tvö, þrjú ár. En hafðist og það kemur alltaf að því. Maður þarf alveg að vinna fyrir því að fara að líða betur en það var svo gaman að fatta það að hlutirnir eru farnir að vera betri. Ég man til dæmis enn eftir því þegar ég hringdi í vinkonu mína. sem skildi á svipuðum tíma, og ég sagði við hana: „Hey! Mér bara líður ekkert lengur illa á sunnudögum!“

Dátt er hlegið við borðið.
„Það er geggjuð upplifun!“ segir Katrín og Berglind kinkar kolli: „Já, sérstaklega af því að maður heldur að þetta sé svo endanlegt. Að manni muni bara alltaf líða illa. Þetta verði alltaf erfitt. En það er nú bara ekki þannig.“ Katrín segist hafa hætt með barnsföður sínum eftir átta ára sambúð svo hún kannist við tilfinningarnar sem Berglind talar um. „Ég var líka svo rosalega skipulögð með alla hluti og var alveg búin að plana hvernig lífið átti að vera; ætlaði að vera búin að eignast þrjú börn fyrir þrítugt, var búin að kaupa húsið og allt bara eftir einhverri áætlun. Ég vildi eignast barn í maí og eignaðist barn í maí, á settum degi. Síðan hrundi allt þegar barnsfaðir minn vildi slíta sambandinu. Það var alveg skellur og mér fannst ég algjörlega búin að klúðra málum. Ég var líka sú fyrsta bæði í móður- og föðurfjölskyldunni sem skildi. Mér fannst allt búið,“ segir hún og skellir upp úr.

„Eftir á að hyggja er þetta auðvitað bara fyndið, því ég var 28 ára krakki sko, og hélt að lífið væri búið. En það varði nú ekki lengi. Ég var líka heppin að ég gat keypt mér íbúð og var í fullri vinnu þannig að hlutirnir gengu vel. Ég var líka ákveðin í að verða ekki ein af þeim sem yrði gömul og bitur eftir svona reynslu þannig að ég ákvað að drífa mig til sálfræðings og er ofboðslega fegin því að hafa gert það. Eftir á að hyggja er ég líka svo fegin að hafa gengið í gegnum þessa reynslu, því ég þurfti að fá þennan þroska; sem ég hefði aldrei fengið ef við hefðum haldið áfram saman. Ég var sjálfstæð fyrir en guð minn almáttugur hvað það bættist í. Þetta gerði mér alveg svakalega gott. Það er svo mikil sóun á tíma að vera að velta sér upp úr því sem var og gerðist og vera bitur. En því miður detta margir í þann pytt.“

Það þarf ekki að skilja við makann til að gera eitthvað fyrir sjálfan sig
Fyrir nokkrum árum prýddi Berglind forsíðu Vikunnar og talaði í forsíðuviðtalinu meðal annars um ferðalag sitt til Ítalíu, þar sem hún giftist sjálfri sér og leyfði fylgjendum sínum á Instagram að fylgjast með. Berglind hefur verið dugleg að ferðast, bæði ein og með öðrum og síðastliðið sumar hélt hún til ítölsku eyjarinnar Ischia. Hún segist hafa fengið ótrúlega góð viðbrögð frá konum sem langaði að vita meira um þessa fallegu eyju og nú er svo komið að næsta vor er Berglind að fara með hóp kvenna til Ischia þar sem dvelja á í eina viku. Ferðin er ekki komin í sölu, en það líður að því, og Berglind segir að um 500 konur hafi skráð sig á lista til að komast með. „Ischia er dásamleg eyja, ósnortin og ekki orðin að einhverjum túristastað þar sem allt er fullt af Íslendingum og Englendingum. Ítalirnir fara til Ischia í frí.“

„Ég varð svo svekkt þegar ég sá að ferðin væri í maí, mig langaði svo með en þarna verð ég með ungbarn,“ skýtur Katrín inn í en hún er ófrísk að sínu öðru barni. „Já, þér var nær að láta barna þig,“ segir Berglind hressilega og uppsker hlátur borðfélaganna. „En það verður önnur ferð farin í vor og örugglega aftur næsta haust. Alla vega miðað við áhugann sýnist mér það. Ég fæ skilaboð á hverjum degi frá konum sem spyrja hvort þetta fari nú ekki að koma í sölu.“

Hvernig kom það samt til að þú, sem fórst ein í frí til Ischia, ert allt í einu búin að setja saman hópferð þangað eftir nokkra mánuði?
„Já, það var nú dálítið skemmtilegt. Ég var sem sagt bara í Leifsstöð, á leiðinni út, þegar ég fékk skilaboð frá vinkonu minni sem segir mér að vinkona hennar búi þarna úti, í Ischia, og ég ætti endilega að heyra í henni. Ég ákvað að senda þessari konu, Kolbrúnu Dögg, Kollu, vinabeiðni á Facebook og við byrjuðum strax að spjalla og ákveðum að hittast við tækifæri þegar ég er komin út. Síðan hittumst við og þetta bara gerðist allt í einu; að við vorum búnar að setja saman ferð til Ischia. Kolla er búin að búa þarna úti í tuttugu ár og rekur ferðaskrifstofu með manninum sínum.“

„Mig langar alltaf að prófa að fara ein til útlanda,“ segir Katrín. „Ég var reyndar búin að ákveða að fara ein út en kynntist þá núverandi kærastanum mínum svo það fær að bíða aðeins.“ „Já, gerðu það endilega einhvern tíma,“ segir Berglind. „Það er líka allt í lagi fyrir konur sem eru í sambandi eða giftar að fara eitthvert einar líka. Það þarf ekki að skilja við makann til að maður geti gert eitthvað fyrir sjálfan sig. Mér finnst það reyndar mikilvægur punktur, og gott að nefna, að það er rosalega mikilvægt að gera eitthvað í málunum áður en alltfer í óefni. Ef þú finnur að þú ert aðeins farinn að týna sjálfum þér, þá er um að gera að draga sig aðeins í hlé og fá að finna sig aftur. Fá smávegis tíma fyrir sjálfan sig. Það er nauðsynlegt að báðir aðilar geti gefið hvor öðrum tíma og næði til að rækta sjálfan sig.“

„Þetta er einmitt staðurinn til að koma
og kynnast öðrum konum. Það verður
heilmikil dagskrá og þetta verður
ekkert vandræðalegt. Þetta gæti alveg
verið upphafið að nýjum vinskap fyrir
einhverjar konur.“

 

Þetta er brot úr ítarlegra viðtali sem finna má á vef Birtings.

Texti: Guðrún Óla Jónsdóttir,
Myndir: Íris Dögg Einarsdóttir, Fatnaður á forsíðumynd: AndreabyAndrea

Auglýsing

læk

Instagram